Korpúlfsstaðir ­ glæsilegasta stórbýli á Íslandi Úr nýjum bókum Komin er út bókin Korpúlfsstaðir - Saga glæsilegasta stórbýlis á Íslandi. Höfundur er Birgir Sigurðsson rithöfundur en Reykjavíkurborg og Forlagið standa saman að útgáfunni.

Korpúlfsstaðir ­ glæsilegasta stórbýli á Íslandi Úr nýjum bókum Komin er út bókin Korpúlfsstaðir - Saga glæsilegasta stórbýlis á Íslandi. Höfundur er Birgir Sigurðsson rithöfundur en Reykjavíkurborg og Forlagið standa saman að útgáfunni. Korpúlfsstaðir voru í sinni tíð fulkomnasta kúabú á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað. Athafnamaðurinn Thor Jensen reisti býlið en hann var einnig einn af frumkvöðlum síldarútvegsins og stofnaði Kveldúlf sem talinn var eitt stærsta útgerðarfyrirtæki í heimi þegar hæst stóð. Í bókarkynningu segir að á Koprúlfsstöðum hafi Thor Jensen unnið mesta stórvirki Íslendings sem um getur. Hér segir frá því er Thor ræðst í framkvæmdirnar á Korpúlfsstöðum:

hor bar allar miklar fyrirætlanir undir eiginkonu sína, Margréti Þorbjörgu. Hvað sagði hún? Hvernig varð henni við þegar hann sagði að sig langaði til að koma á fót stærsta og fullkomnasta búi á Íslandi? Við vitum það ekki. Við vitum aðeins að hún gaf samþykki sitt. Annars hefði ekkert orðið úr framkvæmdum á Korpúlfsstöðum. Hann breytti aldrei gegn vilja hennar. Á allsleysisárum þeirra í Hafnarfirði hvarflaði að honum að þau flyttu til Ameríku. Hún lagðist gegn því. Og þar við sat. Nú sagði hún já. Þessi kona sem hefur fætt þeim ellefu börn hvikar sjaldan. Kannski aldrei.

Hún hefði getað sagt að nú væri best að þau tækju sér hvíld. Ekki hefði verið hægt að álasa henni þótt hún hefði talið óðs manns æði að hann réðist í svo umfangsmikla framkvæmd á efri árum. Þau eru stórefnuð. Hvers vegna ekki að njóta þess og láta þar við sitja? Ef til vill hefur hún strax hrifist með á sinn hátt.

Hann gat aldrei án stuðnings hennar verið. Þessi fáorða sterka kona eflir hann þeim krafti sem hann þarf. "Því að með henni og fyrir hana fyrst og fremst voru öll hans ævintýr, ­ eða svo gat það litið út á köflum, og svo munu ýmsir síðar herma," segir Thor Thors. Margrét Þorbjörg er í þungamiðju lífs hans og á þátt í athöfnum hans sem því nemur. Þessi þáttur verður ekki mældur og veginn en hann er þar samt, óaðskiljanlegur frá öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Með samþykki sínu og stuðningi við áformin á Korpúlfsstöðum tekur hún undir þegar hann segir: Ég er ekki nema sextugur maður.

Síðan byrjar hann óvenjulegustu framkvæmd sína

Gamli bærinn á Korpúlfsstöðum stóð á dálitlu leiti vestur af núverandi byggingu, lítill og ekki reisulegur torfbær en þó ekki lélegri en gerðist víða um land. Í bænum var þiljuð stofa og tvö herbergi. Dyrnar sneru til suðurs í átt að þjóðveginum. Fagurt útsýni til þriggja átta eða svo en þó fegurst til Esjunnar og út á hafið. Til vesturs voru auðnarfull og stórgrýtt holt. Handan þeirra Reykjavík. Þangað lá mjór og hlykkjóttur forfaðir þess þjóðvegar sem tryllitæki nútímans æða nú hvað hraðast um. Heimreiðin að Korpúlfsstöðum lá frá gamla Gufunesveginum. Trúlega þrettán til fjórtán kílómetrar frá bænum að hjarta Reykjavíkur.

