Pétur Helgi Ragnarsson fæddist á Rannveigarstöðum í Álftafirði 6. september 1935. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði á Höfn í Hornafirði 21. janúar 2017.
Hann var sonur hjónanna Magnhildar Magnúsdóttur, f. 17. júlí 1898, d. 9. maí 1976, og Ragnars P.E. Péturssonar, f. 2. maí 1901, d. 5. ágúst 1994. Pétur var yngstur af þrem börnum þeirra hjóna. Systur hans eru: Hlíf Ingibjörg, f. 1932, d. 2007, og Borghildur, f. 1934, d. 1961, og uppeldisbróðir er Helgi P. Helgasson, f. 1943. Kona Péturs er Guðmunda Guðný Pétursdóttir, f. 22. júlí 1944, dóttir hjónanna Péturs Elíasar Péturssonar, f. 11. mars 1921, d. 2. ágúst 1993, og Guðbjargar Halldóru Halldórsdóttur, f. 28. maí 1924. Pétur og Guðmunda eignuðust fimm börn, þau eru: 1) Pétur Marías, sambýliskona Sigrún Ragnarsdóttir. Synir hans eru Guðmundur Ragnar og Sigurður Helgi. Börn hennar eru Eðvarð Sigurjónsson, Kristjana Lilja Gunnarsdóttir, börn Kristjönu eru Sigrún Hafdís, d. 2016, og Marinó Ragnar. Einar Bjarni Gunnarsson og María Andersen. 2) Magnhildur, börn hennar eru Guðný Sjöfn Þórðardóttir, unnusti Guðjón Garðar Steinþórsson, og Egill Þór Þórðarson. 3) Ragna, maki Olgeir A. Jóhannesson, börn þeirra eru. a) Elva Björk, dætur Elvu eru Sunna Dís Birgisdóttir og Sara Mekkín Birgisdóttir. b) Gunnar Örn, unnusta Hallveig Karlsdóttir. Dóttir Olgeirs er Hjördís Edda, maki Guðmundur Kristján Guðmundsson, dóttir þeirra er Malen Sif. Sonur Hjördísar er Patrekur Máni Halldórsson. 4) Ólafur Helgi, sonur hans er Þórlaugur Ragnar, d. 2015. 5) Heiður Ósk, maki Baldur Bjarnason, dóttir þeirra er Lilja Dögg. Pétur ólst upp á Rannveigarstöðum hjá foreldrum, systkinum, afa og ömmu. Skólaganga Péturs var ekki löng, alls níu mánuðir á þriggja ára tímabili og var kennslan á nærliggjandi sveitabæjum. Pétur kynnist konu sinni Guðmundu árið 1961 en hún hafði verið nokkur sumur í sveit á Geithellum í Álftafirði. Guðmunda var á þessum tíma búsett í Reykjavík og dvöldu þau þar yfir vetrarmánuðina. Í Reykjavík stundaði Pétur hin ýmsu störf, s.s. við málmsteypu og í Ísbirninum. Sumarið 1963 fluttu þau alfarin austur í Rannveigarstaði, hófu þar búskap og tóku þau formlega við búinu árið 1964. Pétur og Guðmunda hættu búskap á Rannveigarstöðum árið 2001 og keyptu sér hús á Höfn í Hornafirði. Dvöldu þau þar meira og minna á veturna en á sumrin á Rannveigarstöðum og eyddu öllum sínum stundum í skógrækt.
Útför Péturs fer fram frá Hafnarkirkju í dag, 28. janúar 2017, klukkan 11.

Það breyttist ekki með árunum, kæmi vinur minn, Pétur á Rannveigarstöðum, því við. Þegar ég sá hann fyrst, stóð hann á hlaðinu og tók á móti gestum. Þannig vildi hann hafa það. Væri hann ekki úti við, t.d. í hálku, opnaði hann alla jafnan útidyrnar og bauð menn velkomna með bros á vör. Hann hafði gestakomur á hreinu, enda sá löng heimreiðin til þess að upplýsa um mannaferðir á bílaöld. Væri búið að skipuleggja ævintýraferð var hann tilbúinn að leggja í hann með stuttum fyrirvara. En þar sem gestrisnin var ætíð til staðar, var á það lögð áherzla að staldra við í eldhúsinu og fá sér alla vega Neskaffi, sem hvergi smakkaðist betur. Ekkert vantaði reyndar upp á, að boðið væri upp á meðlæti. Ef svo bar undir voru bornir fram þjóðlegir réttir eins og kjötsúpa, svið eða steiktur fiskur.

