Njáll á Bergþórshvoli sagði í sáttargerð milli Gunnars á Hlíðarenda og óvina hans, Þorgeirs Starkaðarsonar og nafna hans Otkelssonar: „Með lögum skal land vort byggja, en með ólögum eyða.“ Fyrri setningin er kunnur málsháttur víða á Norðurlöndum og kemur meðal annars fyrir í Jótalögum, Upplendinga- og Helsingjalögum og Frostalögum, þar sem seinni setningin er líka, eins og í Njálu . Raunar getur þessar setningar báðar að líta saman í Járnsíðu , en hvorki í Grágás né Jónsbók . Fyrri setningin er einkunnarorð íslensku lögreglunnar og Hjaltlands (Shetland). Svipuðu orðalagi bregður enn fremur fyrir í Lögbók Jústiníusar, að byggja þurfi land með lögum.
Hvað merkir málshátturinn? Er átt við, að menn þurfi jafnan að lúta lögum, þegar þeir búi í landi, eða styðjast við lög, þegar þeir stofni nýtt ríki? Eru ólög vond lög eða engin? Ég velti þessu öllu fyrir mér þegar ég bar fyrir nokkru saman enskar þýðingar Njálu . Í nýjustu þýðingunni, eftir Robert Cook, segir: „With law our land shall rise, but it will perish with lawlessness.“ Í þýðingu eftir Lee M. Hollander segir: „With the law our land shall be built up, and by lawlessness destroyed.“ Í þýðingu eftir George W. Dasent frá 19. öld segir: „With law shall our land be built up and settled, and with lawlessness wasted and spoiled.“ Bandarískur sérfræðingur um íslensk lög að fornu, William Ian Miller, orðar málsháttinn svo: „With laws shall our land be built up but with disorder laid waste.“
Ég er ekki viss um, að Cook þýði sögnina að byggja nógu nákvæmlega með „rise“. Njáll á við að menn komist ekki af án laga. Mannlegt samlíf standi og falli með þeim. Þýðing Dasents er hins vegar ekki nógu einföld. Þýðing Millers hljómar óneitanlega best á ensku, þótt sögnin að „build up“ hafi ekki nákvæmlega sömu merkingu og sögnin að byggja. Síðan er hitt til að hugsa málið upp á nýtt. Ef til vill mætti þýða þetta: „The law preserves a land, but disorder destroys it.“ Eða: „With law our land shall be preserved, but it will perish with lawlessness.“
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is