Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Fjölgun hælisleitenda eykur álag á lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem þarf að forgangsraða verkefnum vegna fámennis. Á miðvikudag komu hátt í 50 hælisleitendur til landsins.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Fjölgun hælisleitenda eykur álag á lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem þarf að forgangsraða verkefnum vegna fámennis. Á miðvikudag komu hátt í 50 hælisleitendur til landsins. Fjöldi hælisleitenda sem komið hafa til Íslands á árinu nálgast 1.000.

„Lögreglan tekur svokallað fyrsta viðtal við alla hælisleitendur og skráir upplýsingar um hvern einstakling inn í kerfi okkar. Þetta er verklag sem þekkist um allan heim en vegna manneklu getur skráningin tekið nokkra daga,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

„Útlendingastofnun tekur við af okkur en oft er nærveru lögreglunnar óskað og þá erum við annaðhvort viðstaddir viðtal Útlendingastofnunar eða til taks ef óskað er aðstoðar okkar.“

Fáum bara stærri skóflu

Margeir segir lögregluna ekki geta sinnt mörgum verkefnum sínum líkt og ætla skyldi, enda hafi hvorki verið bætt við fjármagn né mannskap vegna fjölgunar verkefna.

„Við fáum bara stærri skóflu, þetta bætist ofan á önnur verkefni. Við erum að sinna ferðamönnum, hælisleitendum og svo áherslumálum lögreglunnar. Annað fer aftar í forgangsröðina,“ segir Margeir og bendir á að mál sem áður hafi verið í forgangi séu nú komin neðar á lista lögreglu.

„Minni háttar líkamsárásir, fjársvik, óhöpp og annað sem við gátum sinnt áður fyrr verður að bíða og er látið mæta afgangi. Lögreglan er einfaldlega fáliðuð og nær ekki að sinna öllum þeim verkefnum sem hún á að sinna samkvæmt lögboðnum skyldum sínum.“

Lögreglumál
» Forgangsraða þarf málum vegna manneklu hjá lögreglunni.
» Fjársvikamál og minniháttar líkamsárásir sem áður voru í forgangi eru nú látin bíða.
» Fjölgun hælisleitenda eykur á álag hjá lögreglunni.
» Á miðvikudag komu hingað um 50 hælisleitendur í einu.