Alla jafnan sátum við í eldhúsinu og hann spurði frétta eða á góma bar atburði líðandi stundar. Á efri hæðina var gott að koma og fagurt útsýni yfir dalinn hans. Minnisstæð er seta okkar þar kvöld eitt eftir að hauströkkur fór að og beðið var ferða rebba í grenndinni. Togaðist þá á í honum gamla refaskyttan og virðingin fyrir hinu vitiborna dýri, lágfótunni. Varð í það sinn ekki bæði sleppt og haldið í þeim efnum.

Við fórum saman margar öku- og könnunarferðir, en ætíð sátu þó Hofsá og Hofsdalur í fyrirrúmi. Einnig var oft ekið út til eyja í því skyni að handleika dúnhnoðra eða leita matar, einkum á eggtíð. Þar lagði hann sitt af mörkum, þótt hreyfigetan hamlaði för. Eigi ósjaldan bauðst hann til að ganga um veiðina, eins og hann kallaði það og vantaði ekkert upp á snyrtimennskuna. Margar stundir áttum við saman í skansinum að ganga frá matvælum til reykingar. Hann sá svo um að kveikja upp. Reyktu afurðirnar úr kofanum hans Péturs voru lostæti, enda upp úr því lagt að nýta eldsmat, er laðaði hið bezta fram í því, sem reykja átti.

Pétur kunni ógrynni af sögum um menn og atburði. Örnefnaþekkingu hans um Álftafjörð og víðar var við brugðið. Hann hafði mikinn áhuga á búskap, enda hafði ævistarf hans snúist um þá atvinnugrein. Því gengu margar ökuferðir okkar út á að fylgjast með búfé, hagagöngu og heimtum þess. Sjálfur lagði hann metnað í að standa sínar skyldur vegna fjallskila og var ætíð vel mannað í göngur á landi hans.

Tvennt gat komið í veg fyrir að hægt væri að freista Péturs með ökuferðum. Væri gesta von, afþakkaði hann þær þann daginn. Hitt var það að ætíð sat fyrir á gróðrartíð eitt mesta djásn Álftafjarðar, garðurinn á Rannveigarstöðum. Hann skyldi sleginn og hirtur, hvað sem raulaði og tautaði. Og þá naut hann góðrar aðstoðar Guðmundu, sem er víkingur til verka og lagði sitt af mörkum að gera þennan fagra og skjólgóða reit þeirra og afkomendanna að sannkölluðum Edenslundi.

Pétur naut sín hvergi betur en heima á Rannveigarstöðum og dvaldi þar gjarnan eins langan hluta úr ári hverju og honum var unnt. Undir það seinasta varð hann af heilsufarsástæðum að vera lengri hluta ársins á heimili þeirra á Hornafirði, en hann hefði kosið, þótt þar liði honum vissulega vel. Hann setti sig þó ekki úr færi að láta aka sér austur til að geta hugað að bænum sínum. Þar naut hann um stund fegurðarinnar af hlaðinu, hlustaði á lækina í hlíðinni, fuglana í garðinum og skynjaði nið hafsins úti fyrir. Og hann þurfti bókstaflega á því að halda að draga að sér hið heilnæma sveitaloft og hverfa um stund á vit minninganna á jörðinni, sem var honum og forfeðrunum svo kær.

Í  huga mér er greipt mynd af vini mínum standandi á hlaðinu, þar sem hann styðst við hækju sína með blik í augum, svipmótið festulegt, en þó milt bros á vör.

Við Hlíf þökkum hinum látna trausta og góða vináttu um leið og við sendum Guðmundu, börnunum og öðrum aðstandendum hugheilar samúðarkveðjur.

Björn Hafþór Guðmundsson.