Smurt Á bílaverkstæðinu.
Smurt Á bílaverkstæðinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Störfum fjölgar hratt og atvinnuþátttaka er orðin álíka mikil og hún var mest fyrir fjármálakreppuna, segir í nýju riti Seðlabanka Íslands, Peningamálum, sem út kom í vikunni.

Störfum fjölgar hratt og atvinnuþátttaka er orðin álíka mikil og hún var mest fyrir fjármálakreppuna, segir í nýju riti Seðlabanka Íslands, Peningamálum, sem út kom í vikunni. Þar greinir frá því að á þriðja fjórðungi þessa árs, það er tímabilinu júlí-september, hafði fólki á vinnumarkaði fjölgað um 4,5% frá fyrra ári. Á sama tíma hafi vinnustundum fækkað um 1,2%. Það endurspegli hagræðingu sem stjórnendur fyrirtækja hafi þurft að fara í vegna kjarasamninga í fyrra. Heildarvinnustundum fjölgaði því um 3,2% milli ára, sem er í samræmi við ágústspá bankans. Fólki á vinnualdri hefur einnig fjölgað mikið, m.a. vegna innflutnings á erlendu vinnuafli.

Atvinnuþátttaka er nú orðin áþekk því sem hún var mest í ársbyrjun 2007 sem vegur á móti áhrifum fjölgunar starfa á atvinnuleysi. Mældist atvinnuleysi 3,1% á þriðja ársfjórðungi og hafði minnkað um 1% frá sama tíma í fyrra.

Útlit er fyrir að vinnuaflseftirspurn verði áfram mikil, að mati Seðlabankans. Þar er vitnað til haustkönnunar Gallup þar sem fram kom að tæplega þriðjungi fleiri fyrirtæki fjölgi starfsfólki frekar en fækka á næsta hálfa árinu. Í ferðaþjónustu fækkaði hins vegar fyrirtækjum sem vildu fjölga starfsfólki. sbs@mbl.is