Stefán Ólafsson prófessor hefur birt nokkrar ritgerðir erlendis um bankahrunið. Hann skrifar til dæmis í bókinni Iceland's Financial Crisis , sem kom út árið 2016 í ritstjórn þeirra Vals Ingimundarsonar og Irmu Erlingsdóttur, að Styrmir Gunnarsson ritstjóri hafi í tölvupósti sagt, að Landsbankinn yrði að fara í hendur manna „on good speaking terms with the IP [Independence Party]“. Ég hef áður bent á, að Styrmir sagði þetta ekki í tölvupósti, heldur í grein um Davíð Oddsson í riti um forsætisráðherra Íslands. En Stefán tilgreinir ekki aðeins ranga heimild, heldur afbakar sjálfa tilvitnunina. Styrmir talaði í grein sinni um menn, sem „Sjálfstæðisflokkurinn hefði a.m.k. talsamband við“. Af hverju sleppti Stefán þessu og bætti „góðu“ við orðið „talsamband“? Talsverður munur er á merkingu orðanna að vera „að minnsta kosti í talsambandi“ við einhvern og að vera „í góðu talsambandi“ við hann.
Stefán segir í sömu bók, að Rannsóknarnefnd Alþingis hafi í skýrslu sinni komist að þeirri niðurstöðu, að Davíð Oddsson hafi gerst sekur um „gross negligence“ sem seðlabankastjóri. En niðurstaða nefndarinnar er, að Davíð hafi gerst sekur um „negligence“ (í ensku útgáfunni) og „vanrækslu“ (í íslensku útgáfunni). Af hverju þurfti Stefán að hnýta „stórfelldri“ við „vanrækslu“? Mikill munur er á merkingu orðanna „vanrækslu“ og „stórfelldrar vanrækslu“.
Úr því að Stefán minnist á aðfinnslur nefndarinnar, hefði hann mátt nefna, hvað Davíð og hinir seðlabankastjórarnir tveir höfðu nákvæmlega vanrækt að dómi hennar. Það var í fyrsta lagi að kynna sér ekki, áður en þeir neituðu Landsbankanum um fyrirgreiðslu vegna færslu Icesave-reikninga úr dótturfélagi í útibú, hvort ýmsar athugasemdir breska fjármálaeftirlitsins um fjárhag bankans fengju staðist. Það var í öðru lagi að gera ekki rækilegt verðmat á Glitni, áður en þeir neituðu þeim banka um neyðarlán. Nefndin tók fram, að hún gerði ekki ágreining við seðlabankastjórana um sjálfar ákvarðanirnar, að neita bönkunum um umbeðna fyrirgreiðslu. Hún vildi aðeins meiri undirbúnings- og skjalavinnu, sem ekki var á færi Seðlabankans að gera á þeim tíma og með þáverandi valdheimildum. Þessar aðfinnslur nefndarinnar eru smávægilegar og í raun broslegar. Erlendis tóku fjármálaráðherrar og seðlabankastjórar sömu daga skyndiákvarðanir í símtölum um kaup og sölu á fjármálafyrirtækjum fyrir risaupphæðir.
Hirðuleysið er ein af höfuðsyndunum sjö. Síst ætti það að eiga sér bólstað í Háskóla Íslands.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is