Á sýningunni gefur að líta stór olíumálverk, minni krosssaumsverk, silkiþrykksmyndir og teikningar. Viðfangsefnið í verkunum er skuggahliðar persónuleikans, faldar tilfinningar, skömm og tabú. Í tilkynningu segir að hægt sé að horfast í augu við óþægilegar tilfinningar sem reynt sé að halda niðri í daglegu lífi. Tekist er á við efnið á ýmsan hátt en gríman er viðfangsefni í öllum verkunum.
Ingibjörg Huld Halldórsdóttir er fædd og uppalin í Borgarfirði. Hún lærði arkitektúr í Kaupmannahöfn og Lyon í Fraklandi og hefur unnið sem arkitekt og hönnuður samhliða listsköpun. Hún hefur tekið þátt í bæði einka- og samsýningum ytra en þetta er fyrsta einkasýning Ingibjargar hér á landi.
Sýningin fékk verkefnastyrk Myndstefs í ár.