Tyrkjaránið 1627 var einn sögulegasti viðburður sautjándu aldar á Íslandi. En ræningjahóparnir, sem hjuggu hér strandhögg, voru tveir, voru frá ólíkum stöðum og komu á ólíkum tímum.

Tyrkjaránið 1627 var einn sögulegasti viðburður sautjándu aldar á Íslandi. En ræningjahóparnir, sem hjuggu hér strandhögg, voru tveir, voru frá ólíkum stöðum og komu á ólíkum tímum. Annar var undir forystu hollensks sjóræningja, sem hét Jan Janszoon van Harlem. Hann hafði tekið trú á íslam og hafði aðsetur í Salè á strönd Marokkó (nálægt Rabat, núverandi höfuðborg). Hafði Janszoon, sem kallaði sig Murat Rei á serknesku, fengið danskan þræl, kunnugan á Íslandi, til að segja sér til.

Janszoon kom til Grindavíkur 20. júní og tók fimmtán manns höndum, en danski kaupmaðurinn á staðnum og landar hans sluppu. Janszoon náði líka á sitt vald tveimur skipum og sigldi til Bessastaða og ætlaði að ræna þar. Þegar eitt skipanna strandaði þar fyrir utan, hafðist Holgeir Rósinkrans hirðstjóri ekki að, á meðan ræningjarnir fluttu fólk og varning á milli til að létta skipið, uns það losnaði, og hneykslaðist Jón Indíafari óspart á aðgerðaleysi hirðstjóra, en þeir Rósinkrans höfðu báðir verið í danska sjóhernum. Hinn ræningjahópurinn er kunnari, en hann kom frá Algeirsborg og var síðar á ferð, á Austurlandi og í Vestmannaeyjum.

Lið Janszoons sneri aftur heim til Salè og seldi hina herteknu Íslendinga og Dani í ánauð. Í Salè var þá eins konar fríríki sjóræningja, og var Janszoon leiðtogi þess. Skömmu eftir ránið á Íslandi, undir lok ársins 1627, fluttist Janszoon til Alsírs og átti eftir að höggva strandhögg á Írlandi og víðar. Sonur hans, Anthony Janszoon van Salee, var ef til vill fyrsti músliminn til að setjast að í Vesturheimi.

Margt hefur verið skrifað um Tyrkjaránið. Hinu hafa færri veitt eftirtekt, að í alkunnri skáldsögu Daníels Defoes deilir söguhetjan, Róbinson Krúsó, um skeið örlögum með Íslendingunum úr Grindavík. Hann er í sögunni hertekinn af sjóræningjum frá Salè röskum tuttugu árum eftir Tyrkjaránið og hírist þar í ánauð í tvö ár, en tekst þá að flýja. Hefði Krúsó verið sannsögulegur, þá hefði hann ef til vill hitt einhverja herleidda Íslendinga í Salè. Og í víðari skilningi deilir Róbinson Krúso hlutskipti með allri íslensku þjóðinni, sem býr á afskekktri eyju, langt frá öðrum löndum, og varð að setja það skilyrði fyrir undirgefni við Noregskonung 1262, að hann tryggði siglingu sex skipa til landsins árlega.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is