Ólöf Nordal fæddist 3. desember 1966. Hún lést 8. febrúar 2017.

Útför Ólafar fór fram 17. febrúar 2017.

Mig langar með örfáum orðum að minnast Ólafar Nordal.

Ég kynntist henni fyrst þegar hún og systir mín voru vinkonur og skólasystur í MR. Ólöf gaf sér þá stundum tíma til að spjalla við mig þó að ég væri nokkuð yngri en þær. Ég man eftir einu samtali þar sem hún sagði mér að maður yrði að hafa fyrir öllu sem væri einhvers virði í lífinu.

Þetta heilræði rifjaðist upp fyrir mér nokkrum árum síðar en þá lágu leiðir okkar saman á ný þegar ég hóf mín fyrstu hjúskaparár. Þá fékk ég að njóta vinskapar hennar og Tomma.

Tryggð og væntumþykja þeirra var fordæmalaus og það var ljóst að þau mátu vini sína mikils. Ólöf tók mér þá einstaklega vel þegar ég kom ný inn í samgróinn og þéttan vinahóp úr MR.

Í heimsókn til þeirra hjóna í Íþöku var búið að undirbúa það að gestirnir væru í þeirra rúmi og þau sjálf í stofunni. Ekkert annað kom til greina.

Þegar synir okkar fæddust var gleði þeirra einlæg yfir þessum nýju einstaklingum sem bættust í hópinn. Það hlýjar mér um hjartarætur að rifja upp þennan tíma og vinskapinn sem ég átti við þau þá.

Það sem stendur upp úr fyrir mér er að Ólöf vissi hvað skipti hana mestu máli, fjölskyldan og vinirnir. Enda vinamörg og samrýmd fjölskylda sem stóð að baki henni alla tíð.

Minningar mínar af Ólöfu eru allar góðar og ég vil þakka fyrir að hafa fengið að kynnast henni. Ég vona að hún hafi vitað að ég hugsaði ævinlega hlýtt til hennar og kunni ætíð að meta vinskap hennar.

Elsku Tommi, Siggi, Jóhannes, Herdís og Dóra. Missir ykkar er mikill og hugur minn er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum. Systrum og foreldrum Ólafar votta ég mína dýpstu samúð. Minningin um góða konu lifir.

Guðrún Jónsdóttir.

Kveðja frá Lögmannafélagi Íslands

Ill var sú harmafregn að sú mæta kona, Ólöf Nordal, skyldi falla frá langt fyrir aldur fram. Óvænt var fregnin einnig, því þótt Ólöf hefði glímt við veikindi undanfarin ár, varð ekki á elju hennar í störfum og myndugleika séð að hún gengi ekki heil til skógar.

Ólöf var skarpskyggn lögfræðingur og starfaði farsællega sem ráðherra dómsmála í tvö ár. Þótt sá tími sé stuttur kom hún miklu í verk og munu lögmenn minnast hennar fyrir hennar þátt í setningu nýrra dómstólalaga og stofnun landsréttar.

Tilraunir voru gerðar á áttunda áratugnum til að ráðast í stofnun landsréttar en þær fjöruðu út. Umræður um nauðsyn þessa verkefnis hófust svo á nýjan leik fyrir á að giska áratug og þegar Ólöf tók sæti í ríkisstjórn í desember 2014 hafði ýmislegt verið gert sem horfði í rétta átt.

Ólöf hafði óvenju skarpan lögfræðilegan skilning á nauðsyn þess að gera stofnun landsréttar að átaksverkefni og ná þverpólitískri sátt um hana. Þetta tókst henni og hlaut hún mikinn sóma af. Nýju dómstólalögin sem samþykkt voru í júní síðast liðnum má því kenna við hana fremur en nokkurn annan.

Stjórnmálamenn búa við lítið starfsöryggi. Alltaf var því óvíst að Ólöf yrði ráðherra dómsmála þegar landsréttur tæki til starfa um næstu áramót. Flestir gerðu þó ráð fyrir að hún yrði viðstödd hátíðahöld af því tilefni og hún fengi ásamt öðrum að njóta þess, sem stjórnmálamenn njóta sjaldan, að heyra hrós fyrir sinn þátt í málinu.

Sviplegt fráfall hennar hefur nú svipt lögmenn þeim möguleika að koma hrósi okkar til hennar á framfæri við það tilefni. Við þurfum þess í stað að láta sitja við þessi fátæklegu orð í minningargrein.

Við vottum aðstandendum hennar okkar innilegustu samúð. Mikill má harmur þeirra vera.

Reimar Pétursson,

formaður.

Fallin er til foldar kvenskörungurinn Ólöf Nordal.

Mig langar að minnast þessarar einstöku konu og skrifa um hana fáein orð. Ég kynntist Ólöfu rétt eftir aldamót og vissi þá þegar að við myndum verða góðar vinkonur. Hún og fjölskylda hennar tóku mér með opnum örmum og þótti mér mjög vænt um þau frá fyrstu kynnum.

