Jóna Sigþrúður Stefánsdóttir fæddist á Ekru í Hjaltastaðaþinghá 19. desember 1925. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi 21. janúar 2017.
Foreldrar hennar voru Stefán Jónsson frá Heyskálum í Hjaltastaðahreppi, bóndi á Ekru, f. 12. febrúar 1893, d. 1. janúar 1968, og Sigurborg Sigurðardóttir frá Litlasteinsvaði í Tunguhreppi, f. 9. ágúst 1890, d. 4. október 1969.
Jóna átti fjögur systkini, þau eru: Aðalheiður Ástdís, f. 4. júlí 1920, d. 1. janúar 2006, búsett lengst af í Smiðsgerði í Skagafirði, Sigrún, f. 13. desember 1921, d. 16. júlí 1987, búsett lengst af í Reykjavík, Gerður Ingibjörg, f. 8 júlí 1927, d. 14. desember 2007, búsett lengst af á Egilsstöðum, og Gunnsteinn, f. 23. júní 1930, d. 10. janúar 1986, búsettur á Egilsstöðum.
Jóna giftist Guðmundi Sigurbirni Guðmundssyni frá Fossum í Svartárdal, f. 20. febrúar 1930, d. 24. septenber 2010. Eignuðust þau fjögur börn: 1. Stefán Sigurbjörn, f. 1961, búsettur á Sauðárkróki, maki Una Aldís Sigurðardóttir, f. 1970, synir þeirra: a) Sigurður Páll, f. 1995, b) Rúnar Ingi f. 1999, c) Atli Steinn, f. 2005. 2. Guðrún, f. 1962, búsett í Hólmi, Hornafirði, maki Magnús Guðjónsson, f. 1963, börn þeirra: a) Guðjón Örn, f. 1984, b) Birna Jódís, f. 1987, maki Þorgrímur Tjörvi Halldórsson, f. 1984, barn þeirra: Katla Eldey, f. 2013, c) Arndís Ósk, f. 2000. 3. Guðmundur, f. 1966, búsettur í Skagafirði, maki Helga Þorbjörg Hjálmarsdóttir, f. 1968, börn þeirra: a) Hjálmar Björn, f. 1990, maki Ingibjörg Signý Aadnegard, f. 1989, börn þeirra: Guðjón Þór, f. 2011, Þórdís Harpa, f. 2016, Helga María, f. 2016, b) Þorbjörg Jóna, f. 1994, í sambúð með Einari Ólasyni, f. 1992, c) Berglind Heiða, f. 1996, í sambúð með Daníel Atla Stefánssyni, f. 1995, d) Guðmundur Smári, f. 2002, 4. Borgþór Ingi, f. 1972, búsettur í Reykjavík.
Jóna ólst upp á Ekru í Hjaltastaðaþinghá. Þar vann hún við hin hefðbundnu sveitastörf. Hún var mikið náttúrubarn og leið best úti í náttúrunni. Vorið 1959 réð hún sig sem ráðskona að Fossum í Svartárdal til þeirra feðga þar. Jóna og Bjössi fóru fljótlega að búa saman og bjuggu félagsbúi með aðskilið skepnuhald en unnu sameiginlega að heyöflun og öðrum bústörfum með bræðrum hans og föður. Hún var bóndi af lífi og sál. Eftir að Bjössi lést 2010 bjó hún til haustsins 2011 með aðstoð Guðmundar sonar síns. Þá flutti hún til Blönduóss að Hnitbjörgum.
Jóna verður jarðsungin frá Bergstaðakirkju í dag, 4. febrúar 2017, klukkan 14.

Ég gái út um gluggann minn
hvort gangir þú um hliðið inn.
Mér alltaf sýnist ég sjái þig.
Ég rýni út um rifurnar.
Ég reyndar sé þig alls staðar.
Þá napurt er, það næðir hér
og nístir mig.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)


