Michael Fell fæddist 4. desember 1923 í Vancouver í Bresku Kólumbíu í Kanada. Hann lést 16. desember 2016 í Gladwyne í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum.
Hann kvæntist eftirlifandi konu sinni, Daphne Fell, f. Macdonald, 4 júlí, 1957 í Vancouver.
Lauk Ph.D.-gráðu í stærðfræði frá University of California, Berkeley, 1951. Starfaði sem prófessor í stærðfræði við University of Washington, Seattle, 1957-1964 og við University of Pennsylvania frá 1965 eða þar til hann fór á eftirlaun árið 1991.
Þau hjón eignuðust tvö börn, Rachel Fell McDermott, f. 1959, nú starfandi prófessor í South Asian Studies við Barnard College í New York, og Peter Fell, f. 1960, en hann starfar sem fjármálaráðgjafi við Kenmar Olympia í New York.
Michael var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót í guðfræði við Háskóla Íslands árið 2000.
Útför dr. Michaels fór fram 23. desember 2016 frá All Saints-kirkjunni í Wynnewood í Philadelphia og var hann jarðaður í grafreit kirkjunnar.

Það er okkur ljúft að minnast vinar okkar, dr. Michael Fell. Michael var mikill heiðursmaður og góður vinur okkar hjóna. Minningar okkar um hann eru reyndar svo samfléttaðar kynnum okkar af eftirlifandi konu hans, Daphne, að erfitt er að greina þar á milli, en hún lifir mann sinn í hárri elli heima í Bandaríkjunum. Í bréfi sínu til Filippímanna ritar Páll postuli þessi orð: Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Þessi orð áttu vel við Dr. Michael og og ekki síður við Daphne.

Þegar Michael, sem ungur piltur, var við nám í Englandi vaknaði áhugi hans á Íslendingasögunum en einn kennara hans þar benti honum á þær bókmenntir. Þessi áhugi á Íslandi og sögu þjóðarinnar vaknaði með honum á ný löngu síðar og varð til þess að þau hjónin ákváðu að fara til Íslands og kynna sér hlutina af eigin raun. Íslandsferðir þeirra hófust árið 1980 og eftir það komu þau hingað nær árlega í rúma þrjá áratugi eða þar til heilsan fór að bila og þau treystu sér ekki lengur í slík ferðalög.

Fyrstu kynni okkar hjóna af dr. Michael urðu um miðjan níunda áratuginn en þá ferðuðust þau um Austurland. Í þeirri ferði vildi svo til að leið þeirra lá til Eyjólfsstaða á Völlum (Héraði), starfsmiðstöðvar Ungs fólks með hlutverk á Austurlandi, en þá vorum við hjónin starfmenn samtakanna. Dr. Michael og Daphne langaði að kynnast því kristilega starfi sem fór fram á Eyjólfsstöðum.  Þessi fyrstu kynni leiddu til þess að þau hjón komu til Eyjólfsstaða ár eftir ár sér til ánægju og andlegrar uppbyggingar.  Með árunum kynntumst við þeim betur og leiddu þau kynni til djúprar og varanlegrar vináttu, ekki síst eftir að þau festu kaup á íbúð við Boðagranda í Reykjavík, en íbúðina notuðu þau þegar þau dvöldu hér á landi yfir sumarmánuðina.
Michael og Daphne voru iðin við að bjóða til sín vinum og kunningjum og eflaust eiga margir góðar minningar um gestrisni þeirra. Það var gott að koma á Boðagrandann og njóta samvista við þessi indælu hjón og ekki sveik maturinn sem Daphne bar á borð!  Þau ræktu af alúð tengsl sín við marga hér á landi, bæði fólk sem deildi trúaráhuga þeirra svo og háskólafólk í ýmsum greinum.  Tengsl dr. Michaels við Háskóla Íslands voru töluverð og þar flutti hann, sem gestaprófessor, meðal annars fyrirlestra í stærðfræði. Háskólinn heiðraði hann árið 2000 með heiðursdoktorsnafnbót  í guðfræði.
Michael hafði mikinn áhuga á sögu Íslands og kristnu safnaðarlífi hér á landi. Hann lærði íslensku það vel að hann las hana sem innfæddur og talaði hana nánast lýtalaust. Hann var mjög áhugasamur um að bæta íslenskukunnáttu sína og læra ný orð. Þegar hann heyrði nýtt orð tók hann gjarnan upp litla minnisbók og skrifaði hjá sér orðið. Þegar næði gafst rifjaði hann það upp og festi í minni.  Áhugi Michaels á tungumálum var reyndar mikill og á sínum yngri árum lærði  hann ýmis Evrópumál, m.a. grísku og rússnesku og síðar sanskrít. Hann var iðinn við að kynna sér sígildar íslenskar trúarbókmenntir og í framhaldi af því réðst hann í það stórvirki að þýða stóran hluta Vídalínspostillu yfir á ensku og einnig Passíusálma séra Hallgríms Péturssonar, en því verki lauk hann um þrem árum áður en hann lést. Þýðing hans á Passíusálmunum, Rise up, my soul, kom út árið 2014. Hann þýddi einnig Píslarsögu séra Jóns Magnússonar  og  Ævisögu séra Jóns Steingrímssonar, eldklerks, auk þess sem hann skrifaði kristnisögu Íslands (And some fell into good soil). Allar þessar bækur hafa verið gefnar út á ensku (hjá Peter Lang Publishing, New York) og eru minnisvarðar um brennandi áhuga hans og dugnað, auk þeirrar nákvæmi,  vandvirkni og alúðar sem einkenndi allt sem hann gerði.  Hinar athyglisverðu og vönduðu þýðingar Michaels á öndvegisritum íslenskar kristni leiddu til þess að hann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við guðfræðideild Háskóla Íslands eins og fyrr var sagt. Var hann vel að þeim heiðri kominn.
Michael og Daphne voru miklir vinir Skálholtsstaðar og sóttu árlega kirkju- og tónlistarhátíð sem kennd er við staðinn. Þau voru miklir unnendur fagurra lista og sígildrar tónlistar, bæði andlegrar og veraldlegrar og sóttu sinfóníutónleika reglulega.

