Fæstir þátttakenda í bankahruninu 2008 voru illgjarnir eða heimskir. Því síður vildu þeir vinna gegn eigin hag. Hvernig stóð þá á því að niðurstaðan varð þeim svo öndverð? Ein ástæðan var að þeir voru í valþröng.

Fæstir þátttakenda í bankahruninu 2008 voru illgjarnir eða heimskir. Því síður vildu þeir vinna gegn eigin hag. Hvernig stóð þá á því að niðurstaðan varð þeim svo öndverð? Ein ástæðan var að þeir voru í valþröng. Að fornu var afarkostum lýst með ófreskjunum Skyllu og Karybdís, sem sæfarar urðu að komast framhjá, en nú á dögum segja leikjafræðingar sögu af tveimur föngum í einangrun. Lögreglan getur sannað á þá smáglæp en hefur ekki nægar sannanir fyrir stórglæp sem hún grunar þá um. Hún býður þeim sem leysir frá skjóðunni vægari refsingu. Síðan má leiða líkur að því að hvor fanginn um sig segi til hins og báðir hljóti þeir því harðari dóm en fyrir smáglæpinn. Báðir vinna að eigin hag en niðurstaðan verður hvorugum í hag.

Skáldsagan Catch-22 eftir Joseph Heller er um valþröng: Hermenn þurftu ekki að fljúga væru þeir bilaðir á geði en ef þeir sóttu um undanþágu vegna geðbilunar þótti sýnt að þeir væru með fullu viti. Enn eitt dæmi felst í gömlu bandarísku orðtaki, sem farandprédikarinn Lorenzo Dow er sagður hafa smíðað: „You are damned if you do; You are damned if you don't.“ Sá er fordæmdur sem hefst að; Sá er fordæmdur sem hefst ekki að.

Ef seðlabankamenn sögðu fyrir bankahrunið opinberlega frá áhyggjum sínum kollvörpuðu þeir bönkunum. Ef þeir sögðu ekki frá þeim fengu þeir yfir sig ásakanir um aðgerðaleysi. Ef bankamenn seldu eignir í miðri kreppu fengu þeir smánarverð fyrir þær og bankarnir komust í þrot. Ef þeir seldu ekki eignir juku þeir áhættuna á falli bankanna. Ef stjórnmálamenn beittu sér gegn bönkunum hrundu bankarnir. Ef þeir beittu sér ekki juku þeir áhættuna á bankahruni. En þeir sem fordæma þessa þátttakendur hafa aldrei svarað spurningunni hvað þeir hefðu sjálfir gert í þeirra sporum. Ekki er alltaf til einhver Kirka sem hvíslað geti ráðum að Ódysseifi um hvernig sigla skuli framhjá Skyllu og Karybdís.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is