Elsku amma. Þó svo að það sé erfitt að sætta sig við það, að þá er komið að kveðjustundinni. Hér koma nokkur fátækleg orð sem lýsa aðeins broti af öllu því þakklæti og öllum góðu tilfinningum sem ég ber í brjósti fyrir að hafa átt þig að sem ömmu. Þú varst samt ekki bara amma mín heldur einnig besta vinkona mín og mín helsta fyrirmynd í mörgu. Hún amma var yndisleg, góð, samviskusöm, fróð, hjartahlý, lífsglöð og hörkudugleg kona. Þú varst ótrúlega seig í eldhúsinu, gerðir bestu kjötsúpuna og kökurnar urðu alltaf góðar með rjómanum þínum því að þú blandaðir út í hann vanillusykri. Þú hlustaðir ekki á það að maður væri ekki svangur, hvað þá að maður væri ný búin að borða, þú gast alltaf fyllt borðið af kræsingum hvort sem það var matarkyns eða kökuhlaðborð, matnum fylgdi svo alltaf eitthvað í eftirrétt. Þú varst mikill dýravinur og þekktir allar þínar kindur með nafni og varst mjög lagin við dýr. Ég er þakklát fyrir allan þær minningar og allan þann tíma sem ég var á Fossum hjá ykkur afa og Sigga frænda, eins og það var nú alltaf skemmtilegt að koma í sveitina og stússast með ykkur í fénu að þá voru ferðirnar upp á heiði, göngurnar og réttirnar, sauðburðarstundirnar og sumrin alltaf hápunkturinn. Áhugi minn á sauðfé kom snemma í ljós og er það ykkur að þakka að þið náðuð að smita mig af sauðfjarást. þú varst ótrúlega lunkin við burðarhjálpina og byrjaði ég ung að fylgjast með þér að verki. Ég man hversu hreykin þú varst af mér þegar ég tók á móti mínum fyrstu lömbum, ég ætlaði að fara hjálpa kindinni að bera en þú sagðir mér að þetta væri gömul á og hún kynni þetta alveg en ég vildi hjálpa henni og sýna þér að ég gæti þetta alveg sem ég auðvitað gat því að ég var með besta kennarann. Þú varst ánægð þegar vel gekk og varst ekki hrifinn af því ef fólk var latt eða nennti ekki að vinna en þú fussaðir nú stundum yfir því þegar ég var að koma aðra hvora helgi og stundum oftar frá Akureyri á Blönduós til þess að vinna þér leið ekki vel með það þegar þú vissir af mér á leiðinni þegar vont var veðrið en þú varst alltaf jafn ánægð þegar ég kom í heimsókn til þín á laugardegi eða sunnudegi þú þekktir bankið mitt og varst stundum búin að spyrja ert þetta þú stelpa mín áður en ég var komin inn. Þú tókst svo alltaf á móti mér með hlýju faðmlagi, bros á vör og mörgum kossum, ég mun sakna þess mikið. Það var svo gott að finna það hjá ykkur afa og Sigga frænda að þið treystuð manni þó svo að maður væri ekki hár í loftinu.

Ykkur afa þótti ekki leiðinlegt að fá að hafa mig hjá ykkur meðan Siggi frændi fór í frí og ég átti að sjá um kindurnar hans á meðan. Sauðburði var lokið og lambærnar voru suður á túni og mitt verk var að gefa þeim fóðurbæti og fylgjast með að ekkert lamb væri einmana og mamman búin að skilja það eftir. Þið afi vilduð vera viss um að ég gæti þetta alveg svo þið komuð á bílnum á eftir mér suður á Skriðu, sem betur fer því að föturnar voru orðnar ansi þungar fyrir litla snót að bera þegar fóðurblandan var komin í þær svo þið keyrðuð þeim í bílnum fyrir mig yfir lækinn og suður á tún. Fyrir mér gast þú allt því að öll handavinnan sem þú hefur gert, prjónaskapurinn, ljóðin sem þú hefur ort, púslin sem þú hefur púslað, krossgáturnar og sudoku þrautirnar sem þú hefur leyst og allt það sem þú tókst þér fyrir hendur án þess að kvarta eru kraftaverk. Eftir að afi féll frá, bjóst þú áfram í eitt ár með búskapinn, með pabba minn þér til aðstoðar, það var sárt og missirinn var mikill þegar búskap lauk á Fossum. Sársaukinn og missirinn hefur aukist við fráfall þitt, elsku amma, en ég mun reyna að hlýja mér við allar fallegu minningarnar um þig og stundirnar okkur saman. Takk fyrir allt saman, elsku amma, lífið verður fátæklegra án þín en núna ertu komin til afa og ég vona að ykkur líði vel og að það hafi verið tekið vel á móti þér í paradísarlandinu.

Elskulega amma, njóttu
eilíflega Guði hjá,
umbunar þess, er við hlutum
ávallt þinni hendi frá;
þú varst okkur ungu hjörtum,
eins og þegar sólin hlý,
vorblómin með vorsins geislum
vefur sumarfegurð í.

Hjartkær amma, far í friði,
Föðurlandið himneskt á,
þúsundfaldar þakkir hljóttu
þínum litlu vinum frá.
Vertu sæl um allar aldir,
alvaldshendi falin ver,
inn á landið unaðsbjarta,
englar Drottins fylgi þér.

(Berglind Árnadóttir)


Hvíl þú í friði, elsku amma. Guð geymi þig.
Þín ömmustelpa

Berglind Heiða.