Helgi Viborg
Helgi Viborg
Eftir Helga Viborg: "Undirritaður ítrekar því nauðsyn þess að bæta laun kennara en bendir á að annar stuðningur við starf þeirra þarf einnig að koma til."

Það fer ekki framhjá neinum að kennarar eru mjög ósáttir við laun sín og kjör. Það sem er verra er að þetta er uppsafnaður vandi til margra ára. Launakröfum þeirra verður að mæta. Aðrir mikilvægir þættir hafa hins vegar ekki fengið nægilega athygli.

Kennarar hafa í mörg ár óskað eftir meiri stuðningi í starfi vegna breyttra aðstæðna og forsendna í starfi þeirra. Í því sambandi er oftast horft til þess álags sem felst í stefnunni um Skóla án aðgreiningar. Þessi stefna var formfest með lögum um grunnskóla 2008 og í kjölfarið fylgdu reglugerðir með frekari útfærslu. Í stuttu máli felur þessi stefna í sér að börn sem sinna þarf sérstaklega vegna sérþarfa í námi eða í hegðun eiga ekki að vera tekin út úr hinum almenna bekk og sett í sérúrræði heldur fá kennslu og aðra sérþjónustu í heimabekk sínum með jafnöldrum sínum. Margt má segja gott um þessa hugmyndafræði og flestir eru henni sammála. Það sem hins vegar vill gleymast er að til að þessi hugmyndafræði gangi upp þarf ýmislegt að breytast í skólanum og stuðningur við hinn almenna kennara þarf að eflast til muna. Þetta hefur brugðist. Kennarar þurfa í dag að sinna börnum með ýmsar sérþarfir; í bekknum þeirra eru oftar en ekki mörg börn með flóknar greiningar sem erfitt getur verið að fást við, hvað þá í fjölmennum hópi barna. Kennarar í dag fá ekki nægilegan stuðning í starfi sínu og upplifa þess vegna mikið álag.

Í reglugerð um skólaþjónustu sem kom út 2010 er í 12. gr. ákvæði um að starfsfólk skólaþjónustu geri með starfsfólki skóla tillögu um viðeigandi úrræði í framhaldi af athugun eða greiningu á nemanda. Með þessu ákvæði er framfylgt skýrri áherslu nýrra laga, sem kom fram við meðferð þingsins, sbr. nefndarálit menntamálanefndar. Jafnframt er gert ráð fyrir að eftirfylgni og mat á árangri verði í höndum skólaþjónustu í samstarfi við skóla. Á þessum tímapunkti tókust sérfræðingar Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisins á um kostnaðarauka sveitarfélaga vegna þessara ákvæða. Niðurstaðan var að kostnaðaraukningin væri um 200 milljónir, aðallega vegna ákvæðis um eftirfylgni. Ætla má að í dag sé þetta um 300 milljónir sem sveitarfélögin fengu til sín frá ríkinu til stuðnings við þessa nýju skólastefnu. Þessir peningar hafa ekki skilað sér út í skólastarfið til stuðnings kennurum. Áætlað er að Reykjavíkurborg beri um 40% heildarútgjalda á landinu á þessu sviði og þar af leiðandi má ætla að setja þyrfti árlega 120 milljónir í ráðningu kennslu- eða sérkennsluráðgjafa við grunnskóla Reykjavíkur til að sinna eftirfylgd barna sem greind eru með sérþarfir. Þessir aðilar myndu vera beinn stuðningur við kennara inn í bekk eða við skólastarfið vegna þessara nemenda. Ef þessir peningar hefðu ekki verið sviknir af skólabörnum fengju kennarar í dag mun meiri stuðning og upplifðu minna álag.

Ástæða er einnig til að minnast á að í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga eru ákvæði um ábyrgðarskiptingu um þjónustu við börn með tal- og málþroskavanda. Mörg sveitarfélög hafa ekki séð ástæðu til að framfylgja þessum ákvæðum. Í Reykjavík er börnum mismunað. Þjónusta talmeinafræðinga er í þokkalegu standi í Grafarvogi og á Kjalarnesi en annars staðar í Reykjavík fá börn hana síður. Þessi stuðningur við nám barna, sérstaklega lestrarnámið, er kennurum mjög mikilvægur og léttir mikið álag í fyrstu bekkjunum.

Undirritaður ítrekar því nauðsyn þess að bæta laun kennara en bendir á að annar stuðningur við starf þeirra þurfi einnig að koma til.

Höfundur er kennari og deildarstjóri skólaþjónustu í Grafarvogi og Kjalarnesi.