Mér var falið að andmæla eða öllu heldur bregðast við þremur fyrirlestrum um kóreska efnahagsundrið, þegar ég sótti á dögunum ráðstefnu í Seoul. Margt bar á góma.

Mér var falið að andmæla eða öllu heldur bregðast við þremur fyrirlestrum um kóreska efnahagsundrið, þegar ég sótti á dögunum ráðstefnu í Seoul. Margt bar á góma. Ég tók undir það, sem fyrirlesarar sögðu, að velgengni Kóreumanna hefði orðið þrátt fyrir, ekki vegna, ríkisafskipta. Suður-Kórea hefði verið mjög samleitt og samstætt land, svo að auðvelt var að beina öllum kröftum að sama marki, og þar eð íbúar einbeittu sér að útflutningi, lutu fyrirtæki aga hinnar frjálsu samkeppni á alþjóðamarkaði.

Þegar nefnt var, að innlendar framleiðslugreinar kynnu að skaðast, væru þær sviptar tollvernd, rifjaði ég upp söguna af því, þegar ég kynnti haustið 1984 íslenskan seðlabankastjóra fyrir Milton Friedman svofelldum orðum: „Prófessor Friedman, hér er maður, sem myndi missa starfið, væru kenningar yðar framkvæmdar á Íslandi.“ Friedman var snöggur til svars: „Nei, hann myndi aðeins þurfa að færa sig í arðbærara starf!“ Þetta er lögmál markaðarins: Menn verða við breyttar aðstæður að færa sig í arðbærari störf.

Einnig spurði ég, hvað væri rangt við að flytja verksmiðju úr hálaunalandi í láglaunaland í sparnaðarskyni. Þá færðust til skamms tíma tekjur frá launþegum í hálaunalandinu til starfssystkina þeirra í láglaunalandinu. Þetta væri með öðrum orðum endurdreifing frá bjargálna fólki til örsnauðs, sem flestir hlytu að fagna. En til langs tíma yrðu auðvitað til ný störf á hálaunalandinu, þar eð varan væri nú framleidd ódýrar. Það skilaði sér ýmist í lægra vöruverði til neytenda eða auknum arði til verksmiðjueigendanna. Til langs tíma nytu allir góðs af.

Ég lagði áherslu á, að hvergi mætti hvika frá frjálsum alþjóðaviðskiptum. Enn ætti við það, sem ensk-þýski stjórnmálamaðurinn John Prince Smith hefði sagt: „Tilhneiging okkar til að skjóta á aðra minnkar, ef við sjáum í þeim væntanlega viðskiptavini.“ Hitt væri líka rétt, sem Thomas Watson hjá IBM hefði líklega fyrstur kveðið upp úr um: „Ef varan fær ekki að fara yfir landamærin, þá mun herliðið þramma yfir þau.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is