Ekki er vitað hvar elstu bæjarhúsin stóðu en út á hlaðið á þessum bæ hafði maður fram af manni komið að morgni dags, klórað sér, geispað, kastað af sér vatni, horft yfir ána svefndrukknum augum. Gengið til verka svo í dag sem í gær. Í kyrrstæðum tíma. Sumt af þessu fólki snautt og atkvæðalítið og gat ekki einu sinni varið túnskækla sína fyrir búfé annarra jarða. En allt í einu býr enginn í þessum bæ. Í hlaðvarpanum stendur aðkomumaður og svipast um: Gamla bæjarstæðið er fallegt en nýi bærinn getur ekki staðið þar. Hann er of mikill um sig til þess og þar á ofan ólíkur öllum íslenskum býlum að því leyti að vistarverur manna og búpenings með öllu tilheyrandi eru í sömu byggingunni. Við val á bæjarstæði verður að hafa þessa einstæðu samsetningu í huga ásamt stærð hússins. Þess verður líka að gæta að undir öllu fjósinu verður haughús og jafnframt þarf að vera auðvelt að aka heybílum inn í hlöðuna ofan við fjósið.

Þetta er eldsnemma morguns. Hann er óþreyjufullur, etur kappi við tímann, ekki ungur lengur hið ytra en honum finnst nýtt æviskeið byrjað og kannski það þýðingarmesta. Vissi það þó ekki fyrr en hann hafði keypt þetta kotbýli að hér skyldi það gerast. Það sem tekið yrði eftir. Það sem ekki yrði gleymt. Þótt hann hafi mikla sjálfsstjórn er hann ákafamaður. Jafnskjótt og ákvörðun hefur verið tekin byrjar hann. Honum liggur á. Framkvæmdum á Korpúlfsstöðum á að verða lokið á þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930. Þeir eiga að verða tákn um þjóðlega endurreisn, framlag hans til alþingishátíðarinnar. Miðað við hve áformin eru risavaxin er skammur tími til stefnu. - Hann reikar um tún og mela. Loks staðnæmist hann á melhrygg lítið eitt austur af torfbænum. Svipast um, horfir til allra átta. Tekur ákvörðun: Hér skal húsið rísa.

Til er kvikmynd þar sem myndavélinni er fyrst beint að gamla bænum og síðan rennt að nýja húsinu sem þá var í byggingu. Þetta eina myndskeið segir meira en langur lestur. Milli þessara tveggja bygginga er óbrúanlegt djúp. Það er líkt og tíminn hafi allt í einu tekið risastökk fram á við og skilið þennan gamla torfbæ með veðruðum burstum og sliguðum torfveggjum eftir í svo mikilli fortíð að þetta myndskot sé óhugsandi. En þó eru ekki nema örfá ár síðan fólk lifði og hrærðist í þessu húsi úr torfi og grjóti.

Bygging hússins hófst í apríl árið 1925. Það var geysistórt á mælikvarða þeirrar tíðar, hvort sem miðað er við dreifbýli eða þéttbýli. Mölin sem fékkst þegar kjallarinn var grafinn var notuð í steypuna og þótti prýðilegt steypuefni. Öðru efni til hússins viðaði Thor að sér erlendis frá og leigði skip undir fyrstu sendinguna til landsins. Enn sem fyrr var hann fundvís á rétta menn til að hafa umsjón með framkvæmdum. Jón Eiríksson hafði umsjón með allri múrvinnu og Sólmundur Kristjánsson sá um tréverk. Það vekur furðu hve skamman tíma tók að koma húsinu upp þegar þess er gætt að öll vinna var unnin með handafli og steypa hvergi spöruð. Þótt húsið hafi þegar þetta er ritað mjög látið á sjá ber það þessum mönnum og vinnuflokkum þeirra gott vitni.

