Pálmar Þorgeirsson fæddist 15. október 1951 í Reykjavík. Hann lést 20. maí 2017 að heimili sínu að Vesturbrún 15, Flúðum.
Foreldrar hans eru Þorgeir Sveinsson, f. 16. júní 1927, bóndi á Hrafnkelsstöðum, Hrunamannahr., Árn., d. 25. nóvember 1997, og Svava Pálsdóttir, f. 20. apríl 1928, frá Dalbæ, Hrunamannahr., Árn, bókavörður og húsfreyja á Hrafnkelsstöðum. Systkini Pálmars eru Hrafnhildur, f. 18. desember 1952, Brynhildur, f. 1. maí 1955, Sveinn Sigurður, f. 18. febrúar 1958, d. 8. ágúst 2008, Aðalsteinn, f. 4. febrúar 1961.
Pálmar kvæntist þann 9. nóvember 1974, Ragnhildi Þórarinsdóttur, garðyrkjubónda, f. 21. mars 1953 á Spóastöðum, Biskupstungum, Árn. Foreldrar hennar voru Þórarinn Þorfinnsson, f. 20. ágúst 1911, bóndi á Spóastöðum, d. 28. nóvember 1984, og Ingibjörg V. Guðmundsdóttir, f. 12. júní 1916, frá Innri Hjarðardal, Önundarfirði, húsfreyja á Spóastöðum, d. 13. janúar 2014. Börn Pálmars og Ragnhildar eru: a) Lára Bryndís Pálmarsdóttir, f. 7. janúar 1977, maki Bragi Þór Gíslason, sonur þeirra Bjarki, f. 2010. Barnsfaðir Kristján Bjarnason, sonur þeirra Aron, f. 2002. Börn Braga eru Díana Brá og Davíð Andri. b) Rúnar Pálmarsson, f. 24. febrúar 1981, sambýliskona hans er Tinna Rúnarsdóttir, barn þeirra Telma, f. 2014. c) Svavar Geir Pálmarsson, f. 18. júlí 1988.
Pálmar og Ragnhildur hafa búið á Flúðum nær alla sína búskapartíð. Pálmar var eigandi flutningafyrirtækisins Flúðaleiðar ehf, og rak það frá árinu 1980, en saga samfelldra vöruflutninga í Hrunamannahreppi nær allt til ársins 1924. Hann vann áður ýmis störf til sjós og lands, aðallega þó í vinnuvéla- og verktakavinnu af ýmsu tagi víða um land. Pálmar var virkur félagi í vélsleðasveitinni, síðar Ferðafélaginu Fannari og Björgunarfélaginu Eyvindi frá upphafi enda mikill áhugamaður um vélsleðamenningu. Ragnhildur kona hans rekur garðyrkjufyrirtækið SR grænmeti og hefur Pálmar tekið æ virkari þátt í þeim rekstri síðustu árin.
Útför hans verður gerð frá Skálholtskirkju í dag, 27. maí 2017, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsta minning mín um kæran frænda og besta vin er frá baðstofunni í Dalbæ þegar Pálmar kom í heimsókn til ömmu sinnar og afa, heiðurshjónanna Margrétar og Páls.  Hann var þeirra fyrsta barnabarn og fékk nafn sitt frá nöfnum beggja. Ég var í sveit hjá þeim, enda Páll móðurbróðir minn, og hafði fengið að vera lengur fram eftir hausti í sveitinni að þessu sinni.   Ég er einn af mörgum sem nutu skjóls í  Dalbæ til lengri eða skemmri tíma.  Hjá öllum þeim skjólstæðingum, skyldum og óskyldum, gengu Margrét og Páll undir nöfnunum amma og afi og voru vel að þeim heiðurstitlum komin. Við Pálmar áttum þarna náðuga daga og afi sagði okkur sögu eftir matinn en lagði síðan Tímann yfir andlitið og var sofnaður.  Þrátt fyrir þriggja ára aldursmun tók Pálmar litla pollanum frænda sínum afar vel og með okkur varð einlæg vinátta sem engan skugga bar á til hinstu stundar.

Það gafst ekki alltaf mikill tími til heimsókna milli bæja sökum anna yfir sumartímann  og Pálmar var ungur orðinn fullgildur vinnumaður  heima á Hrafnkelsstöðum. Við hittumst hinsvegar oft í sundlauginni á Flúðum á  kvöldin en þar var í raun aðalsamkomustaður krakkanna í sveitinni. Ef Pálmar var kominn á undan mér í laugina, var hægt að ganga að honum vísum í hópi aðdáenda af veikara kyninu.  Stundum var hann vart sjáanlegur vegna stelpugers kringum hann í lauginni. Mörgum þótti nóg um kvenhyllina og hefðu sjálfsagt gjarnan viljað að henni væri jafnar skipt.

