Fundahöld Fundur allra forsvarsmanna flokkanna fer fram í dag.
Fundahöld Fundur allra forsvarsmanna flokkanna fer fram í dag. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur boðað fulltrúa Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Pírata á könnunarfund í dag til að ræða hugsanlegan málefnagrundvöll fyrir ríkisstjórnarsamstarfi.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur boðað fulltrúa Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Pírata á könnunarfund í dag til að ræða hugsanlegan málefnagrundvöll fyrir ríkisstjórnarsamstarfi. Hún segir mikilvægt að fá skýra mynd af stöðunni tiltölulega hratt. „Við ætlum að fara yfir þennan grundvöll með alla saman við borðið og í kjölfarið geta flokkarnir væntanlega farið inn í sitt bakland og tekið afstöðu til þess. Ég vænti þess að flokkarnir vilji svolítið fá tilfinningu fyrir stöðunni áður en þeir taka ákvörðun hver í sínum herbúðum,“ segir Katrín.

Í samtali við Mbl.is í gær sagði Katrín að dagurinn í gær hefði farið í að heyra í fulltrúum annarra flokka og vinna úr fundum sem fram fóru í fyrradag með forystumönnum allra flokka.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir að Katrín hafi tjáð honum að farið verði yfir nokkur málefni á fundinum sem hún hafi ákveðið. „Þetta eru ekki eiginlegar samningaviðræður heldur er bara farið yfir málin saman, eins konar stærri útgáfa af þeim fundi sem formennirnir áttu með henni í gær og sjónarmiðin fleiri,“ segir Benedikt.

Hann segist eiga von á að rætt verði um stóru málin, t.a.m. sjávarútvegsmál, heilbrigðismál og umhverfismál. Aðspurður segir hann að út frá hugmyndum VG og Viðreisnar gætu verið ólík sjónarmið um skattamál. „Mann grunar að þar gætu verið ólíkar áherslur,“ segir Benedikt. Hins vegar sé snertiflötur þegar komi að vinnu við stjórnarskrá og aðgerðir í sjávarútvegi.