Thor hafði vakandi auga með öllu en þegar framkvæmdir við bygginguna voru nýhafnar dró upp bliku. Hann segir: "En er leið á það ár (1925, BS), kenndi ég mér lasleika, sem að nokkru eða öllu leyti var talinn stafa af ofþreytu. Á tímabili leit það svo út, sem ég hefði á sjötugsaldrinum oftekið mig á þessu nýja ævistarfi, hefði tekið of geyst þennan síðasta æviþátt minn. Þegar kom fram á árið 1926, varð ég hvað eftir annað að liggja rúmfastur vikum saman, en þó ekki þjáðari en svo, að ég öllum stundum var með hugann við búskapinn og varð daglega að fá ráðsmann og yfirsmið heim til mín og stjórna verkunum óséðum úr rúmi mínu."

Það bráði af honum þegar leið á sumarið og þá bauð hann vini sínum, Guðmundi Björnssyni landlækni, upp að Korpúlfsstöðum til þess að skoða framkvæmdir. Guðmundur hafði frá upphafi haft mikinn áhuga á því að búskaparhugmyndir Thors yrðu að veruleika og hvatt hann til þeirra á alla lund. Hann var framfarasinnaður maður og greinilegt að hann áttaði sig á þeirri þýðingu sem Korpúlfsstaðir gátu haft fyrir þróun landbúnaðarins. En áhugi hans og hrifning á þessu stórbúi var þó fyrst og fremst af læknisfræðilegum ástæðum. Á þessum árum var taugaveiki landlæg og illviðráðanleg. Ein helsta smitleið þessa skæða sjúkdóms var neysla sýktrar mjólkur. Fram til þessa höfðu engar skipulegar tilraunir verið gerðar til þess að bæta framleiðsluna, hreinlætiskröfur voru litlar sem engar og opinbert eftirlit með mjólk ekkert. Bestu og framsæknustu bændurnir reyndu að gæta hreinlætis eftir föngum en aðrir kærðu sig kollótta. Mjólkurframleiðslan galt þess að hreinlæti var almennt mjög ábótavant þótt farið væri að þokast í rétta átt á ýmsum sviðum. Víða þekktist lítt eða ekki að júgur kúnna væru þvegin fyrir mjaltir, kýr voru með viðvarandi flórlæri og mykjukleprar hangandi yfir opnum mjaltafötum. Sóðaskapur af þessu tagi var lengi við lýði í fjósum landsmanna. Bragi Steingrímsson dýralæknir segir svo frá: "Þegar jeg var að skoða fjósin hjer í nágrenni Reykjavíkur, kom jeg í eitt fjós, þar sem gripirnir voru sjerstaklega óþrifalegir. Á júgrum kúnna var þumlungsþykt myglulag, en berin hengu niður með spenanum." ­ Mjaltamenn létu iðulega buna úr spenum á hendur sér til þess að mýkja átakið. Síðan láku óhreinindin af höndunum niður í mjólkurföturnar, algengt að sjá þykka, brúna skán í greipum manna eftir mjaltir. Fjós voru víða mjög frumstæð og gróðrarstía sýkla sem áttu greiða leið að júgrum kúnna. Mjólk úr sýktum og skemmdum júgrum var látin saman við ósýkta mjólk enda höfðu margir bændur ekki þekkingu til að greina milli sýktrar og ósýktrar mjólkur fyrr en ígerð var orðin svo mikil í júgrum að mjólkin var orðin að vilsu. Það lætur að líkum að engar skýrslur eru til um ástand fjósa og mjólkurframleiðslu í landinu frá þessum árum en ekki er vafi á því að þessi ófagra lýsing á við um fjós víða um land.

