Ágúst Fjeldsted fæddist 19. nóvember 1916 í Reykjavík, sonur hjónanna Lovísu og Lárusar Fjeldsted hrl. Ágúst lauk stúdentsprófi frá MR 1936 og embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1941. Hann varð héraðsdómslögmaður árið 1944 og hæstaréttarlögmaður árið 1956.

Ágúst Fjeldsted fæddist 19. nóvember 1916 í Reykjavík, sonur hjónanna Lovísu og Lárusar Fjeldsted hrl.

Ágúst lauk stúdentsprófi frá MR 1936 og embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1941. Hann varð héraðsdómslögmaður árið 1944 og hæstaréttarlögmaður árið 1956. Hann varð fulltrúi í málflutningsskrifstofu föður síns 1941 og rak hana síðan í félagi við hann og Theódór B. Líndal hrl. til 1955, en síðan í félagi við Benedikt Sigurjónsson hrl. til 1966. Frá 1966 rak hann skrifstofuna með Benedikt Blöndal hrl. og síðar einnig Hákoni Árnasyni hrl., en frá 1988 og allt til dauðadags rak hann skrifstofuna í félagi við son sinn, Skúla Th. Fjeldsted hrl., og Harald Blöndal hrl.

Ágúst var í stjórn Lögmannafélags Íslands 1945-1966 og var formaður frá 1960-1966. Hann átti sæti í stjórn Sjóvátryggingafélags Íslands hf. 1964-1969 og í stjórn Sjóvár-Almennra trygginga hf. frá árinu 1989 til dauðadags, og einnig í stjórn Líftryggingafélags Sjóvár og síðar Sjóvár-Almennra trygginga hf. Hann sat m.a. í stjórn Almenna byggingafélagsins hf. 1947-1975 og var formaður frá 1970-1975 er félagið var sameinað Almennu verkfræðistofunni hf. Hann var stjórnarformaður í Nýja bíói hf. 1965-1987.

Ágúst var lögfræðilegur ráðunautur breska og danska sendiráðsins á Íslandi frá 1964 og var hann sæmdur riddarakrossi Dannebrog árið 1973 og gerður Commander of the Order of the British Empire (CBE) 1967. Hann var heiðursfélagi í Lögmannafélagi Íslands.

Ágúst var þrígiftur. Fyrsta kona hans var Jónína Skúladóttir Thorarensen, f. 22.11. 1916, d. 12.12. 1958, og eignuðust þau fimm börn: Vigdísi, Andrés, Skúla, Lárus og Ágúst. Önnur kona Ágústs var Hjördís Þorleifsdóttir, f. 20.4. 1916, d. 12.3. 1976. Þriðja kona Ágústs var Guðrún Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 6.1. 1948.

Ágúst lést í Reykjavík 21.6. 1992.