Þótt bók Unnar Birnu Karlsdóttur sagnfræðings frá 1998 um mannkynbætur sé um margt fróðleg, er þar missagt, að enski heimspekingurinn Herbert Spencer hafi stutt „félagslegan darwinisma“, þar á meðal mannkynbætur.

Þótt bók Unnar Birnu Karlsdóttur sagnfræðings frá 1998 um mannkynbætur sé um margt fróðleg, er þar missagt, að enski heimspekingurinn Herbert Spencer hafi stutt „félagslegan darwinisma“, þar á meðal mannkynbætur. Sitt er hvað, að vilja ekki fremur en Spencer skattleggja vinnandi fólk í því skyni að halda uppi iðjuleysingjum og að telja ríkið þess umkomið að bæta kynstofninn með því að velja úr þá, sem ættu að fá að fjölga kyni sínu. Fyrrnefnda skoðunin leggur engar verknaðarskyldur á fólk. En síðarnefnda skoðunin felur í sér oftrú á valdsmenn og vanmat á þeirri óvissu, sem lífið er undirorpið. Hver getur sagt til um það með því einu að líta á foreldrana, hvernig rætist úr einstaklingunum, börnum þeirra?

Ekki er að furða að fylgismenn aukinna ríkisafskipta, þjóðernisjafnaðarmenn í Þýskalandi og lýðræðisjafnaðarmenn í Svíþjóð, gengu harðast fram í tilraunum til mannkynbóta á fjórða áratug síðustu aldar. Í Þýskalandi voru í tíð Hitlers um 0,4% þjóðarinnar gerð ófrjó, að því er talið er, en í Svíþjóð tæp 63 þúsund manns eða um 0,8% þjóðarinnar. Helstu hugmyndafræðingar sænskra jafnaðarmanna, Gunnar og Alva Myrdal, mæltu fyrir ófrjósemisaðgerðum.

Á Íslandi árið 1937 bar Vilmundur Jónsson, landlæknir, alþingismaður Alþýðuflokksins, fram og fékk samþykkt frumvarp um ófrjósemisaðgerðir. Taldi hann hættu stafa af „andlega vanþroska“ fólki, þegar það flyttist á mölina og fjölgaði kyni sínu. „Stúlkurnar verða unnvörpum skækjur, eiga lausaleiksbörn á fyrsta kynþroskaaldri og geta oft ekki feðrað, breiða út kynsjúkdóma og hverskonar óþverra, en piltarnir verða betlarar, vandræðamenn, drykkjuræflar og tötralýður,“ skrifaði hann í greinargerð með frumvarpinu. Alls voru 726 manns gerðir ófrjóir (vanaðir eða afkynjaðir) samkvæmt þessum lögum árin 1938-1975.

Menn þurfa ekki að trúa því að allir menn séu fæddir með jafna hæfileika til þess að hafna hinni hrokafullu skoðun Vilmundar Jónssonar. Í annan stað horfa hann og aðrir ríkisafskiptasinnar fram hjá þeim hæfileikum sem ekki verða mældir í prófum inni í skólum, heldur koma í ljós úti í lífinu sjálfu, svo sem dugnaði, framtakssemi, áræðni, lipurð, lagni, útsjónarsemi, hagsýni og peningaviti.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is