Í augum Guðmundar Björnssonar landlæknis fólu áformin á Korpúlfsstöðum í sér stórt stökk fram á við. Ef vel tækist til gæti búskapur þar orðið fordæmi sem ylli byltingu í þessum efnum. Ekki að furða að landlæknir væri spenntur og hrifinn þegar Thor bauð honum að Korpúlfsstöðum sumarið 1926. Eftir þessa ferð skrifar Guðmundur Thor bréf þar sem segir meðal annars: "Ég þakka þér kærlega fyrir förina að Korpúlfsstöðum, en það getur verið að þú vitir ekki hvers vegna ég var að tala svo margt í Morgunblaðið um Ísafjörð og taugaveiki og hvers vegna ég var svo áfjáður að sjá þín kraftaverk á Korpúlfsstöðum.

Það var af þessu: Taugaveikin er að verða okkur til skammar. Sjáðu nú til. Ég vil hafa að við séum og verðum heilbrigðasta og langlífasta þjóð í heimi ... Ef ég bara gæti fengið þetta tvennt lagað, taugaveiki og slysfarir, niður á borð við aðrar þjóðir þá held ég að við yrðum minnstir í heimi, hvað manndauða snertir.

Hvað sem öðru líður, þá er ég að óska mér þess hjartanlega að þú megir lifa sem lengst og satt að segja held ég nú sem stendur, að þú sért sá maðurinn sem íslenzka bændastéttin má sízt missa. Undarlegur hlutur, og þó er það satt."

Hvers vegna var það undarlegt að Thor skyldi vera sá maður sem bændastéttin síst mætti missa? Vafalítið er Guðmundur að vísa til þess að þótt Thor hefði rekið búskap í áratugi var hann fyrst og fremst þekktur sem öflugasti útgerðarmaður landsins. Í því ljósi er auðvitað furðulegt að hann sé sá bóndinn í landinu sem mestar vonir veki.

Óhætt er að fullyrða að landlæknir var ekki einn um að skilja þýðingu Korpúlfsstaða fyrir búskap í landinu. Ýmsir forystumenn landbúnaðarmála sáu að mörgu leyti sinn eigin draum um framþróun landbúnaðarins vera að rætast á Korpúlfsstöðum, þeirra á meðal Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri og Halldór Vilhjálmsson skólastjóri Bændaskólans á Hvanneyri og áreiðanlega margir fleiri sem lengdi eftir nýrri tíð í búskaparháttum. Það jók áhuga þessara manna að bóndinn á Korpúlfsstöðum var opinn fyrir nýjungum. Að því leyti var hann eins og ungur maður í broddi lífsins.

Þessar framkvæmdir voru svo stórar í sniðum að þær hlutu að vekja öfund. En flestir dáðust að búskapnum á Korpúlfsstöðum: "Hvar sem þeir stóðu í flokki, litu unnendur jarðræktar svo á, að það væri mikils virði fyrir traust manna á jarðrækt, að svo hagsýnn maður sem Thor Jensen skyldi trúa íslenzkri gróðrarmold fyrir því fé, sem honum hafði græðzt á útgerð og verzlun og vissulega var nægilegt til þess að hann gat horft áhyggjulaust fram til elliáranna, þótt hann hefðist ekkert að ... Menn sögðu sem svo, að ekki gæti farið hjá því, að fleiri, sem hefðu rúman fjárhag, fylgdu dæmi hans. Og fordæmið gæti orðið efnaminni bændum, sem ekki höfðu aðstöðu til stórfelldra tilrauna, lærdómsríkur skóli."

Veikindi Thors héldu áfram. "Þótt ekki gæti ég kallazt sárþjáður, var ég magnlaus og ófær til allra stórræða," segir hann. Í febrúar árið 1927 leitaði hann sér lækninga í Danmörku og annaðist Haukur sonur hans uppbygginguna á Korpúlfsstöðum á meðan. En þótt Thor væri þreklítill vék ætlunarverk hans ekki úr huganum, vakinn og sofinn, heilbrigður og sjúkur hélt þessi ástríðufulli athafnamaður áfram að auka þekkingu sína á búskap og bústörfum til þess að verða fær um að ráða fram úr öllu sem Korpúlfsstaði varðaði: "Á þessum árum sökkti ég mér niður í öll þau búfræðirit, sem ég taldi að mér gætu komið að gagni. Einkum las ég allt sem snerti grasrækt og aðra ræktun, er átt gæti við íslenzka staðhætti, svo og mjólkurmeðferð. Meðan ég var í Höfn heimsótti ég Københavns Mælkeforsyning. Ég hafði bréfaviðskipti við fræræktarmenn í Svalöf á Skáni, og mjólkursérfræðinginn Orla Jensen, prófessor við landbúnaðarháskólann í Höfn, er gaf mér leiðbeiningar um mjólkurmeðferð og mjólkuráhöld."

