Í Napóleonsstríðunum á öndverðri 19. öld var Danmörk í bandalagi við Frakka, en Svíþjóð við Breta. Eftir ósigur Frakka skyldu Svíar hreppa Noreg í bætur fyrir Finnland, sem Rússar lögðu undir sig.

Í Napóleonsstríðunum á öndverðri 19. öld var Danmörk í bandalagi við Frakka, en Svíþjóð við Breta. Eftir ósigur Frakka skyldu Svíar hreppa Noreg í bætur fyrir Finnland, sem Rússar lögðu undir sig. Við það urðu Danir að sætta sig í Kílarsáttmálanum, sem þeir gerðu við Svía í janúar 1814. En þrátt fyrir það héldu Danir hinum fornu skattlöndum Noregskonungs í Norður-Atlantshafi, Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Hér hef ég áður reifað skýringar fræðimanna á því. Ein er áhugaleysi Svía, önnur afstaða Breta, sem ekki vildu öflugt Evrópuríki inn á Norður-Atlantshaf. Önnur skýringin útilokar auðvitað ekki hina. Raunar vissi samningamaður Svía í Kíl ekki einu sinni, að Ísland hefði að fornu verið norskt skattland.

Ísland var þó ekki laust allra mála, eins og ég hef komist að í grúski mínu. Danmörk fékk því framgengt í Kílarsáttmálanum, að hinum miklu dansk-norsku ríkisskuldum yrði skipt. Norðmenn voru hins vegar ófúsir að taka að sér eitthvað af þessum skuldum og vísuðu málinu til hins nýja konungs síns og Svía, Karls Jóhanns. Hann benti Dönum á, að þeir hefðu ekki látið Noreg af hendi við Svía, eins og gert var ráð fyrir í sáttmálanum, heldur hefðu Svíar orðið að beita herafli til að sameina löndin tvö undir einum konungi og raunar líka neyðst til að viðurkenna sjálfstjórn Noregs. Fulltrúar sigurvegaranna fjögurra í Napóleonsstríðunum, Bretlands, Rússlands, Prússlands og Austurríkis, réðu ráðum sínum í Aachen (Aix-la-Chapelle) haustið 1818. Þeir tilkynntu Karli Jóhanni, að hann yrði að standa við Kílarsáttmálann og leysa skuldamálið, ella gæti jafnvel svo farið, að Danmörk fengi aftur Noreg. Karl Jóhann reiddist mjög og krafðist þess, að ríki sitt Noregur fengi aftur eyjarnar í Norður-Atlantshafi, Ísland, Færeyjar og Grænland.

Svíakonungur var þó fljótur að falla frá kröfu sinni, enda virtist hún aðeins vera samningabrella. Utanríkisráðherra Svía viðurkenndi beinum orðum yfirráð Dana yfir eyjunum í Norður-Atlantshafi í bréfi til breska sendiherrans í Stokkhólmi 28. maí 1819, og samkomulag náðist þá um haustið um, hvernig Noregur ætti að leysa til sín hluta dansk-norsku ríkisskuldanna. Ísland varð ekki sænsk-norsk hjálenda.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is