Guðrún Eva Mínervudóttir, rithöfundur og skáld.
Guðrún Eva Mínervudóttir, rithöfundur og skáld. — Morgunblaðið/Eggert
Skegg Raspútíns segir frá kynnum Guðrúnar Evu Mínervudóttur og Ljúbu, lettnesks garðyrkjubónda. Af þeim kynnum spratt bók sem hefur að geyma sögu Ljúbu og um leið sögu erfiðleikatímabils í ævi Guðrúnar Evu. Árni Matthíasson arnim@mbl.is

Í nýrri skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Skegg Raspútíns, segir frá því er Eva og Matti flytja úr miðborginni til smábæjar, en vandamálin flytja með þeim. Hálfu ári eftir flutninginn hitir Eva í fyrsta sinn Ljúbu, rússneskumælandi garðyrkjubónda frá Lettlandi, og ákveður að segja sögu hennar og um leið sögu sína og sinna.

Aðspurð hvað það hafi verið við sögu Ljúbu sem hreif hana svo segir Guðrún að það hafi verið eitthvað sem Ljúba sagði þegar þær voru að kynnast, eitthvað sem varð til þess að eldingu laust í höfuð hennar. „Það var eitthvað sem gaf mér vísbendingu um hvað hún kæmi í raun langt að, sem fátt annað við hana hafði bent til – hún sker sig ekkert úr. Það var eitthvað við orðalagið sem varð til þess að ég skildi að hún hafði einhvern sans fyrir tungumálinu, þó það væri ekki einu sinni hennar eigið, og sans fyrir hinu pólitíska, hinu dramatíska og hinu póetíska. Mig langaði allt í einu að setjast niður með henni og hlusta á hana tala lengi.“

Frá öðrum heimi

- Það er ýmislegt forvitni- og fróðlegt í sögu Ljúbu og þar á meðal það hvernig hún kemur frá allt öðrum heimi þó það sé ekki langt að fljúga héðan til Lettlands.

„Já, þetta er allt annar heimur og ég vissi ekki að þetta væri svona, ég hef alltaf séð fyrir mér að Eystrasaltslöndin séu eins og hálfgerð Norðurlönd. Ég vissi heldur ekki að það væri þar svona stór rússneskumælandi minnihluti sem hefði blandast svona lítið, mér fannst svo margt merkilegt við þetta. Til dæmis vissi hún ekki hvenær forfeður hennar hefðu flust til Lettlands, en taldi þó að það hefði ekki verið á kommúnistatímanum heldur áður en Lettland varð hluti af Sovétríkjunum.“

- Þið voruð greinilega fljótar að ná trúnaðartengslum.

„Við vorum orðnar nánar áður en við byrjuðum að tala saman um sögu hennar, en mér fannst það líka til eftirbreytni hvað hún var viljug að segja frá. Ég bauð upp á bremsur á meðan við vorum að tala saman og eftirá; þegar ég spurði hana hvort hún væri viss um að þetta og hitt myndi koma fram þá sagði hún: Ég er ekki lengur hrædd við lífið. Ég er ekki hrædd við að segja frá. Þessi setning síaðist inn í mig líka, mér fannst þetta svo gott að vera svona, gott fyrir hana, gott fyrir alla aðra og gott fyrir mig, því ég naut þess svo að heyra frá hennar ævintýrum, þetta var svo mikið örlæti.“

Pukur er úr sögunni

- Það lærist líka með tímanum að það er gott að segja frá.

„Algjörlega og í raun er ekki ástæða til að fela neitt. Það er auðvitað ekki bara ég sem er að fatta það, það er ný öld runnin upp þar sem pukur er úr sögunni og við erum svo fljót að gleyma að við munum ekki af hverju við vorum að pukrast með alla hluti,“ segir hún og skellir uppúr yfir því hvað leyndarhyggjan var kjánaleg, en bætir svo við af meiri alvöru: „Hvaðan kemur þessi skömm yfir því að vera eins og allir eru? Fólk er alltaf að hrasa og reisa sig við og við veikjumst og gerum mistök.“

- Og svo þegar fólk er farið að segja frá þá áttum við okkur á því að við erum öll eins.

„Og verður til þess að sumt fólk heldur að heimurinn sé algerlega að fara í hundana af því það er alltaf verið að tala um hluti sem mátti ekki tala um.“

- Ljúba vill segja sína sögu og segja hana alla. Varð það líka til þess að þú gafst meira af þér en þú ætlaðir?

