9. nóvember 1994 | Aðsent efni | 746 orð

Etanól framleitt úr íslenskri lúpínu? Framleiðsla á etanóli á Íslandi, segir

Etanól framleitt úr íslenskri lúpínu? Framleiðsla á etanóli á Íslandi, segir Ásgeir Leifsson, er líklega hagkvæmur kostur. Undanfarin ár hefur verið mikil og ör þróun í framleiðslu etanóls (sem er alkóhól).

Etanól framleitt úr íslenskri lúpínu? Framleiðsla á etanóli á Íslandi, segir Ásgeir Leifsson, er líklega hagkvæmur kostur. Undanfarin ár hefur verið mikil og ör þróun í framleiðslu etanóls (sem er alkóhól). Þessi þróun, sem hefur fyrst og fremst átt sér stað í Bandaríkjunum, hefur beinst að samkeppnishæfum framleiðslukostnaði etanóls miðað við bensín sem eldsneyti fyrir bifreiðar. Etanól hefur um 80% af brunagildi bensíns, en ef það er blandað með t.d. 10% í bensín bætir það verulega bruna þess. Etanól er umhverfisvænt eldsneyti, en það er gjarnan framleitt úr lífrænum efnum og er tekið koldíoxíð úr andrúmsloftinu við myndun þeirra. Við bruna etanóls myndast vatn og svo koldíoxíð aftur. Það hefur lengi verið notað í stað bensíns í Brasilíu og verða á næstunni gerðar kröfur um íblöndun etanóls í bensín bæði í Bandaríkjunum og Efnahagsbandalaginu. Við þetta myndast miklir markaðir fyrir það. Framleiðsla etanóls beinist í grófum dráttum að gerjun hráefnis í svokallaðan bjór og eimingar hans. Þróun framleiðslutækninnar hefur fyrst og fremst beinst að gerjun ódýrra lífrænna efna svo sem pappírs og trjáviðar. Nú er búið á stofnun á vegum bandaríska orkumálaráðuneytisins að framleiða nýja tegund af bakteríu sem getur gerjað margs konar ódýr hráefni með mikilli nýtingu. Þessi þróun er um fimm árum fyrr á ferðinni en búist var við. Við eimingu bjórsins er notuð gufa sem er um 10 tonn miðað við tonn af etanóli af 95% styrkleika, en 15 tonn miðað við 99% styrkleika etanóls.

Etanólverksmiðjur verða við þessa nýju tækni miklu ódýrari og með ódýru hráefni er talið að hægt verði að lækka framleiðslukostnaðinn niður í um 12 kr. á lítra. Það er þar með orðið samkeppnisfært við bensín.

Ef horft er til íslenskra aðstæðna við etanólframleiðslu er það einkum ódýr jarðgufa sem gæti gert staðhætti hér fýsilega. Talið er að tonn af jarðgufu kosti á virkjunarstað um 175 kr. og flutt með lögn niður til þéttbýlisstaðar um 300­375 kr. Iðnaðargufa kostar í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu um 700­840 kr. tonnið.

Það þarf um 3 kg af pappír eða trjáviði til að framleiða 1 kg af etanóli. Búið er að velta töluvert fyrir sér hráefnum og væri það fyrst og fremst ókeypis úrgangspappír sem kostaði aðeins fraktina (um 1.400 kr./tonnið), sem kæmi til greina. Upp á síðkastið hefur óvænt orðið mikil verðsveifla í honum, sem gæti þó hugsanlega gengið til baka. Annað hráefni gæti verið sag frá sögunarmyllum, ef það næðist á ódýran hátt niður á strönd. Og svo koma úrgangsefni frá landbúnaði til greina.

Ef horft er til íslenskra hráefna, kæmi hugsanlega einhverntíma í framtíðinni iðnaðarviður til greina og svo lúpína. Lúpína er mjög afkastamikil landgræðsluplanta, sem vex á landsvæðum sem ekki henta til annarrar ræktunar og hún þarfnast ekki áburðar. Talið er að afköst hennar miðað við þurrefni á hektara séu um 5­8 tonn sunnanlands, en um 4 tonn norðanlands. Lúpínan er því hugsanlega mjög ódýr hráefnisuppspretta. Nú er að fara af stað mikið landgræðsluverkefni á Hólasandi, sem er milli Mývatns og Húsavíkur (en hann er um 140.000 hektarar), þar sem lúpínunni verður beitt. Þar rétt hjá er háhitasvæðið Þeistreykir.

Það gæti verið mjög hagkvæmur kostur að reisa etanólverksmiðju hjá Þeistareykjasvæðinu. Þá þyrfti enga gufulögn og hægt væri því að reisa verksmiðjuna í hæfilegum áföngum. Flutningar og þurrkun á lúpínuhráefni væri ódýr (hægt að nota lághita frá Þeistareykjasvæðinu), en rétt væri að nota jöfnum höndum önnur hráefni ef þau fengjust ódýrt. Lúpínan gæfi auk þess frá sér fræ og rætur sem hægt væri að nýta til annarra hluta og gæti það lækkað kostnað. Íslenski bensínmarkaðurinn er um 140.000 tonn á ári svo hann einn gæti tekið við verulegu framleiðslumagni.

Verð á 95% etanóli er nú um 500 dalir á tonnið í Efnahagsbandalaginu, en þar eru verulegir verndartollar. Heimsmarkaðsverð er því líklega um 350 dalir tonnið. Íslensk etanólverksmiðja væri vel samkeppnisfær á heimsmælikvarða.

Mjög góðar aðstæður eru líka til staðar t.d. við Hafnarfjörð. Þá væri miðað við að rækta sandana í Rangárvallasýslu, sem gæfu af sér meiri uppskeru, en flutningur væri lengri. Þar væri miðað við að virkja Krísuvíkursvæðið og flytja gufuna til Straumsvíkur. Þar þyrfti því líklega að byrja á stærri verksmiðju.

Lokaorð

Framleiðsla á etanóli á Íslandi er líklega hagkvæmur kostur. Ef notuð væri lúpína sem hráefni, yrði það mikil lyftistöng fyrir landgræðslu. Etanól sem framleitt væri með því að nota jarðgufu væri mjög umhverfisvænn kostur, bæði í framleiðslu og svo í notkun sem eldsneyti.

Höfundur hefur unnið að rannsókn á hagkvæmri framleiðslu etanóls ásamt Baldri Líndal efnaverkfræðingi.

Ásgeir Leifsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.