Innsiglað Ásgeir Sveinsson, formaður meistaraflokksráðs Aftureldingar, t.v. og Ernir Hrafn Arnarson innsigluðu samning þess síðarnefnda við Aftureldingu með handabandi að undirskrift lokinni.
Innsiglað Ásgeir Sveinsson, formaður meistaraflokksráðs Aftureldingar, t.v. og Ernir Hrafn Arnarson innsigluðu samning þess síðarnefnda við Aftureldingu með handabandi að undirskrift lokinni. — Ljósmynd/Afturelding
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Ég hætti ekki í vor. Ég meiddist og hef ekkert leikið síðan.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Ég hætti ekki í vor. Ég meiddist og hef ekkert leikið síðan. Nú er ég tilbúinn í slaginn á ný,“ sagði handknattleiksmaðurinn Ernir Hrafn Arnarson við Morgunblaðið í gær eftir að hann skrifaði undir samning við uppeldisfélag sitt, Aftureldingu, í gær. Hann verður löglegur með Aftureldingu í upphafi næsta árs þegar opnað verður fyrir félagaskipti og gjaldgengur um leið. Samningur Ernis Hrafns við Aftureldingu gildir til loka leiktíðar í vor.

„Ég er spenntur fyrir að byrja að æfa og spila á nýjan leik,“ sagði Ernir Hrafn sem er örvhent skytta og er ætlað að auka breiddina í leikmannahópi Aftureldingar á síðari hluta Íslandsmótsins.

Ernir Hrafn flutti heim í sumar eftir fimm ára dvöl í Þýskalandi þar sem hann lék með Düsseldorf í skamman tíma. Hann var lengst af í herbúðum TV Emsdetten sem um nokkurt skeið átti sæti í efstu deild þýska handboltans. Ernir Hrafn var fyrirliði Emsdetten síðustu þrjú árin sín hjá liðinu. Hann sagði upp samningi sínum við félagið í vor. Þá átti hann ár eftir að samningnum.

Síðasta með Aftureldingu fyrir 10 árum

„Nokkur lið höfðu samband við mig í sumar en meira varð ekkert út því þá. Þegar Aftureldingarmenn töluðu við mig fyrir nokkru þá ákvað ég að láta slag standa og er bara spenntur fyrir að klæðast Aftureldingarpeysunni á nýjan leik,“ sagði Ernir Hrafn sem varð þrítugur á dögunum og lék síðast með Aftureldingu vorið 2006. Þá um sumarið gekk Ernir Hrafn til liðs við Val og var í herbúðum Hlíðarendaliðsins fram á sumarið 2011 þegar hann fluttist til Þýskalands.

Ernir Hrafn upphandleggsbrotnaði undir lok keppnistímabilsins í vor. „Það lítur vel út núna. Ég hef engar áhyggjur,“ sagði Ernir Hrafn.

„Næst á dagskrá er að mæta á æfingar hjá og hitta nýja samherja. Enn eru nokkrir eftir af þeim sem ég lék með fyrir 10 árum.“

Ernir Hrafn á að baki 16 A-landsleiki. Hann var m.a. í íslenska landsliðinu sem tók þátt í heimsmeistaramótinu á Spáni í ársbyrjun 2013.

Ásgeir Sveinsson, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Aftureldingu, er himinlifandi yfir að hafa klófest Erni Hrafn. Ásgeir sagði í samtali við Morgunblaðið að koma Ernis tengdist ekki meiðslum örvhentu skyttunnar Birkis Benediktssonar sem fingurbrotnaði og verður frá keppni fram í lok í janúar. „Við höfum haft Erni í sigtinu frá því í sumar að hann flutti heim. Við misstum bæði Jóhann Gunnar Einarsson og Jóhann Jóhannsson eftir síðasta keppnistímabil. Síðan höfum við horft í kringum okkur eftir liðsstyrk. Ernir Hrafn var okkar fyrsti kostur,“ sagði Ásgeir. „Við erum mjög ánægðir að hafa krækt í Erni Hrafn. Hann er öflugur, fjölhæfur og reyndur leikmaður sem er uppalinn í Aftureldingu og kemur hann til með að styrkja hópinn okkar mikið í baráttunni í Olís-deildinni,“ segir Ásgeir Sveinsson.

Ljóst er af þessum fregnum að Aftureldingarmenn ætla sér að leggja allt í sölurnar til þess, hið minnsta, að leika um Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð.