Prófessor Baldur Þórhallsson, sem þá var varaþingmaður Samfylkingarinnar, sagði í viðtali við Grapevine í ágúst 2010, að fyrir bankahrun hefði verið á Íslandi „widespread corruption within ministries and governmental institutions“, víðtæk...

Prófessor Baldur Þórhallsson, sem þá var varaþingmaður Samfylkingarinnar, sagði í viðtali við Grapevine í ágúst 2010, að fyrir bankahrun hefði verið á Íslandi „widespread corruption within ministries and governmental institutions“, víðtæk spilling í ráðuneytum og opinberum stofnunum. Ég skrifaði honum fyrir nokkrum mánuðum og spurði, hvað hann hefði fyrir sér í þessu, en hef ekki fengið svar.

Þetta er forvitnilegt rannsóknarefni. Hvað er spilling, og hvernig verður hún mæld? Ég geri ráð fyrir, að Baldur hafi ekki átt við „sterka“ spillingu eins og mútuþægni og áníðslu, heldur „veika“ spillingu eins og pólitískar stöðuveitingar og klíkuskap. Samkvæmt vísitölu spillingar, sem Transparency International sér um, var þó Ísland langóspilltasta land í heimi árið 2005 og í röð hinna óspilltustu árin á undan og eftir. Alþjóðabankinn reynir líka að mæla spillingu með svokölluðum „Governance Indicators“, stjórnháttastikum. Samkvæmt þeim er Ísland líka í fremstu röð um stöðugleika, skilvirka stjórnsýslu og réttaröryggi og tiltölulega laust við glæpi og spillingu.

Ég hef aðeins fundið eina rannsókn, sem Baldur gæti hugsanlega stuðst við. Hana gerði prófessor Gunnar H. Kristinsson 2005 með því að spyrja 17 valda menn um 111 stöðuveitingar árin 2001-5. Í ljós kom, að langflestar stöðuveitingarnar voru ýmist taldar samkvæmt verðleikum eða í samræmi við skrifræðissjónarmið (þegar maður í næsta þrepi tekur við af yfirmanni sínum). Af þessum 111 stöðuveitingum voru aðeins 18, sem virtust að mati hinna 17 svarenda einvörðungu ráðast af stjórnmálasjónarmiðum. Ég bað prófessorinn um að fá lista um þessar 18 stöðuveitingar, en hann hefur ekki orðið við þeirri beiðni.

En 2008 var gerð samanburðarrannsókn á pólitískum stöðuveitingum í 15 Evrópulöndum. Var prófessor Gunnar einn af umsjónarmönnum. Í ljós kom, að Ísland var eitt þeirra landa, þar sem pólitískar stöðuveitingar voru fátíðastar, ásamt Bretlandi, Hollandi, Danmörku og Noregi. Pólitískar stöðuveitingar voru hins vegar algengastar í Ungverjalandi, Þýskalandi, Ítalíu, Austurríki og Grikklandi. Niðurstöðurnar eru birtar í bókinni Party patronage and party government in European democracies , sem Oxford University Press gaf út 2012.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is