Yfir sjó og land Loftskrúfubátarnir eru vinsælir í Ameríku, bæði til hagnýtrar notkunar og siglinga með ferðafólk.
Yfir sjó og land Loftskrúfubátarnir eru vinsælir í Ameríku, bæði til hagnýtrar notkunar og siglinga með ferðafólk.
Borgnesingar eru að athuga möguleika á því að láta smíða fyrir sig flatbytnu, loftskrúfubát, til björgunarstarfa á grynningum í Borgarfirði og innanverðum Faxaflóa.

Borgnesingar eru að athuga möguleika á því að láta smíða fyrir sig flatbytnu, loftskrúfubát, til björgunarstarfa á grynningum í Borgarfirði og innanverðum Faxaflóa. Ef áformað tilraunaverkefni á vegum björgunarsveitarinnar Brákar tekst vel geta opnast möguleika til reksturs slíkra báta til skemmtisiglinga með ferðafólk um þetta svæði og upp með Hvítá.

Hollvinasamtök Borgarness og björgunarsveitin Brák í Borgarnesi hafa verið að sækja um styrki til að láta smíða loftskrúfubát. Kjartan Ragnarsson, fulltrúi Hollvinasamtakanna, segir að Vaxtarsamningur Vesturlands hafi kostað dýptarmælingar sem gerðar hafi verið til undirbúnings verkefninu. Kostnaður við tilraunaverkefnið í heild er áætlaður tæpar sjö milljónir króna. Vaxtarsamningurinn hefur synjað félögunum um styrk til bátakaupanna en Kjartan segir að ætlunin sé að sækja um styrki á öðrum stöðum.

Vill auka afþreyingu

Kjartan hefur áhuga á að auka afþreyingu fyrir ferðafólk í Borgarfirði. Til að fólkið dvelji lengur í héraðinu þurfi það að hafa eitthvað að gera. Hann segir að ef verkefnið leiði í ljós að hægt væri að nota slíka báta gætu kraftmiklir ungir menn vafalaust séð þarna tækifæri.

Vísar hann til notkunar slíkra báta í fenjunum í Flórída, á vötnunum miklu í Bandaríkjunum og Kanada og í Alaska. Bátarnir eru drifnir áfram af risastórum viftum þannig að ekki er hætta á að þeir reki skrúfuna niður þótt siglt sé yfir sjó og land.

helgi@mbl.is