Mér skilst að eitt af því fáa sem Michael átti erfitt með að upplifa og umbera voru stórborgir. Hann sagði mér eitt sinn að sér þætti mjög erfitt að vera í New York vegna alls þess hávaða og áreitis sem fylgdi borgarlífinu, en ýmissa hluta vegna þurfti hann stundum að fara þangað.  Eitt sumarið þegar þau hjónin dvöldu á Eyjólfsstöðum fórum við með þau í ökuferð til Mjóafjarðar.  Þar kunni Michael vel við sig. Fámennið og nær ósnortin og fögur náttúran fangaði hug hans.  Ég man að þegar við komum að kirkju staðarins og gengum þar inn, fór hann að orgelinu, settist og lék sálm. Hann var alsæll. Ég held að fámennið hér, kyrrðin og náttúran hafi heillað þau hjónin, einkum Michael.  Hér gat hann slakað á og notið þess friðar og fegurðar sem landið hafði upp á að bjóða.

Michael var andlegur maður. Bakgrunn sinn átti hann í biskupakirkjunni. Á sínum yngri árum kynnti hann sér ítarlega trú hindúa og tók þátt í trúariðkunum þeirra, en þegar leið á ævina snéri hann sér heils hugar til kristinnar trúar. Þegar hann sagði okkur frá þessu tók hann fram að hann hefði ekki tínt úr kenningu kirkjunnar það sem honum líkaði en hafnað öðru. Ég tók allt sem var í pakkanum, sagði hann. Hann var heill og óskiptur í þessu sem og öðru sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var sannur trúmaður og kirkjurækinn og þau bæði hjónin.

Michael var umburðarlyndur og víðsýnn. Hann virti skoðanir og reynslu annarra. Það var mér oft umhugsunarefni hvernig hann gat tekið þátt í samkomum okkar sem störfuðum í kristnu leikmannasamtökunum Ungt fólk með hlutverk á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Við sungum létta kristilega söngva, prédikun okkar var einföld og lágkirkjuleg og skipulagið frjálslegt. Við vorum miklu yngri en hann og Daphne en samt fundu þau sig heima á meðal okkar, þau sem voru vön hákirkjulegum helgisiðum biskupakirkjunnar.  Það sem skipti Michael mestu var einlægni og trúariðkun sem kom frá hjartanu. Það hefur honum sennilega fundist hann fá að reyna í okkar hópi.

Vilborg og Friðrik Schram.