Vegna skýrslu, sem ég er að semja á ensku um bankahrunið íslenska, hef ég orðið að lesa ógrynnin öll af efni um Ísland, sem birst hefur erlendis.

Vegna skýrslu, sem ég er að semja á ensku um bankahrunið íslenska, hef ég orðið að lesa ógrynnin öll af efni um Ísland, sem birst hefur erlendis. Þar á meðal er ritgerðin „Normative Foundations of the Icelandic Welfare State“, sem Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor birti árið 2005 í greinasafninu Normative Foundations of the Welfare State: The Nordic Experience , sem Routledge gaf út. Þar skrifar Stefán, að fátækt virðist vera meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum og tekjudreifing ójafnari. Hann furðar sig á þessu, því að „one could have expected the forces of the colonial union of Iceland and Denmark until 1945,“ eins og hann segir á bls. 224, „to have pushed Iceland more into the direction of the Scandinavian model.“

Sleppum því í bili, sem ég hef margoft bent á, að Stefán hefur rangt fyrir sér um skýringarefnið: Fátækt var til dæmis árið 2004 ekki meiri eða tekjudreifing ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum, eins og vönduð rannsókn frá Eurostat hefur sýnt. En hitt eru nýjar fréttir, að „nýlendusamband Íslands og Danmerkur“ hafi rofnað „1945“.

Stefán virðist ekki vita, að Íslendingar lýstu yfir sjálfstæði á Þingvöllum 17. júní 1944, ekki 1945. Ef til vill er þetta stafvilla, en hún er eins augljós og hrapalleg og ef bandarískur fræðimaður segði sjálfstæðisyfirlýsinguna bandarísku vera frá 1777.

Það er líka rangt, að Ísland og Danmörk hafi verið í nýlendusambandi fyrir 1944. Ísland var fullvalda ríki frá 1918, en í konungssambandi við Danmörku, sem tók um skeið að sér strandvarnir og utanríkisþjónustu í umboði hins nýja ríkis.

Fyrir þennan tíma var Ísland ekki heldur nýlenda, hvorki að mati Íslendinga sjálfra né Dana, sem kölluðu það hjálendu (biland) með sérstökum réttindum. Ísland var hluti Danaveldis, en ekki hluti Danmerkur sjálfrar. Staða þess var öll önnur en til dæmis nýlendu Dana í Karíbahafi (sem seld var Bandaríkjamönnum 1917 og heitir nú Bandarísku Jómfrúreyjar). Þetta sést best á því, að árið 1662 leitaði Danakonungur viðurkenningar Íslendinga á einveldi sínu. Að sjálfsögðu hefði hann þá ekki þurft þess, hefði Ísland verið nýlenda.

Hvað er að segja um slíka fáfræði? Mér dettur helst í hug gömul umsögn að breyttu breytanda: Búast má við, að í verkum Stefáns Ólafssonar sé allt rangt að blaðsíðutölunum ekki undanteknum.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is