Miðvikudaginn 26. apríl 2017 flutti ég erindi á málstofu í Evrópuþinginu í Brüssel um, hvers vegna ætti að minnast fórnarlamba alræðisstefnunnar. Líklega voru nasistar valdir að dauða um 25 milljóna manna og kommúnistar um 100 milljóna.

Miðvikudaginn 26. apríl 2017 flutti ég erindi á málstofu í Evrópuþinginu í Brüssel um, hvers vegna ætti að minnast fórnarlamba alræðisstefnunnar. Líklega voru nasistar valdir að dauða um 25 milljóna manna og kommúnistar um 100 milljóna.

Ég kvað engan ágreining um, að minnast ætti fórnarlamba Helfararinnar, eins hræðilegasta viðburðar tuttugustu aldar. Við viljum sýna þessum fórnarlömbum virðingu og reyna að koma í veg fyrir, að eitthvað sambærilegt endurtaki sig. Enn skortir þó á viljann og áhugann á að minnast á sama hátt fórnarlamba kommúnismans. Auðvitað var Helförin einstæð í sögu mannkyns, sagði ég, en hin kerfisbundna útrýming hugsanlegra eða raunverulegra andstæðinga kommúnismans var líka einstæð. Nasismi og kommúnismi eru sömu ættar.

Alræðisherrarnir Stalín og Maó töpuðu ekki styrjöldum, svo að ódæði þeirra voru ekki dregin fram í dagsljósið í réttarhöldum eins og í Nürnberg. Á sagnfræðingnum hvílir sú frumskylda að hafa það, sem sannara reynist. Þar er niðurstaðan ótvíræð. Þau gögn, sem aðgangur hefur fengist að í kommúnistaríkjunum fyrrverandi, sýna, að þeir Robert Conquest og Aleksandr Solzhenítsyn höfðu í öllum aðalatriðum rétt fyrir sér um hið glæpsamlega eðli kommúnismans.

Á sagnfræðingnum hvílir líka sú skylda að tala fyrir hina þöglu, sem sviptir hafa verið rétti eða getu til að tala sjálfir. Alræðisherrarnir mega ekki sofna svefninum langa í fullvissu um, að myrkraverk þeirra hverfi með þeim úr sögunni. Ég gerði orð franska sagnfræðingsins Chateaubriands að mínum: „Við hina djúpu þögn undirgefninnar, þar sem ekkert heyrist nema glamrið í hlekkjum þrælsins og hvísl uppljóstrarans, allir skjálfa af ótta við harðstjórann og sami háski er að vera í náðinni hjá honum og vekja óánægju hans, birtist sagnfræðingurinn, sem tryggja á makleg málagjöld fyrir hönd alþýðu manna. Neró dafnaði til einskis, því að Tacitus hafði þegar fæðst í Rómaveldi.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is