Ótamin náttúruöfl BÓKMENNTIR Smásagnasafn KRÓKÓDÍLASTRÆTIÐ eftir Bruno Schulz. Hannes Sigfússon þýddi. Mál og menning, 1994. Prentun Oddi - 142 síður.

Ótamin náttúruöfl BÓKMENNTIR Smásagnasafn KRÓKÓDÍLASTRÆTIÐ eftir Bruno Schulz. Hannes Sigfússon þýddi. Mál og menning, 1994. Prentun Oddi - 142 síður. KRÓKÓDÍLASTRÆTIÐ eftir Pólverjann Bruno Schulz (1892­1942) er vissulega safn smásagna, en kannski má frekar tala um minningabrot eða frásagnir. Sömu persónurnar koma fram í sögunum og er þar faðirinn mest áberandi.

Sögurnar gerast allar í pólskum bæ. Þó má segja að hugarflugið sé víða umhverfi þeirra. Stundum er erfitt að greina milli hlutveruleika og ímyndaðs heims.

Helsta einkenni sagnanna er litríkur stíll. Mælska höfundarins er óvenjuleg. Val þýðanda hefur því tekist vel. Hannes Sigfússon gerir Schulz tilþrifamikinn á íslensku. Í eftirfarandi tilvitnun er hann ekki aðeins að lýsa sögumanni heldur líka sjálfum sér. Hann hefur dregið upp margbreytilega mynd af torgi að næturlagi:

"Ég verð að biðjast afsökunar á því ef ég í lýsingum mínum á gífurlegum manngrúanum og hinu almenna uppnámi hef tilhneigingu til að ýkja vegna óheppilegra áhrifa frá vissum koparstungum í hinni miklu bók um plágur og hörmungar mannkynsins. En þær móta hugmyndir okkar allra og kynda undir gríðarlegum ofsjónunum, enda bar ofsinn sem einkenndi allar þessar fjöldasamkomur því vitni að við höfðum fjarlægt botninn úr tunnu eilífra minninga, úr sjálfri þjóðsagnatunnuni, og brotist inn í forsögulega nótt ótaminna náttúruafla, sundurþykkra lögmála, og gátum ekki haldið flóðöldunni í skefjum."

Faðirinn í bókinni þjáist af ranghugmyndum. Hann er eins konar pólskur (eða gyðinglegur) Don Kíkóti. Í staðinn fyrir að berjast við vindmyllur ræðst hann til atlögu við efnisstrangana í búð sinni og allt sem hönd á festir þar. Í æði sínu er hann að hálfu í mannheimum, að hálfu í heimi geðveikinnar.

Það er aðferð Bruno Schulz að ýkja til að síðan opinbera raunveruleikann eða öfugt. Þetta gerir hann í sögu samnefndri bókinni og á fleiri stöðum. Eiginlegur söguþráður er honum ekki kappsmál heldur mörg brot sem geta staðið saman eða standa sér innan sögunnar. Þetta verður oftlega til þess að maður man betur andblæ sagnanna en um hvað þær fjalla eða segja frá.

Frásagnarmáti Bruno Schulz er mjög sérstakur og honum hefur ekki út í bláinn verið líkt við málara fantasíunnar.

Jóhann Hjálmarsson

Bruno Schulz