Í umræðum sumarið 2009 um fyrsta Icesave-samninginn, sem lagt hefði þungar byrðar á þjóðina, héldu tveir fræðimenn, annar í Háskóla Íslands, hinn í Háskólanum í Reykjavík, því fram, að Ísland myndi einangrast á alþjóðavettvangi eins og Norður-Kórea,...

Í umræðum sumarið 2009 um fyrsta Icesave-samninginn, sem lagt hefði þungar byrðar á þjóðina, héldu tveir fræðimenn, annar í Háskóla Íslands, hinn í Háskólanum í Reykjavík, því fram, að Ísland myndi einangrast á alþjóðavettvangi eins og Norður-Kórea, yrði samningurinn ekki samþykktur.

Það var því ómaksins vert að fara í öndverðum maí 2017 út á Kóreuskaga og kynna sér helstu ástæður þess, að Norður-Kórea er einangruð á alþjóðavettvangi. Ég skoðaði þá jarðgöng nálægt Seoul, sem uppgötvast höfðu 1974. Skreið ég drjúga leið inn í göngin og komst um skeið undir Norður-Kóreu. Að minnsta kosti fern slík göng inn í Suður-Kóreu hafa fundist, og átti að flytja um þau herlið og vopn til spellvirkja.

Kommúnistastjórnin í Norður-Kóreu hóf Kóreustríðið 1950 með innrás í Suður-Kóreu og hefur aldrei sætt sig við vopnahléið þremur árum síðar. Hún hefur ekki látið sér nægja að grafa jarðgöng. Hún sendi sérþjálfaða skæruliðasveit til Suður-Kóreu árið 1968, sem átti að ráðast inn í forsetahöllina í Seoul og myrða forsetann. Í árásinni féllu 16 Suður-Kóreumenn og 4 Bandaríkjamenn, en úr skæruliðasveitinni féllu 29 og 2 komust af.

Árið 1969 rændi norður-kóreskur erindreki flugvél í innanlandsflugi í Suður-Kóreu og sneri norður. Sjö farþegar urðu þar eftir, hinum var sleppt. Árið 1983 skipulagði norður-kóreski herinn sprengjutilræði við þáverandi forseta Suður-Kóreu, er hann var staddur í opinberri heimsókn í Rangoon í Búrma. Forsetinn slapp heill á húfi, en fjórir ráðherrar hans týndu lífi. Árið 1987 sprengdu norður-kóreskir flugumenn upp suður-kóreska farþegavél á leið frá Abu Dhabi til Seoul. Farþegar og áhöfn, alls 115 manns, fórust öll. Fyrir skömmu lét einvaldur Norður-Kóreu síðan myrða bróður sinn í Kuala Lumpur.

Í Icesave-deilunni neituðu Íslendingar aðeins að taka ábyrgð á skuldum, sem þeir höfðu aldrei stofnað til og líklegt var, að greiddust að fullu úr þrotabúi Landsbankans. Fyrir það áttu þeir samkvæmt skoðun fræðimannanna tveggja að einangrast alþjóðlega í svipaða veru og Norður-Kórea, sem hóf mannskætt þriggja ára landvinningastríð, sýndi þjóðarleiðtogum banatilræði, sprengdi upp eina farþegaflugvél og rændi annarri og gróf að minnsta kosti fern jarðgöng inn í annað land til spellvirkja.

Íslenskir stjórnmálamenn gengisfella krónuna, fræðimenn tunguna.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is