Fjall eða fell? Ara Trausta Guðmundssyni: ENN ER deilt um örnefni á Íslandi og þykjast deiluaðilar hvorir fyrir sig vita réttast. Hverfjall við Mývatn hefur heitið svo í mínum huga lengi og á það líka við um margan Mývetninginn.

Fjall eða fell? Ara Trausta Guðmundssyni:

ENN ER deilt um örnefni á Íslandi og þykjast deiluaðilar hvorir fyrir sig vita réttast. Hverfjall við Mývatn hefur heitið svo í mínum huga lengi og á það líka við um margan Mývetninginn. Notaði ég ávallt þetta heiti (sjá t.d. bókina Íslandselda) þar til ég vann að sjónvarpshandriti um Dimmuborgir með einum heimamanna úr Mývatnssveit 1993. Fyrir honum og nokkrum öðrum fyrir norðan heitir fjallið Hverfell. Hann benti mér m.a. á að Landmælingar Íslands hafa breytt nafninu á nýlegum kortum. Ekki grunaði mig að með því að taka kort og orð landvarðar við Mývatn gild, lenti ég á milli atlagna í eins konar bændaglímu milli örnefnafylkinga Þingeyinga.

Lítill munur

Reyndar finnst mér lítill munur á orðunum fell og fjall og er ekkert við Hverfjall(fell) sem hjálpar manni að sjá hvort réttara kunni að vera. Hitt er víst að Hverfell er til á einhverjum bókum og Hverfjall líka, sbr. Þorvald Thoroddsen, Sigurð Þórarinsson og Ólaf Jónsson (höfund verksins Ódáðahraun). En þeir félagar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson kalla gíginn Sandfell á 18. öld og skyldi þá ekki einhver taka það gilt? Og nú er Hverfellið sem sagt komið á kort og í sjónvarpsþátt.

Hreint ekki ljóst

Sjálfur ætla ég að halda mig við Hverfjall í næstu ritverkum; fylgi forverunum í jarðfræðinni. En mér finnst réttast að menn leggi minni tilfinningahita í deilurnar og haldi mér hér eftir utan við þær. Hvað varðar lesendabréf Kristjáns Þórhallssonar í Morgunblaðinu, þar sem hann segir Sjónvarpið ekki hafa leiðrétt "villuna" í Dimmuborgarþættinum, vil ég upplýsa að dagskrárdeild RÚV hafði við mig samband út af símtölum að norðan. Ég taldi RÚV á að leiðrétta ekkert enda málið hreint ekki ljóst ef horft væri til þess að heimamenn teldust ósammála og kort ósamkvæm.

Væntanlega verða bæði heitin lengi við lýði og deilurnar halda áfram, en ég hef sagt mitt síðasta orð um þær.

ARI TRAUSTI GUÐMUNDSSON,

Nökkvavogi 5, Reykjavík.

Ari Trausti

Guðmundsson