Vatnajökull Gangi allt að óskum að selja ís úr Vatnajökli til drykkjarkælingar vestur í Bandaríkjunum er sannarlega af nógu að taka. Vatnajökull er mesti jökull landsins og eitt mesta jökulhvel jarðar utan heimskautalanda.

Vatnajökull Gangi allt að óskum að selja ís úr Vatnajökli til drykkjarkælingar vestur í Bandaríkjunum er sannarlega af nógu að taka. Vatnajökull er mesti jökull landsins og eitt mesta jökulhvel jarðar utan heimskautalanda. Með skriðjöklum er flatarmálið 8.300 ferkílómetrar. Jökullinn er talinn 3.300 rúmkílómetrar og því að meðaltali 400 metra þykkur. Þykkastur er hann 1.000 metrar. Bungótt háslétta er undir jöklinum og liggja dalir á milli. Hæð jökulsins er yfirleitt 1.400 til 1.800 metrar yfir sjávarmáli, en undirstöðurnar 600 til 1.000 m.y.s. Hvannadalshnjúkur á Öræfajökli er hæsti tindur Vatnajökuls og um leið landsins, 2.119 metrar yfir sjávarmál. Bárðarbunga nær einnig upp fyrir 2.000 metra, er 2.010 m.y.s. Nokkur fjöll eða fjallgarðar standa upp úr Vatnajökli og má helst í því sambandi nefna Pálsfjall, Þórðarhyrnu, Grímsfjall, Esjufjöll og Mávabyggðir. Jarðhiti er víða undir jöklinum og eldvirkni og kemur þá nafn Grímsvatna strax upp í hugann, en eldvirkninni og jarðhitanum fylgja gífurleg jökulhlaup sem setja svip sinn á sveitir þar syðra nánast ár hvert. Hin seinni ár færist það mjög í vöxt að innlendir sem erlendir ferðamenn leita á Vatnajökul til að upplifa ógleymanlegar stundir í faðmi stórbrotinnar náttúru.