Ívar Benediktsson iben@mbl.is Handknattleiksmaðurinn Árni Steinn Steinþórsson fer í aðgerð á vinstri öxl í lok komandi viku. Hann staðfesti þetta við Morgunblaðið í gær. Þetta verður í annað sinn á árinu sem hann gengst undir aðgerð á öxlinni.

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Handknattleiksmaðurinn Árni Steinn Steinþórsson fer í aðgerð á vinstri öxl í lok komandi viku. Hann staðfesti þetta við Morgunblaðið í gær. Þetta verður í annað sinn á árinu sem hann gengst undir aðgerð á öxlinni. Hin var gerð í apríl á þessu ári en þá var Árni Steinn leikmaður SönderjyskE.

Vegna meiðslanna fékk hann rift samningi sínum við danska úrvalsdeildarfélagið SönderjyskE í vor. Í framhaldinu flutti Árni Steinn heim og gekk til liðs við uppeldisfélag sitt, Selfoss, nýliðana í Olís-deildinni, hefur tekið þátt í þremur síðustu leikjum Selfoss-liðsins í Olís-deildinni en verið aðeins skugginn af sjálfum sér.

„Læknarnir Örnólfur [Valdimarsson] og Brynjólfur [Jónsson] ætla að kíkja á hvort ekki sé hægt að koma öxlinni í lag. Nún get ég ekki kastað boltanum á markið “ sagði Árni Steinn sem reiknar með að vera að minnsta kosti þrjá mánuði frá æfingum og keppni að aðgerð lokinni. „Annars fer framhaldið eftir því hvað þeir finna og geta gert. Aðalmálið er að fá sig góðan þótt það taki tíma,“ sagði Árni Steinn við Morgunblaðið í gær.

Auk þess að leika með Selfossi þá lék Árni Steinn um nokkurra ára skeið með Haukum og varð m.a. Íslandsmeistari með Hafnarfjarðarliðinu vorið 2015. Þá um sumarið gerði hann samning við danska úrvalsdeildarliðið SönderjyskE. Axlarmeiðslin bundu enda á Danmerkurveruna í vor. Árni Steinn á níu landsleiki að baki.