Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Ég sé enga leið til þess að halda útvarpsstöðinni gangandi við þessi skilyrði,“ segir Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Ég sé enga leið til þess að halda útvarpsstöðinni gangandi við þessi skilyrði,“ segir Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.

Vísar hún í máli sínu til ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) þess efnis að hafna kröfu stöðvarinnar um að fá varanlega heimild til notkunar á tíðninni 102,1 MHz til viðbótar við þá tíðni sem félagið hefur nú þegar heimild til að nota á höfuðborgarsvæðinu. Er Útvarpi Sögu nú gert að hætta notkun á áðurnefndri tíðni eigi síðar en 25. nóvember næstkomandi, en verði tíðnin enn í notkun mun PFS grípa til þvingunarúrræða og leggja á fyrirtækið dagsektir án viðvarana.

„Við höfum í 12 ár verið með tíðnina 99,4 og orðið þess vör að sú tíðni dugar ekki til að þekja allt höfuðborgarsvæðið. Vegna þessa fengum við fjölmargar kvartanir og það varð að lokum til þess að við báðum Póst- og fjarskiptastofnun um aðra tíðni sem gæti virkað betur með sterkari sendi. Niðurstaðan var tíðnin 102,1,“ segir Arnþrúður.

Þá bendir hún einnig á að tíðnin 102,1 MHz hafi veitt Útvarpi Sögu færi á að ná til hlustenda á Akranesi, Borgarnesi og Reykjanesi og að hluta á Suðurlandi. En að auki fyllti tíðnin upp í áður dauð útsendingarsvæði í Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ og efri byggðum Reykjavíkur.

„Ef við missum þessa tíðni detta Suðurnesin út, Borgarnes og Akranes að stórum hluta, allt Breiðholtið, Grafarvogur og Árbæjarhverfi. Efri byggðir í Kópavogi og Hafnarfirði detta einnig út,“ segir Arnþrúður og heldur áfram: „Við verðum að hafa báða senda, rétt eins og Bylgjan þarf þrjá senda til þess að ná til hlustenda á þessu sama svæði og Ríkisútvarpið fimm.“

Engin aukatíðni frá 1998

Um árabil hefur framkvæmd tíðniúthlutana hjá PFS verið með þeim hætti að eingöngu er úthlutað einni tíðni fyrir sérhverja dagskrá á sama svæði. Tíðniúthlutanir til RÚV byggja hins vegar á þeirri skyldu sem hvílir á félaginu að dreifa efni sem nái til allra landsmanna.

Íslenska útvarpsfélagið fékk árið 1998 leyfi PFS til að setja upp sendi fyrir Bylgjuna í Víðinesi með annarri tíðni en félagið hafði heimild til að nota á höfuðborgarsvæðinu. Var það m.a. heimilað sökum þess að á þeim tíma var eftirspurn eftir FM-tíðnum fremur takmörkuð. Frá þeim tíma hefur ekki verið úthlutað aukatíðni fyrir neina útvarpsstöð á höfuðborgarsvæðinu.

Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar þess efnis að neita Útvarpi Sögu um umrædda tíðni er kæranleg til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Arnþrúður segir stöðina ætla að grípa til þess úrræðis strax eftir helgi. „Við munum gera það á mánudaginn,“ segir hún.