Þótt ég sé af erlendu bergi brotin, og átti fyrst um sinn erfitt með að tjá mig á íslensku, þá skipti það Ólöfu engu máli og var það engin hindrum í okkar vinskap. Hún var vel að sér í mannlegum samskiptum og var það minna en ekkert mál fyrir okkur að spjalla saman heillangan daginn. Ólöf var bráðgreind, mikil félagsvera og þreifst best meðal fjölskyldu og vina. Hún var ávallt miðpunktur athyglinnar þar sem fólk kom saman en sá jafnframt til þess að allir aðrir kæmust að.

Öll þau skipti þegar Ólöfu vantaði hjálparhönd hugsaði ég mig aldrei tvisvar um. Ekki var það þó svo að það væri einungis ég sem hjálpaði henni því hún hefur alla tíð auk þess hjálpað mér. Ávallt þegar mig vantaði hjálp eða góðar ráðleggingar vissi ég að hægt væri að stóla á Ólöfu.

Hetjulegri baráttu Ólafar við illvígan sjúkdóm er nú lokið og hún komin á annað tilverustig þar sem ég veit að hún mun loks hvílast. Þó svo að seinustu vikur hafi verið erfiðar þá var það aðdáunarvert að sjá hversu sterk Ólöf var og samheldin fjölskyldan var að takast á við þessa erfiðu tíma.

Ég hef fylgst með börnum Ólafar vaxa og dafna og í gegnum þau mun minning hennar ávallt lifa. Ég mun áfram verða til staðar fyrir Tómas og börnin hvenær sem þau þurfa á mér að halda enda hafa þau, líkt og Ólöf, alltaf verið til staðar fyrir mig.

Ég minnist með hlýhug allra tímanna okkar saman á Laugarásveginum og mun ég aldrei gleyma öllum hlátrasköllunum okkar um ókomna tíð. Í minningunni mun Ólöf ætíð vera sú stórglæsilega, bráðgáfaða og skemmtilega kona sem ég var svo heppin að kynnast og fá að þekkja í fjölmörg ár. Hennar skarð verður erfitt að fylla í lífi margra.

Því miður er kominn tími til að kveðja þig, mín kæra vinkona, og það allt of snemma. Takk fyrir allar þær stundir sem við áttum saman, elsku Ólöf, og ég óska þér hinnar bestu ferðar.

Þín vinkona,

Bunrom (Ey) Kaewmee.

Ég minnist Ólafar Nordal með virðingu og hlýhug, trega og brosi. Hún var leiftrandi greind, fyndin og skemmtileg, vel lesin, reynd og víðsýn, vel gerð, hjartahlý og umfram allt góð manneskja. Það var gott að vera nálægt Ólöfu, þessari stórglæsilegu konu. Við áttum margar góðar stundir í Lagadeild HÍ og líka eftir hana og það var mikill fengur að Ólöfu þegar hún kom inn í bankaráð Seðlabanka Íslands og tók að sér formennsku þess. Hún setti sig vel inn í öll mál og hafði þá góðu kosti til að bera að hlusta ásamt því að vera bæði ákveðin og mannasættir. Veikindum sínum tók hún með einstökum baráttuvilja og æðruleysi. Það er mikill missir að Ólöfu fyrir land og þjóð en missir fjölskyldunnar er allra mestur. Ég votta Tómasi, börnunum og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð.

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesús, í þína hönd,

síðast þegar ég sofna fer

sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgrímur Pétursson)

Ingibjörg Ingvadóttir.

Kveðja frá stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík

Það er með trega sem stjórn Varðar kveður Ólöfu Nordal, varaformann Sjálfstæðisflokksins, ráðherra og leiðtoga Reykjavíkurkjördæmis suður. Ekki einasta var Ólöf glæsilegur fulltrúi Sjálfstæðisflokksins á sviði stjórnmálanna, heldur var hún einnig úrræðagóð og mikilhæfur leiðtogi. Því fékk stjórn Varðar að kynnast í kosningum og aðdraganda þeirra árin 2009 og 2016. Samvinna Varðar við frambjóðendur, ekki síst leiðtogana, á kosningaárum er mikil og krefjandi. Stundir sem þessar eru gjarnan ögrandi, athygli almennings og fjölmiðla á mönnum og málefnum er mikil, og ólgusjór stjórnmálanna í brennidepli. Þá nýtist fátt betur en sterk bein stjórnmálamannanna, rétt eins og Ólöf Nordal hafði til að bera. Það var stjórn Varðar mikill fengur að undirbúa kosningar með Ólöfu, njóta góðra ráða hennar, sem og umhyggju fyrir starfsfólki og sjálfboðaliðum sem annast öll hin óteljandi verkefni og smáatriði sem fylgja kosningum. Þá studdi Ólöf Vörð í öllum verkefnum, og skoraðist ekki undan skyldum sínum í garð Varðar. Veikindi Ólafar, sem hún hafði áður tekist á við, urðu öllum ljós í aðdraganda kosninganna í október 2016. Um leið og þau voru okkur öllum áhyggjuefni var baráttuandi Ólafar enn meiri innblástur og hvatning til góðra verka. Andi Ólafar, og minning, verður það áfram. Eiginmanni, börnum, ættingjum og ástvinum Ólafar vottum við okkar dýpstu samúð, um leið og við óskum þeim huggunar á komandi tímum.

Fyrir hönd stjórnar Varðar,

Gísli Kr. Björnsson.