„Fyrst rann það upp fyrir mér að ég gæti ekki sagt hennar sögu eins og út frá henni, af því að ég er ekki hún og hef aldrei komið til Vilanu pagasts, Gömlu kirkju, heimabæjar hennar. Það væri bara hálfgert fúsk og eitthvað svo skrýtið. Þá rann upp fyrir mér að það væri áhugaverðara að kynnast henni í gegnum mig og þá blandaðist minn hversdagsleiki inní. Á þessum tíma var ég einmitt að ganga í gegnum erfiða hluti og á álagstíma, í nokkur misseri var heimilið undir ákveðinni pressu.

Örugglega eru einhver áhrif frá henni en líka mín sannfæring að maður sé ekki að breiða yfir, að heiðarleikinn sé hafður að leiðarljósi. Það var líka leiðarljós hjá mér allan tímann að af því ég væri bæði að afhjúpa Ljúbu og manninn minn svo mikið þá yrði ég að gera sjálfa mig mest berskjalda, það væri siðferðilega rétt – fyrst ég væri að þessu þá yrði ég að vera í fremstu víglínu.“

Váboðinn Raspútín

Bókin heitir Skegg Raspútíns og Raspútín birtist í henni sem einskonar táknmynd, sem hluti af því sem er að gerast innra með Guðrúnu, birtist í múskatmartröð þegar hún liggur meðvitundarlaus í eldhúsinu heima hjá sér, en hann birtist líka áður en Eva fellur í öngvitið svo vitnað sé beint í bókina:

„Kvöldið eftir að Ljúba sagði mér söguna af lífinu í Gömlu kirkju dró Mínerva ævisögu Raspútíns fram úr bókaskápnum, benti á kápumyndina af fúlskeggjaða munkinum með starandi augnaráðið og sagði: Mamma.

Nei, þetta er Raspútín, sagði ég.

Mamma, sagði hún aftur.“

Guðrún segir að Raspútín sé einskonar váboði, tákn þess að endirinn sé í nánd. „Þó Raspútín hafi ekki verið byltingarmaður þá er hann í huga okkar tákn fyrir endalok keisaradæmisins þó hann hafi ekki kollvarpað því. Hann var kornið sem fyllti mælinn, með því að hafa hann þarna, ólæsan og óskrifandi sveitadurg, var keisarafjölskyldan að sýna þjóðinni fingurinn og að egna á móti sér bæði aðalinn og hirðina. Þetta var mjög brothætt ástand og þetta brothætta, brothætta, brothætta ástand er það sem ég tengdi við. Svo eru allar þessar tilviljanir í bókinni, hvernig barnið átján mánaða dregur ævisöguna framúr bókahillunni og með fyrstu orðunum sem koma útúr muninum á henni er Raspútín af því það var búið að leiðrétta hana svo oft: Nei, þetta er ekki mamma, þetta er Raspútín,“ segir Guðrún og kímir.

- Þú ert mjög opinská og ekki bara hvað þig varðar heldur líka fólkið í kringum þig. Eins og þú nefnir var Ljúba ekki hrædd við að segja frá, en hvað með aðra sem koma við sögu?

„Maðurinn hennar Ljúbu las yfir kaflann sem er um hann og heitir bara Dagur í lífi Hlyns og fékk grænt ljós. Ég gekk svo á milli húsa og náði í næstum því alla sem ég vildi ná í og það kom mér svo á óvart hvað allir voru tilbúnir að gefa mikið af sér, enginn vildi breyta neinu eða gerði fyrirvara við nokkuð, sem sýnir bara kannski að það fólk sem skilgreint er sem venjulega fólkið er kannski fólkið sem er látlausast, er ekki að þykjast og er til í að segja frá. Meira að segja þegar ég bar undir fólk samtal sem ég hafði átt við það og svo samtal sem ég hefði getað átt við það, væri að leggja því orð í munn, þá var það sátt við það og sagði bara: Ég hefði alveg getað sagt þetta.“

Vöruskiptavinir

Ljúba og Eva eru ekki bara trúnaðarvinir, heldur eru þær líka viðskiptavinir. Eva kaupir af henni grænmeti, en oftar en ekki eru viðskiptin vöruskipti. Mínerva segir að vöruskipti séu líka býsna algeng í Hveragerði. „Það er stórkostlegt að hafa rambað inn í þetta, mér fannst eins og ég hefði komist í gegnum einhverjar leynidyr og fannst ég svo heppin að hafa komist í bestu samböndin og að hafa fengið að taka þátt í þessu. Ég hefði ekki þorað að láta mig dreyma um það áður en við fluttum þangað að ég myndi finna þar fjölþjóðlegt samfélag sem byggðist á vöruskiptum.“