Thor fékk ekki bata í Danmörku og hélt heim til Íslands. En er leið að hausti leitaði hann sér enn lækninga erlendis og fór nú til Miðjarðarhafsstrandar Ítalíu og var þar um veturinn í umsjá lækna. Virðist hann þá hafa fengið nokkra heilsubót og kom heim um vorið. Byrjaði hann þá strax að sinna búum sínum en fyrst og fremst Korpúlfsstöðum. Ekki tókst betur til en svo að hann ofkældist og fékk hastarlega lungnabólgu með miklum sótthita. Það dró mjög af honum um tíma og taldi læknir hans, Halldór Hansen, miklar líkur á að þetta yrði banalega hans. En sótthitinn bráði af honum um síðir. Þá kom læknirinn sjaldan svo í sjúkravitjun að ráðsmaðurinn á Korpúlfsstöðum eða þeir sem önnuðust byggingarframkvæmdir væru ekki hjá sjúklingnum að ráðgast við hann um störf sín. Hugur hans var altekinn af Korpúlfsstöðum. Fátt eða ekkert annað komst að: "Ég má ekki hverfa frá þessu. Ég verð að koma Korpúlfsstaðabúinu í það horf sem ég hefi ætlað mér. Þetta verður síðasti kapítulinn minn. Ég þarf að geta gengið frá honum. Þegar honum er lokið, þá get ég farið, en ekki fyrr."

Nú verður gripið niður í bókina á heyskapardegi árið 1934 en þá var búið í miklum blóma

Vinnufólkið raðar í sig. Orðið sársvangt. Þetta er fyrsta máltíð dagsins. Kaffi, mjólk og brauð. Brauðin hennar Sigríðar. Áleggið er smjör, ostur, rúllupylsa og kálfakjöt sem hefur verið skorið í þunnar flísar. Borðstofustúlkan hefur auga á hverjum fingri. Fullir diskar koma í stað þeirra tæmdu. Eftir máltíðina situr sumt af vinnufólkinu um stund í borðstofunni, drekkur kaffi, reykir, spjallar saman. Konur og karlar. Ungt fólk. Glaðvært. Á heyskapardegi verða jafnvel mestu fýlupokar glaðværir. Kannski er enginn fýlupoki á búinu. Glaðværðin er eitt af því sem Korpúlfsstaðamenn minnast. Hillingar? Ef til vill að einhverju leyti. En samkomulagið var ótrúlega gott. Thor Jensen hafði lag á að velja sér gott starfsfólk. En það er ekki hann sem hefur ráðið allt þetta fólk. Hann réð Sigríði árið 1924, Stefán árið 1931 og án vafa einhverja fleiri sem matast í borðstofunni þennan dag. En Lorentz Thors ræður flesta starfsmenn búsins. Hefur hann sama auga fyrir góðum starfskröftum og faðir hans? Það virðist vera. En hann hafði ekki mörg orð þegar hann réð Harald að búinu sama sumarið og Stefán kom til starfa. Haraldur hringdi í hann, sagði deili á sér, var búfræðingur frá Hvanneyri en átti ekki endilega von á að verða ráðinn því störf á Korpúlfsstöðum voru umsetin. Þetta varð stutt samtal. Bústjórinn hlustaði á hann nokkur andartök, sagði síðan: "Komdu bara." - Þar með var það klappað og klárt.

