Út er komin í Danmörku bókin Listin að tæma banka og komast vel frá því , Kunsten at tømme en bank og slippe godt fra det, eftir viðskiptafréttamanninn Thomas Svaneborg á danska ríkisútvarpinu.

Út er komin í Danmörku bókin Listin að tæma banka og komast vel frá því , Kunsten at tømme en bank og slippe godt fra det, eftir viðskiptafréttamanninn Thomas Svaneborg á danska ríkisútvarpinu. Áður hafði hann skrifað ásamt öðrum blaðamanni hina fróðlegu bók Annarra manna fé , Andre folks penge, um fjármálakreppuna 2008, þegar danskir bankar riðuðu til falls vegna örs vaxtar árin á undan. Munurinn á þeim og íslenskum bönkum var, að danski seðlabankinn gat bjargað þeim frá falli, því að hann fékk ólíkt hinum íslenska lausafjárfyrirgreiðslu í Bandaríkjunum.

Bankinn, sem nú hefur verið tæmdur að sögn Svaneborgs, er enginn annar en FIH banki, sem Kaupþing keypti 2004. Hann var einn af stærstu og öflugustu bönkum Danmerkur. Kaupþing bað Seðlabankann íslenska um 500 milljóna neyðarlán 6. október 2008, og beittu ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórn sér fyrir láninu. Seðlabankinn vildi tryggja sig og tók þess vegna (að höfðu samráði við danska seðlabankann) veð í FIH banka, sem átti að vera tvöfalt meira virði en lánið. Var það allsherjarveð, fyrir öllum skuldum Kaupþings. Þegar nýir stjórnendur komu í Seðlabankann eftir brottrekstur Davíðs Oddssonar, Eiríks Guðnasonar og Ingimundar Friðrikssonar, flýttu þeir sér hins vegar að selja bankann hópi danskra fjárfesta og lífeyrissjóða.

Í bók sinni staðfestir Svaneborg það, sem ég hef haldið fram opinberlega, að kaupendur FIH banka léku á forsvarsmann seljenda, Má Guðmundsson seðlabankastjóra. Þeir greiddu aðeins út hluta kaupverðsins, en frá afganginum skyldi draga tap næstu ára. Kaupendurnir einbeittu sér að því að taka út allt tap á þeim tíma, sögðu upp lánum fjölmargra gamalgróinna viðskiptavina og fluttu áhættusöm fasteignalán yfir í opinberan sjóð. Nú hefur bankinn skilað inn rekstrarleyfi sínu. Eftir sitja kaupendurnir, Christian Dybvig, Fritz Schur kammerherra og lífeyrissjóðirnir dönsku með hreinan ávinning upp á líklega um fjóra milljarða danskra króna, 62 milljarða íslenskra króna. Seðlabankinn fékk aldrei nema fyrstu útborgun. Schur kammerherra, sem er góður vinur dönsku konungsfjölskyldunnar, hefur fyrir nógu að skála í veislum á Fredensborg.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is