[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ólafur Fáfnir Sigurgeirsson olafur@mbl.

Baksvið

Ólafur Fáfnir Sigurgeirsson

olafur@mbl.is

„Íslendingar hafa mikil tækifæri til að byggja upp græna ímynd sem gæti laðað að erlenda fjárfestingu til landsins,“ segir Paul Nillisen, meðeigandi hjá PricewaterhouseCoopers (PwC) í Hollandi. Hann hefur sérhæft sig í sjálfbærni, virðiskeðju og endurnýjanlegri orku og veitt fyrirtækjum og opinberum aðilum ráðgjöf við stefnumótun á sviði orku- og úrgangsmála. Nillisen var meðal fyrirlesara á fundi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, PwC og Háskóla Íslands um ívilnanir, nýfjárfestingar og samkeppnishæfni sem haldinn var á dögunum.

Að sögn Nillisen felast tækifærin fyrir Ísland í því að byggja á styrkleikum sínum við uppbyggingu atvinnulífsins; meðal annars væri hægt að rafvæða samgöngur og stuðla markvisst að uppbyggingu græns hagkerfis.

Vinnið með styrkleikana

„Íslendingar ættu að spyrja sig að því hvað gerir Ísland svona einstakt og nýta það svo til þess að laða fjárfesta og fjárfestingar til Íslands,“ segir Nillisen. „Með því að horfa inn á við og gera sér grein fyrir styrkleikum sínum næst sterkari grunnur til vaxtar og betri möguleikar á að ná árangri.“

Ísland ætti að kortleggja þá geira sem væru hentugir til að laða að erlenda fjárfestingu með það að markmiði að stuðla að virðisaukningu í þeim geirum, að mati Nillisen.

„Sérstaða Íslands liggur meðal annars í grænni orku, sjálfbærum fiskveiðum og ferðamennsku. Ef styrkleikar Íslands á þessu sviði eru samnýttir opnar það nýja möguleika sem annars yrðu ekki til.“

Stefnumótun í ferðaþjónustu

Að sögn Nillisen þurfa Íslendingar að fara varlega í því hvers konar ferðamennsku þeir ákveða að byggja upp á Íslandi. Á ferðamennskan að byggjast á að laða sem flesta til landsins? Eða á hún að byggjast á ferðamennsku sem snýst meira um að selja fegurð náttúrunnar á Íslandi þar sem menn greiða hærra verð fyrir að upplifa það sem Ísland hefur upp á að bjóða?

„Ef þið hafið ekki stefnumótun um hvers konar ferðamennska á að þrífast á Íslandi er mjög erfitt að snúa til baka á einhverjum tímapunkti og endurskipuleggja þau mál,“ segir Nillisen.

Ýmis tækifæri fyrir Ísland

Ýmis tækifæri eru í kringum orkugeirann að mati Nillisen. „Álver hafa verið áberandi notendur orku á Íslandi en aðrir geirar gætu viljað nýta sér hana. Matvælaframleiðsla er ein af þeim greinum sem nota mikla orku, hún býr einnig til fleiri atvinnutækifæri og virðisaukningin er meiri en hjá greinum sem sinna einungis frumframleiðslu,“ segir Nillisen. „Þetta tengist líka fiskveiðum, en með því að sameina kosti ódýrrar orku, fiskveiða og matvælaframleiðslu er hægt að búa til sterka einingu sem dregur stuðning sinn af styrkleikum landsins.“
Græn gildi
» Ísland er hentugur staður til að rafvæða samgönguflotann að mati Nillisen.
» Sparast gætu 250 milljónir evra á ári með því að sleppa því að flytja inn olíu og bensín.
» Það gæti laðað að nýja tegund ferðamanna sem er umhugað um umhverfismál.