Nám Meðalsvefntími á skóladögum hjá stúlkum og drengjum samkvæmt rannsókninni er rúmar sex klukkustundir. Um helgar sofa unglingarnir hins vegar rúmlega klukkutíma lengur að jafnaði en gæði svefnsins eru lakari.
Nám Meðalsvefntími á skóladögum hjá stúlkum og drengjum samkvæmt rannsókninni er rúmar sex klukkustundir. Um helgar sofa unglingarnir hins vegar rúmlega klukkutíma lengur að jafnaði en gæði svefnsins eru lakari. — Morgunblaðið/Golli
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Nú þegar skólarnir hefja göngu sína eftir sumarið má ganga út frá því sem vísu að stór hluti ungmenna komi vansvefta í skólann.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Nú þegar skólarnir hefja göngu sína eftir sumarið má ganga út frá því sem vísu að stór hluti ungmenna komi vansvefta í skólann. Niðurstöður íslenskrar rannsóknar sem birt var fyrir skömmu í vísindatímaritinu Sleep medicine sýnir svo ekki er um að villast að meirihluti 15 til 16 ára unglinga sefur of lítið og fer alla daga seint í háttinn.

„Niðurstöðurnar eru mjög athyglisverðar en þær sýna að meðalsvefntími á skóladögum hjá bæði stúlkum og drengjum er rúmir sex klukkutímar,“ segir Erlingur S. Jóhannsson, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands og verkefnisstjóri rannsóknarverkefnisins „Heilsuhegðun ungra Íslendinga“. Umrædd rannsókn heyrir undir það verkefni og er vísindagreinin hluti af doktorsnámi Vöku Rögnvaldsdóttur, aðjúnkts í íþrótta- og heilsufræðum við HÍ.

Lakari svefngæði um helgar

Fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar að um helgar sofa bæði drengir og stúlkur rúmlega klukkutíma lengur en á virkum dögum eða um 80 mínútum lengur að jafnaði, en aftur á móti kemur í ljós að um helgar eru gæði svefnsins áberandi lakari en á virkum dögum hjá báðum kynjum.

Ráðlagt er á alþjóðavísu að unglingar þurfi að fá a.m.k. átta til tíu tíma svefn á hverri nóttu til að geta tekist á við verkefni dagsins. Þessar niðurstöður meðal ungmenna hér á landi leiða hins vegar í ljós að aðeins einn af hverjum fimm unglingum nær þessum ráðlagða svefni yfir alla vikuna.

Þegar svefnmynstur þátttakenda er skoðað vekur athygli hversu seint ungmenni fara að sofa og mun seinna en jafnaldrar þeirra í öðrum löndum skv. erlendum rannsóknum. Þetta á bæði við um kvöldin fyrir skóladaga, en þá fara þau að jafnaði að sofa kl. 00:22, og um helgar, en þá fara ungmenni á þessum aldri í háttinn kl. 01:42 þegar meðaltalið er reiknað.

67% ungmenna á þessum aldri fara í háttinn eftir miðnætti á virkum dögum skv. þessum niðurstöðum og um helgar fara 93% þeirra ekki í háttinn fyrr en eftir miðnætti. Drengir fara seinna að sofa en stúlkur en mesti munur á háttatíma kynjanna var á frídögum en þá fóru drengir að meðaltali að sofa kl. 01:58 og stúlkurnar kl. 01:31.

Yfir alla vikuna náði aðeins 22,1% ungmenna í rannsókninni ráðlögðum átta stunda hvíldartíma og á virkum dögum var hlutfall þeirra sem náðu ráðlögðum hvíldartíma aðeins

10,7% en mörg þeirra náðu hins vegar að rétta kúrsinn við um helgar en þá ná tæp 67% ungmenna að hvílast í ráðlagða átta tíma eða lengur.