Samskipti okkar urðu enn meiri þegar Pálmar kom til Reykjavíkur ýmissa erinda og bjó þá jafnan hjá okkur á Laufásveginum.  Hann var aufúsugestur, enda sonur Svövu sem okkur var og er svo kær ekki síst síðan hún bjó hjá foreldrum mínum meðan hún var í Kvennaskólanum. Í bæjarferðunum tók Pálmar  mig með í allt sem ég hafði aldur til og kannski aðeins fleira.  Mér eru margar bæjarferðir minnisstæðar fyrst og fremst fyrir hvað ég var stoltur að vera í för með glæsimenninu honum frænda mínum, enda var hann langflottastur.   Hann tók mig með í Karnabæ að skoða og kaupa föt því þar fór maður sem vissi allt um tísku dagsins og nýjustu  tónlistarstrauma í poppmúsíkinni.

Pálmar fór ungur á vetrarvertíð á Mb. Ásþór frá Reykjavík og ég fylgdi honum oft til skips. Í landlegum nýtti hann tímann vel og skrapp stundum í Glaumbæ. Þegar hann kom heim á Laufásveg síðla nætur, eftir að hafa keypt svið og samlokur á BSÍ fyrir okkur báða, var ég upplýstur um gang kvöldsins og málin rædd. Margt brölluðum við og á ekki allt erindi í virðulegt dagblað, fyrr en kannski eftir nokkra áratugi þegar slík uppátæki verða orðin sögulegur fróðleikur.  Við fjölskyldan á Laufásveginum nutum þess öll að hafa Pálmar í húsinu og mamma sá vart sólina fyrir frænda sínum. Það hvarflaði aldrei að henni að hann, eða ég, ættum nokkurn þátt í dularfullu matarhvarfi úr frystikistunni í kjallaranum eða öðrum einkennilegum atvikum sem ekki áttu alveg augljósar orsakir.

Næstu árin var starfsvettvangur Pálmars oftast í bænum við verktakavinnu, hann bjó á Laufásveginum en  fór æ oftar austur  um helgar. Heimahagarnir toguðu eða öllu heldur Ragnhildur, heimasæta á Spóastöðum, sem komin var í líf Pálmars til að vera - báðum til gæfu.   Ragnhildur fór í skóla í bænum og þau hófu búskap á Laufásveginum.  Þegar þau flytja síðan að Flúðum bjuggu þau fyrstu árin í  Steinahlíð í skjóli Guðmundar frænda okkar og hans góðu konu Önnu.  Pálmar og Ragnhildur byggðu sér reisulegt hús að Vesturbrún 15 á Flúðum og það er minnisstæður gleðidagur þegar ég fékk að hjálpa þeim við flutning þangað.

Um 1980 keypti Pálmar flutningafyrirtæki Guðmundar í Akurgerði, síðar Flúðaleið og rak í 36 ár.  Starfið átti vel við hann, enda fannst honum maður manns gaman.  Hann hafði einstaka þjónustulund og góða skipulagshæfileika og hefði með réttu átt að uppskera eins og til var sáð.  En síðustu árin var einfaldlega ekki rétt gefið í þeim leik.

Ragnhildur gerðist með árunum  umsvifamikill garðyrkjubóndi og eldhugi á þeim vettvangi.  Tveir sona minna stigu sín fyrstu skref í launaðri  vinnu hjá henni og bjuggu á heimili Ragnhildar og Pálmars við höfðinglegt atlæti.  Þeir hugsa með mikilli hlýju til þeirra tíma og eiga góða vini í frændsystkinum sínum, Láru Bryndísi, Rúnari og Svavari Geir.

Á síðasta ári þótti fullreynt með flutningastarfsemina.  Það var erfið ákvörðun. Pálmar söðlaði um og sneri sér alfarið að garðyrkjunni með Ragnhildi af endurnýjuðum krafti. Þar stóðu þau þétt saman sem fyrr og það var mikill hugur í honum að gera enn betur og hann hlakkaði til komandi sumars.

Við Pálmar gátum alltaf talað saman - talað oft og lengi. Ekkert umræðuefni var svo ómerkilegt eða erfitt að okkur tækist ekki að leysa málin.  Það gat tekið langan tíma og símtölin gátu orðið mörg en við áttum alltaf hvor annan að - alltaf.  Pálmar hafði mikil áhrif á þá ákvörðun mína að hefja störf hjá Límtré fyrir margt löngu. Sú ákvörðun hafði áhrif á líf beggja og styrkti samband okkar enn frekar.

Pálmar var stór í sniðum á alla lund, bóngóður og tryggðatröll gagnvart mér og mínum og fjölskyldu minni lagði hann oft lið.  Fyrir það er ég þakklátur en fyrst og fremst er ég á þessari stundu þakklátur fyrir að hafa átt vináttu hans.

Fjölskyldu hans allri votta ég samúð mína og fjölskyldu minnar.

Veri Pálmar Þorgeirsson vinur minn og frændi kært kvaddur.

Guðmundur Osvaldsson.