Takk Leikmenn íslenska landsliðsins þakka áhorfendum fyrir stuðninginn.
Takk Leikmenn íslenska landsliðsins þakka áhorfendum fyrir stuðninginn. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
STRÁKARNIR OKKAR Ívar Benediktsson iben@mbl.is Nú er liðinn um hálfur mánuður síðan íslenska landsliðið í handknattleik karla lék tvo leiki í undankeppni Evrópumeistaramótsins.

STRÁKARNIR OKKAR

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Nú er liðinn um hálfur mánuður síðan íslenska landsliðið í handknattleik karla lék tvo leiki í undankeppni Evrópumeistaramótsins. Heimaleikurinn við Tékka vannst naumlega en viðureignin við Úkraínu á útivelli tapaðist. Í henni átti íslenska landsliðið heldur undir högg að sækja allan tímann. Sitt sýndist hverjum um frammistöðuna, eins og gengur. Varnarleikurinn þótti vera betri en stundum áður. Markvarslan var misjöfn eins og hún hefur því miður verið lengi vel í sögu karlalandsliðsins.

Sóknarleikurinn þótti hinsvegar slakur. Ekki er ég allskostar sammála því þegar leikurinn er skoðaður þá bjó liðið til mörg marktækifæri í báðum leikjum. Nýtingin á þessum færum var hinsvegar óviðundandi og varð liðinu að falli í seinni leiknum. Sannarlega mátti hraðinn vera meiri í sóknarleiknum en þegar öllu er á botninn hvolft var hann ekki aðalvandinn. Auk þess fékk íslenska liðið fá hraðaupphlaup í leikjunum tveimur. Þegar íslenska landsiðið var upp á sitt besta skoraði það þriðjung marka sinna eftir hraðaupphlaup og hina svokölluðu seinni bylgju, sem er einn angi hraðaupphlaups þótt andstæðingurinn nái í stilla sér upp í vörn.

Óbreytt staða

Nokkru áður en undankeppnin hófst var fullyrt á þessum vettvangi að riðill íslenska landsliðsins í undankeppninni væri snúinn. Geir Sveinsson landsliðsþjálfari vitnaði til þessara orða, á fundi með fréttamönnum, fyrir fyrsta leikinn í undankeppninni.

Liðin fjögur geta unnið hvert annað og ekki er hægt að slá neinu föstu um hvaða tvö lið fara upp úr riðlinum og áfram í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Króatíu í janúar 2018. Fyrsti þriðjungur riðlakeppninnar sannaði að fullyrðingin hefði ekki verið út í hött. Eins og stundum áður þá hafa eftiráspekingar einnig áttað sig á þessari staðreynd og haldið henni óspart fram sem mikilli uppgötvun.

Staðreyndin er sú að svo kann að fara að íslenska landsliðið verði ekki með á EM 2018. Undir það verða menn að vera búnir svo þeir fari ekki fram úr sér í fullyrðingunum í júní nk. þegar riðlakeppninni lýkur.

Geir Sveinsson landsliðsþjálfari hefur á sínum stutta tíma í starfi staðið frammi fyrir breytingum á landsliðshópnum. Leikmenn hafa helst úr lestinni, bæði að eigin ósk og vegna ákvarðana landsliðsþjálfarans. Kynslóðaskipti eiga sér stað innan landsliðsins.

Skal taka stærra skref?

Vegna þess má velta fyrir sér hvort rétt sé að stíga stærri skref í þeim efnum og þjálfari stokki enn meira upp í leikmannahópnum. Fjárhagur HSÍ leyfir því miður ekki að haldið sé úti B-landsliði sem leikur saman gegn útlendum landsliðum þar sem þeir óreyndari fengju nasaþefinn af landsleikjum og landsliðsþjálfarinn hefði tækifæri til þess að sjá hvað í þeim mönnum býr sem banka á dyr A-landsliðsins.

Nánast ekkert svigrúm er fyrir landsliðið til að koma saman utan hinna alþjóðlegu leikdaga til að leika vináttulandsleiki eins og áður fyrr.

Látum slag standa

Í janúar tekur íslenska karlalandsliðið þátt í að minnsta kosti átta leikjum. Þrír þeirra verða undirbúningsleikir fyrir þátttöku í heimsmeistaramótinu sem fram fer í Frakklandi þar sem landsliðið leikur hið minnsta fimm leiki. Er ekki rétt að velta því að minnsta kosti alvarlega fyrir sér hvort ekki sé rétt að stokka meira upp í landsliðinu og fara með þann hóp í verkefnin í janúar? Láta reyna á Adam Hauk Baumruk, sem er skytta góð og hávaxinn sem einnig getur leikið í miðri vörninni, Janus Daða Smárason í stöðu leikstjórnenda, láta Arnar Frey Arnarsson hafa óhikað stærra hlutverk í vörn sem sókn, gefa jafnvel Aroni Degi Pálssyni leikstjórnanda tækifæri. Enginn efast um að hann er framtíðarleikstjórnandi landsliðsins auk þess að geta leikið stórt hlutverk í varnarleiknum. Theodór Sigurbjörnsson má einnig leika stærra hlutverk í hægra horninu og einnig Bjarki Már Elísson og/eða Stefán Rafn Sigurmannsson í vinstra horni. Þá væri ekki úr vegi að láta reyna á Daníel Frey Andrésson eða Hreiðar Levý Guðmundsson í markinu. Fleiri má eflaust tína til.

Auðvitað vilja menn sjá góðan árangur á mótinu. Á sama tíma vilja margir áframhaldandi uppbyggingu landsliðsins. Væri þá nokkuð svo galið að „fórna“ einu heimsmeistaramóti í uppbyggingu þótt það kynni að kosta að landsliðið komist ekki upp úr riðlinum og í 16 liða úrslit þar sem liðið heltist úr lestinni á síðasta móti?

Staðreyndin er væntanlega sú að íslenska landsliðið verður hvort eð er ekki heimsmeistari að þessu sinni. Alltént bendir fátt til þess.