Tvær konur rogast með bala á milli sín eftir kjallaraganginum. Við sáum þær úti snemma í morgun. Þær hengdu rúmfatnað á snúrur. Nú er balinn fullur af nýþvegnum mislitum þvotti. Þær eru búnar að fá sér morgunkaffið með stúlkunum í eldhúsinu. Þegar þær eru komnar á móts við borðstofuna kemur kaupamaður fram á ganginn. Hann gefur félaga sínum í borðstofunni merki, sá stendur upp og þeir taka við balanum af stúlkunum. Bros á báða bóga. Þeir bera balann upp stigann. Þvotturinn er blautur og sígur í. Þeir ganga upp á vinnufólksloftið og stúlkurnar í humátt á eftir þeim. Rétt fyrir framan herbergi Sigríðar eru dyr upp á stórt þurrkloft. Þangað fara þeir með balann. Kærar þakkir og stúlkurnar byrja að hengja upp þvottinn. Innst í rjáfrinu á þessu þurrklofti eru litlar dyr sem opnast inn í hlöðuna vestan megin. Þær eru læstar enda eins gott því ef menn skelltu sér gegnum þær lentu þeir á steingólfinu í hlöðunni eða súrheysgryfjukanti sex til sjö metrum neðar. Ekki gott að segja til hvers þessar dyr eru, ef til vill hefur ætlunin verið að hafa geymsluloft uppi á efstu bitum í burstinni.

Konur hafa miklu lægri laun en karlmenn og þykir ekki tiltökumál, hvorki hér né annars staðar. Störf þjónustustúlknanna eru með þeim erfiðustu á búinu, einkum á sumrin þegar fólkið er flest. Þar við bætist að konur við innistörf njóta sjaldan sólarstunda. Þær eru ekki dökkbrúnar af sól eins og útistúlkurnar. Á þvottadögum fá þær aðstoð, tvær til þrjár stúlkur sem annars eru við útistörf koma til liðs við þær. Þennan dag hafa þær tvær hjálparstúlkur. Útiráðsmaðurinn sér eftir þeim í þvottinn vegna þess hve mikið hey er undir. En hann hefur engin orð þar um. Hann veit að þvotturinn er þjónustustúlkunum einum ofviða.

Aukastúlkurnar standa við bala í þvottahúsinu íklæddar gúmmísvuntum og skrúbba grútskítuga samfestinga á þvottabrettum. Fjósagallar í bleyti í tréstampi á gólfinu, sokkaplögg í öðrum. Önnur stúlknanna ýtir galla ofan í grænsápulöginn í balanum. Hún þerrar ennið á handlegg sér, bætir spýtum í eldinn undir suðupottinum, lyftir potthlemminum af sjóðandi vatninu og gufa flögrar heitum vængjum út um galopna gluggana. Hún dýfir þvottapriki í pottinn, fiskar upp sængurver, snýr prikinu, vefur verinu upp á það, skellir því í bala og lætur kalt vatn renna í balann. Þegar balinn er orðinn fullur hvolfir hún úr blámadós í vatnið. Skærblár litur sveimar um balann. Hún krakar meiri sængurfatnað upp úr suðupottinum, þrýstir síðan óhreinum sængurfatnaði niður í hann. Verin þrjóskast við að sökkva, full af lífslofti. Hún potar prikinu í þau, drekkir þeim, setur hlemminn á pottinn. Hin stúlkan heldur áfram að hamast á þvottabrettinu, svitastorkið hár klesst niður á ennið.

Síðar um daginn fara þær út í gamla bæinn og rulla sængurfatnað í stærðar rullu. Þar eru tvö góð herbergi sem þjónustustúlkurnar hafa til umráða. En baka til er stór stofa og sérinngangur í hana. Þar sofa sex vinnumenn á sumrin. Þær hafa búið um rúmin þeirra. En stúlkurnar á þurrkloftinu hafa búið um rúmin í öllu húsinu. Það var fyrsta verk þeirra um morguninn. Þeirra er líka að þvo gólfin og bæta og gera við flíkur, stoppa sokka. En ekki í dag, það er þvottadagur. Í herbergjunum eru tvö trérúm, þrjú í þeim stærstu, lítið borð í hverju herbergi, hengi í einu horninu.

