Ferðamenn Samhliða stórauknum umsvifum í ferðaþjónustunni hefur ríkisskattstjóri hert mjög skatteftirlitið.
Ferðamenn Samhliða stórauknum umsvifum í ferðaþjónustunni hefur ríkisskattstjóri hert mjög skatteftirlitið. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Eftirlit á vegum ríkisskattstjóra á vinnustöðum og með heimsóknum í fyrirtæki hefur skilað ágætum árangri á árinu og það sem af er sumri.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Eftirlit á vegum ríkisskattstjóra á vinnustöðum og með heimsóknum í fyrirtæki hefur skilað ágætum árangri á árinu og það sem af er sumri. Samkvæmt upplýsingum Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisskattstjóra hefur embættið hert mjög skatteftirlit með aðilum sem falla undir ferðaþjónustu og tengda starfsemi. Hið sama á við um verktaka sem annast mannvirkjagerð.

„Velta í þessum atvinnugreinum hefur verið að aukast mikið frá fyrri árum sem er ein og sér sjálfstætt tilefni til að fjölga skoðunum. Ennfremur höfðu ábendingar borist um að ekki væri fylgt reglum um tekjuskráningu, grunur var um að starfsmenn væru á duldum launum og skil á vörslusköttum voru talin athugunarverð,“ segir í samantekt um skatteftirlitið.

1.654 vettvangsrannsóknir í ferðaþjónustunni á árinu

Eins og fram kom í fréttaumfjöllun hér í blaðinu í júní hefur vettvangsskoðunum fjölgað mikið á síðustu tveimur árum og nýjustu tölur sýna að vinnustaðaeftirlitið hefur enn færst í aukana á undanförnum mánuðum. Fjöldi heimsókna á vinnustaði á fyrstu sjö mánuðum ársins er kominn í 2.568 og þar af eru 1.654 vettvangsskoðanir hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu.

Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra er hlutfallsleg aukning skoðana mest á yfirstandandi ári og stefnir í að heildarfjöldi vettvangsskoðana á árinu 2017 fari yfir 4.000, sem er rösklega 16% aukning frá fyrra ári og tæplega þreföldun á heimsóknum frá árinu 2015.

Við heimsóknir í fyrirtæki er meðal annars kannað hvort launamenn eru á duldum launum, hvort um óskráða starfsemi er að ræða, hvort vanskil eru á staðgreiðslu og virðisaukaskatti og önnur frávik í rekstri sem ekki koma fram við hefðbundið skatteftirlit.

Gera þurfti athugasemdir hjá 37% þeirra sem skoðaðir voru

„Í ljós hefur komið að nokkuð hefur verið um að eitthvað vantaði upp á að fylgt væri lögum og öðrum reglum um skráningu. Samtals hafa starfsmenn ríkisskattstjóra gert athugasemdir við 37% af þeim aðilum sem skoðaðir hafa verið en meirihluti athugasemda snýr að formi sem oft er auðvelt að lagfæra. Lögð er áhersla á að þessir aðilar komi skilum sínum í lag og hafa fyrirtækin sætt endurteknum heimsóknum til að fylgja fyrirmælum eftir,“ segir í samantektinni um skatteftirlit ríkisskattstjóraembættisins.

Niðurstaðan er sú að þau fyrirtæki sem á yfirstandandi ára hafa þótt það athugunarverð að ástæða væri til að gera skrifleg fyrirmæli eru 227 að tölu. Í 53 tilvikum þurfti að endurtaka tilmælin og í 12 tilvikum hefur þurft að stöðva hlutaðeigandi atvinnurekstur um lengri eða skemmri tíma. Eru það nokkuð færri tilvik það sem af er þessu ári en hlutfallslega á árinu 2016.

41 lokun frá 2013

Frá árinu 2013 hafa fulltrúar ríkisskattstjóra þurft að grípa til þess ráðs að láta loka starfsstöð fyrirtækja í samtals 41 skipti þar sem viðkomandi hafa ekki orðið við tilmælum um úrbætur. Tilvikin voru flest á síðasta ári, eða alls 22, og lokanir hafa átt sér stað í tólf skipti það sem af er þessu ári eins og fyrr segir.