Í rannsóknum mínum á bankahruninu 2008 rakst ég á það að danski fjáraflamaðurinn Christian Dyvig rataði árið 2015 á lista yfir 100 ríkustu Danina vegna gróða síns af kaupum á FIH-banka.

Í rannsóknum mínum á bankahruninu 2008 rakst ég á það að danski fjáraflamaðurinn Christian Dyvig rataði árið 2015 á lista yfir 100 ríkustu Danina vegna gróða síns af kaupum á FIH-banka. Ég tók þá eftir því að á sama lista var dánarbú Haldors Topsøe og raunar í tíunda sæti með 7,2 milljarða danskra króna eign (um 110 milljarðar íslenskra króna). Fornafnið hljómaði kunnuglega, og eftir nokkurt grúsk komst ég að því að þessi danski auðjöfur var íslenskur að langfeðgatali.

Haldor Topsøe fæddist 1913, gerðist efnaverkfræðingur og stofnaði árið 1940 fyrirtæki sem ber heiti hans og stendur enn framarlega í efnaiðnaði á alþjóðavettvangi. Hann lést 2013, skömmu áður en hann hefði orðið hundrað ára. Faðir hans var Flemming Topsøe liðsforingi en afi hans Haldor Topsøe, kunnur danskur efnafræðingur og félagi í danska Vísindafélaginu. Móðir Haldors eldri var hálfíslensk, Sigríður Thorgrímsen. Hún var dóttir Halldórs Thorgrímsen, sem fæddist byltingarárið 1789, lærði lög í Danmörku og var sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu 1814-1818, en dæmdur frá embætti. Hann var síðar rekinn úr skrifarastarfi og lést í umkomuleysi í Laugarnesi 1846. Halldór var sonur Guðmundar dómkirkjuprests Þorgrímssonar og konu hans Sigríðar Halldórsdóttur prófasts Finnssonar biskups.

Eftir að Halldór Thorgrímsen missti embætti sendi hann konu sína og dóttur til Danmerkur. Sigríður giftist Søren Christian Topsøe, sem var bæjarfógeti í smábænum Skelskør á Suðvestur-Sjálandi. Annar sonur þeirra Sigríðar var Vilhelm Topsøe, ritstjóri hægriblaðsins Dagbladet í Kaupmannahöfn og kunnur rithöfundur í Danmörku. Sigríður var raunar líka langamma prófessors Peters Bredsdorff, sem gerði aðalskipulag Reykjavíkur 1962.

Haldor Topsøe kom til Íslands 1951, rannsakaði nýtingu jarðvarma á Íslandi og skrifaði um það skýrslu. En árið sem hann lést, 2013, kom út bók samnefnd honum eftir danska blaðamanninn Thomas Larsen. Í viðtali við bókarhöfund kvað Topsøe afa sinn og nafna hafa talið að Topsøe-ættin hefði notið sterkra íslenskra erfðavísa (gena). Haldor eldri hefði verið stoltur af því að geta rakið ættir sínar til Gunnlaugs Ormstungu og Egils Skallagrímssonar.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is