Jökulganga Hvannadalshnjúkur í Öræfajökli er hæsti tindur landsins.
Jökulganga Hvannadalshnjúkur í Öræfajökli er hæsti tindur landsins. — Morgunblaðið/Golli
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Hætta vegna jökulhlaupa við eldgos í Öræfajökli er metin mikil eða geysimikil á um 340 ferkílómetra svæði sem nær yfir svo til allt láglendi suðurstrandarinnar austan Skaftafells austur fyrir Kvíárjökul.
Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Hætta vegna jökulhlaupa við eldgos í Öræfajökli er metin mikil eða geysimikil á um 340 ferkílómetra svæði sem nær yfir svo til allt láglendi suðurstrandarinnar austan Skaftafells austur fyrir Kvíárjökul. Auk íbúa gistir fjöldi ferðafólks þar yfir háannatímann. Full rýming tekur að lágmarki 35-40 mínútur við bestu aðstæður en það er lengri tími en stysti mögulegi framrásartími hlaupa. Ef forða á fólki þarf að hefja rýmingu áður en gos hefst.

Kemur þetta fram í skýrslu um forgreiningu áhættumats fyrir jökulhlaup í Öræfum og Markarfljóti vegna eldgosa undir jökli, sem unnin hefur verið af starfsmönnum nokkurra stofnana undir forystu Veðurstofu Íslands.

500-1.000 ár milli gosa

Öræfajökull er eitt stærsta eldfjall landsins. Þar gýs að meðaltali á 500 til 1.000 ára fresti og gosefnaframleiðslan er fremur lítil.

Fram kemur að aðdragandi jökulhlaupa vegna eldgosa í Öræfajökli getur verið mjög skammur og framrásarhraði þeirra mikill. Hlaup gætu náð að hringvegi framan við helstu framrásarleiðir á 20-30 mínútum frá upphafi gosa. Hlaupið kann að fara yfir stærstan hluta láglendis milli Skaftafellsár og Breiðár, en það er um 340 ferkílómetrar að stærð. Talið er líklegt að lítill hluti svæðisins fari undir í hverju hlaupi en mjög fáir staðir geti talist öruggir. Fram kemur að jökulhlaup vegna eldgosa í Öræfajökli geta valdið fullkominni eyðingu mannvirkja og gróðurlendis þar sem þau fara yfir. Möguleg áhrif slíkra hlaupa á innviði og efnahag svæðisins gætu því orðið mikil.

„Ef frá Öræfajökli kæmi stærsta gerð af hlaupi sem talið er mögulegt, og ef slíkt gerðist án viðvörunar og rýmingar, gætu allt að 130 manns verið í lífshættu og 240-250 manns til viðbótar lokast inni vegna skemmda á vegakerfinu. Forsenda byggðar og áframhaldandi uppbyggingar ferðamennsku og annarrar atvinnustarfsemi í Öræfasveit er því gott vöktunar- og viðbragðskerfi. Í því fælist nákvæm vöktun eldfjallsins ásamt því að sett yrði upp viðeigandi viðvörunarkerfi og viðbragðsáætlanir gerðar og þær uppfærðar með reglulegu millibili,“ segir í skýrslunni. Þá er hvatt til þess að unnið verði skipulega að því að auka vitneskju ferðafólks um vána.

600 gætu lokast inni

Í sömu skýrslu er fjallað um áhrif hugsanlegs hamfarahlaups úr norðvesturhluta Kötlu, sem færi í Markarfljót. Ef slíkt hlaup kæmi að sumarlagi væru yfir þúsund manns á flóðasvæðinu. 600 manns gætu lokast inni í Fljótshlíð, Þórsmörk og á láglendinu við undirhlíðar Eyjafjallajökuls.
Öræfajökull
» Hæð Öræfajökuls og lega hans á suðausturströndinni veldur því að ís mun þekja efri hluta fjallsins meðan jöklar finnast á Íslandi.
» Tvö eldgos eru þekkt frá því land byggðist, gosið 1727 og stórgosið 1362. Stór jökulhlaup fylgdu báðum gosum og manntjón varð.
» Hlaupin áttu þátt í að gera Litlahérað óbyggilegt um tíma.