Klukkan tíu er útifólkið aftur komið til starfa. Stefán hefur gripið hrífu og rakar dreif með stúlkunum á sjávartúninu. Hundurinn hendist til og frá, rekur nefið í töðuna, hnerrar, kann sér ekki læti fyrir lífsgleði. Hann skellir sér á magann, spyrnir afturfótum í grassvörðinn og mjakar sér áfram, hans aðferð við að klóra sér. Gráni dregur stærðarhlass á gafflinum, blæs og stynur. Sjórinn skín á Sundunum, golan styrkist. Sæluþrunginn heyskapardagur. Samlíf manns og jarðar. Allífið undir og ofan á. Brúni bíllinn að koma niður túnið, það glampar á hann, kemst helmingi meira hey á hann en gömlu bílana. Lorentz stígur út úr honum farþegamegin, gengur til Stefáns. Hann hættir að raka. Þeir ræða saman. Lorentz í jakkafötum, hefur hendur í vösum, myndarlegur maður. Við heyrum ekki orðaskil. Þögul kvikmynd. Stefán litast um, pírir augun. Jú, hann er byrjaður að blika, á því er enginn vafi. Hann veit ekki að það er röndóttu stúlkunni að kenna.

Rakstrarvélarnar lyfta greiðum, þrjár í röð en búið að spenna Mósa frá snúningsvélinni. Hún stendur tómlát hjá girðingunni við afleggjarann. Það verður ekki slegið meira að sinni, kentárarnir tveir þagnaðir. En þriðji kentárinn dregur snúningsvél. Fjórði kentárinn er bilaður, vélamennirnir á kafi í honum í vélakjallaranum. Kentárinn með snúningsvélina er mjósleginn aftan fyrir, á þunnum járnhjólum. Hvenær sem er má skilja kentár í tvennt, taka frá afturhlutann með sláttugreiðunni og setja þessi mjóu hjól í staðinn. Snúningsvélin sem kentárinn dregur er mun stærri og þyngri en sú sem hestarnir draga. Fálmararnir sem velta við heyinu ganga út úr fjórum stórum skjöldum er snúast hring eftir hring.

Heybílarnir kjaga háhlaðnir heim og upp brúna að vestanverðu, hverfa inn í hlöðuna, koma tómir út austan megin. Allt er knúið til hins ýtrasta. Greinilega búist við vætu. Vont að fá ofan í þessa iðgrænu töðu. Ef til vill verður unnin eftirvinna. Stefán gætir þess að reglur um vinnutíma séu haldnar, hætt á slaginu fimm. Sé unnið lengur fær vinnufólkið frí daginn eftir sem því nemur. - Það er byrjað að taka saman drýli á Kinninni. Þar dregur Mósi heygaffalinn. Græni bíllinn er á leiðinni þangað, fjórir menn á pallinum með kvíslar, tvær stúlkur með hrífur. Bílnum er ekið eftir gamla veginum, hossast í holum og ójöfnum. Fólkið heldur sér í heygrindurnar, önnur stúlkan með lokuð augu, hallar aftur höfði og snýr við sól.

Sól hækkar á lofti, nálgast hásuðrið. Bæjarburstirnar að sunnanverðu skjannabjartar. Fólksbíll beygir út af þjóðveginum og kemur heim afleggjarann, staðnæmist yst í hlaðvarpanum. Maður stígur út úr bílnum. Hann er í jakkafötum og vesti, roskinn, virðulegur, "heilmikil kempa" eins og Haraldur Jónatansson sagði um hann. Hann horfir niður á sjávartúnið þar sem allt er á flugi við heyskapinn. Út úr portinu bak við hann kemur hávaxin og hvítklædd kona. Hárið ljóst með dökkum tónum. Hún heldur á íláti og hefur breitt yfir það hveitipoka. Um það bil sem hún sveigir fyrir brúarsporðinn og heldur vestur veginn í átt að gamla fjósinu verður maðurinn á hlaðinu var við hana, lyftir hattinum og býður góðan dag. Hún svarar kveðju hans. Þegar hún opnar dyrnar á fjósinu byrjar naut að baula eins og það sé með pípuorgel í hausnum, bassi með votti af diskanti.

