Svavar Svavarsson
Svavar Svavarsson
Eftir Svavar Svavarsson: "Fram kemur í skýrslunni að árið 2013 voru 18 Evrópulönd með minna af geislavirkum úrgangi en Ísland og 12 Evrópulönd með minni losun koldíoxíðs á hverja notaða kWst."

Hreinleiki raforkunnar seldur til annarra Evrópulanda í skiptum fyrir jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

18. október síðastliðinn birti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið á heimasíðu sinni skýrslu um úttekt á upprunaábyrgðum raforku í íslensku samhengi sem ráðgjafafyrirtækið Environice gerði fyrir ráðuneytið.

Fram kemur í skýrslunni að árið 2013 voru 18 Evrópulönd með minna af geislavirkum úrgangi en Ísland og 12 Evrópulönd með minni losun koldíoxíðs á hverja notaða kWst.

Íslensk orkufyrirtæki hófu sölu á upprunaábyrgðum raforku árið 2011. Síðan þá hefur raforka til íslenskra notenda, fyrirtækja og heimila, að stórum hluta verið skilgreind sem upprunnin frá jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

Þau fyrirtæki á Íslandi sem færa hjá sér svokallað grænt bókhald hafa því ekki heimild til að túlka þá raforku sem þau kaupa sem endurnýjanlega að öllu leyti þótt hún sé það í raun.

Hinn 16. nóvember 2015 undirritaði HB Grandi loftslagsyfirlýsingu Festu – félags um samfélagsábyrgð og Reykjavíkurborgar. Þar skuldbatt fyrirtækið sig ásamt rúmlega 100 öðrum íslenskum fyrirtækjum til að:

1. Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda

2. Minnka myndun úrgangs

3. Mæla árangur og gefa reglulega upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta

Þessi yfirlýsing var gerð í aðdraganda Parísarsamkomulagsins COP21 sem Sameinuðu þjóðirnar stóðu fyrir og er sameiginlegt átak þjóða heims um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt og til að upplýsa á ábyrgan hátt halda fyrirtækin sem stóðu að ofangreindri loftslagsyfirlýsingu bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda og myndun úrgangs vegna sinnar starfsemi.

Nærtækast að auka notkun rafmagns

Ljóst má vera að nærtækasta aðferð íslenskra fyrirtækja til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er að auka notkun rafmagns í stað olíu. Margar fiskmjölsverksmiðjur hafa nú þegar verið rafvæddar og skip eru tengd við rafmagn í höfnum í stað þess að brenna olíu. Rafbílar og rafhjól eru að ryðja sér til rúms o.s. frv. Möguleikar okkar Íslendinga til að skipta úr olíu yfir í rafmagn virðast vera óþrjótandi.

Hins vegar er það niðurstaða umræddrar úttektar Environice að íslenskum fyrirtækjum er ekki heimilt að skilgreina þá raforku sem þau kaupa af íslenskum orkufyrirtækjum sem 100% endurnýjanlega. Þeim ber samkvæmt lögum að taka tillit til þess hlutfalls jarðefnaeldsneytis og kjarnorku sem kemur fram á rafmagnsreikningum þeirra. Það er ekki hægt að tvítelja hreinleikann!

Hreinleiki raforku sérstök söluvara

Íslensk orkufyrirtæki hafa heimild til þess samkvæmt íslenskum lögum að gera hreinleika raforkunnar að sérstakri söluvöru. Kaupendur eru orkufyrirtæki í Evrópu sem hafa heimild til þess að bjóða viðskiptavinum sínum endurnýjanlega orku þó að hún sé það ekki í raun. Það gera þau m.a. á grundvelli þeirra upprunaábyrgða sem þau kaupa frá íslenskum orkufyrirtækjum.

Á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem lét gera þessa úttekt kemur fram það mat Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra að brýnt sé að staðinn sé vörður um þá ímynd og staðreynd að á Íslandi sé eingöngu framleidd og seld endurnýjanleg orka.