Maðurinn á hlaðinu horfir á eftir henni hverfa inn í fjósið, svolítið kíminn á svip. Hann veit hvað hún er að gera. Hún er að færa villiketti fiskafganga. Kötturinn hefur notað sér að gamla fjósið er tómt yfir sumarið ­ að undanskildum bolanum ­ og gotið í jötu. Á þessum bæ sveltur enginn villiköttur. Ráðskonan sér um það. Kannski hverfa kettlingarnir einn daginn svo lítið ber á. Þetta er eilíft stríð. Hún fóðrar kettina. Útiráðsmaðurinn reynir að halda fjölgun þeirra í skefjum.

Á þessum árum kemur Thor Jensen að minnsta kosti einu sinni í viku og fylgist með bústörfunum, ráðgast við bústjórann. Hann er kominn á áttræðisaldur en lætur ekki bilbug á sér finna.

Hann horfir niður á sjávartúnin, brosir með sjálfum sér, hefur enn miklar áætlanir á prjónunum.

Korpúlfsstaðir - saga glæsilegasta stórbýlis á Íslandi er gefin út af Forlaginu og Reykjavíkurborg. Bókin er 168 blaðsíður í stóru broti, prýdd mörgum myndum sem margar hverjar hafa aldrei birsti áður.

LJÓSMYND Magnús Ólafsson. - Ljósmyndasafn Reykjavíkurborgar.

THOR Jensen var sextugur þegar hann ákvað að breyta kotbýli í stórbýli sem átti engan sinn líka. Ætli nokkru sinni hafi verið tekin jafn hugdjörf ákvörðun af sextugum manni í íslensku athafnalífi og staðið við hana með jafn eftirminnilegum hætti?

IÐNAÐARMENN, verkamenn og vinnufólk framan við Korpúlfsstaði sumarið 1930. Þeir voru framlag Thors til Alþingishátíðarinnar.

TVEIR pípureykingamenn við slátt á "kentárum" um miðjan fjórða áratuginn. Það voru fjórar slíkar vélar á búinu, auk annarra dráttarvéla.

ÞRJÁR vinnukonur og vinkonur á frídegi við einn af búbílunum sumarið 1935.

FJÓSAMENN í fullkomnasta fjósi á Norðurlöndum. Myndin er tekin árið 1934. Þá voru sextán fjósamenn á búinu.

MJÓLKURBÍLL frá Korpúlfsstöðum fyrir framan verslunina Liverpool á fjórða áratugnum. Á hlið hans stendur Korpúlfsstaðamjólk. Tveir slíkir bílar voru á búinu og fluttu mjólkina í flöskum beint til neytenda í Reykjavík.

BÚSKAPUR var blómlegur á sjötta áratugnum. Þá átti Reykjavíkurborg búið.

ÁRIÐ 1935 tók Mjólkursamsalan til starfa. Þá geisaði sannkallað mjólkurstríð með miklum ofsa og fúkyrðum vikum og mánuðum saman.

HEYFLUTNINGAR frá Korpúlfsstöðum til Melshúsa á Seltjarnarnesi sem var ein jarða Thors Jensen. Þar voru margir nautgripir en lítil tún.

KAFFIHLÉ á heyskapardegi. Á búinu unnu um níutíu manns þegar mest var.

ÞÓTT Korpúlfsstaðir væru tæknivæddasta bú landsins var hesturinn enn þarfur þjónn á fjórða áratugnum.

VIRÐULEGUR heybíll, Chevrolet árgerð 1930 eða '31.