Í framhaldi hnykkir hún enn frekar á þeirri skoðun sinni og segir: „Ef markmið stjórnvalda er að tryggja ímynd Íslands og að framsetning á raforkusölu á Íslandi sé með þeim hætti að hér sé eingöngu framleidd og seld endurnýjanleg raforka, þá virðist sala orkufyrirtækja á upprunaábyrgðum úr landi ekki samræmast því markmiði.“

Að lokum segir ráðherra: „Til að ná framangreindum markmiðum, um ímynd Íslands í orkumálum, liggur því beinast við að beina ábyrgðinni að þeim orkufyrirtækjum sem selja upprunaábyrgðir úr landi og fá þau í lið með þeirri stefnu stjórnvalda að tryggja ímynd Íslands um hreina orkuframleiðslu. Í því skyni er mikilvægt að í eigendastefnu þeirra orkufyrirtækja sem eru í eigu hins opinbera verði lögð áhersla á mikilvægi þess að standa vörð um þá ímynd að á Íslandi sé eingöngu framleidd og seld endurnýjanleg orka, og það sé hluti af markaðssetningu Íslands og íslenskra fyrirtækja, sem og almennri orkustefnu.“

Ekki er að undra að ráðherra hafi áhyggjur af þeim aðstæðum sem stjórnvöld og íslensk orkufyrirtæki hafa komið sínum viðskiptavinum í með sölu hreinleikans úr landi í skiptum fyrir kol, olíu og kjarnorku.

Íslensk orkufyrirtæki eru ekki skyldug til að selja hreinleika raforkunnar úr landi en hér þurfa stjórnmálamenn fyrst og fremst að bretta upp ermarnar en þeir komu þessu fyrirkomulagi á með lögum nr. 30/2008 og 757/2012 samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins.

Ýmislegt bendir til að þessi aðferð Evrópusambandsins að koma á fót viðskiptakerfi með upprunaábyrgðir raforku, sem tilraun til að auka hlut endurnýjanlegrar orku innan ESB, sé ekki að virka sem skyldi. Margir telja að aðrar aðferðir svo sem beinir styrkir og ívilnanir muni virka betur.

Kaup á upprunaábyrgðum litin hornauga

Hvað sem því líður þurfum við Íslendingar að líta í eigin barm. Ísland er ekki tengt við raforkukerfi annarra Evrópulanda.

Kaup raforkuframleiðanda í Evrópu á upprunaábyrgðum frá Íslandi eru þess vegna af ýmsum litin hornauga í Evrópu, ekki bara á Íslandi.

Ljóst er að evrópsk orkufyrirtæki sem kaupa upprunaábyrgðir frá Íslandi væru ekki að gera það ef þau framleiddu sitt rafmagn með endurnýjanlegum orkugjafa. Þau eru því að mæta kröfum sinna viðskiptavina sem vilja geta sýnt fram á notkun á endurnýjanlegri orku, í sínu græna bókahaldi, í stað raunverulegs uppruna frá kjarnorku eða jarðefnaeldsneyti.

Upprunaábyrgðir raforku virðast því þjóna þeim tilgangi að „skrökva“ á löglegan hátt að neytendum að tiltekin raforka sé upprunnin frá endurnýjanlegum orkugjafa og virðast heldur ekki virka sem sá hvati til að fjárfesta og auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa sem Evrópusambandið stefnir að.

Miklum hagsmunum fórnað fyrir minni

Þessi tenging við Ísland virðist því hvorki þjóna íslenskum né evrópskum hagsmunum. Hagnaður íslenskra orkufyrirtækja af sölu hreinleikans hefur verið um 0,1% af heildar raforkusölu íslensku orkufyrirækjanna á fimm ára tímabili frá 2011 til 2015. Auðvelt er því að draga þá ályktun að hér sé verið að fórna miklum hagsmunum fyrir hlutfallslega mun minni hagsmuni.

Það virðist því nærtækast í stöðunni að íslensk orkufyrirtæki sammælist um að hætta sölu upprunaábyrgða raforku til útlanda frá og með næsta ári 2017 og taki þannig sjálf frumkvæðið í að stöðva þessa óheillaþróun.

Skorað er á verðandi stjórnvöld og nýkjörna þingmenn að finna leiðir til að afnema lög nr. 30/2008 og 757/2012 eða í það minnsta að gera breytingar á þeim sem fela í sér að upprunaábyrgðir raforku verði ekki seldar úr landi.

Höfundur er framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar HB Granda.