[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is „Ég held að þetta sé frábært umhverfi fyrir mig einmitt núna,“ segir Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið.

Fótbolti

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

„Ég held að þetta sé frábært umhverfi fyrir mig einmitt núna,“ segir Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið. Rétt áður en Evrópumótið í Hollandi hófst í júlí var greint frá því að hún væri gengin til liðs við sænska meistaraliðið Rosengård eftir tveggja og hálfs árs veru í herbúðum Eskilstuna þar í landi.

„Ég sá þetta sem skref fram á við fyrir mig og feril minn. Mér fannst ég vera komin á nokkurs konar endastöð hjá Eskilstuna og þurfti nýtt áreiti og umhverfi. Mér var boðið það hér hjá frábæru félagi sem skilar af sér endalaust af frábærum leikmönnum. Ég held að ég hefði séð eftir því allan feril minn að hafna þessu tækifæri,“ segir Glódís, en Rosengård, áður Malmö, er afar sigursælt og segir Glódís alla umgjörð afar góða.

„Já, og allt er í rauninni stærra en ég bjóst við. Þetta félag er búið að vera topplið í mörg ár og veit hvernig allt gengur fyrir sig, svo að allt hefur verið rosalega auðvelt fyrir mig síðan ég kom,“ segir Glódís og útskýrir að félagið haldi vel utan um hlutina og leikmenn vanhagi ekki um neitt.

Var hálfgerður njósnari fyrir fyrsta leik

Glódís fór beint í byrjunarliðið í fyrsta og eina leik Rosengård til þessa eftir EM – einmitt gegn Eskilstuna. Rosengård vann 2:0 og viðurkennir Glódís að það hafi verið svolítið skrítið að mæta sínu gamla liði svona fljótt eftir vistaskiptin.

„Ég er ekki oft óþægilega stressuð fyrir leiki en ég var það fyrir þennan leik, vanalega er það frekar fiðringur en stress en þarna var það öfugt. Mér leið í byrjun eins og ég væri mætt á æfingu hjá liðinu aftur, enda með sóknarlínu Eskilstuna á mér. Ég er mjög glöð að við unnum leikinn, það hefði verið mjög leiðinlegt að tapa. Ég skoraði mark sem var svo dæmt af, en ég fór að fagna og hugsaði svo að ég mætti ekki fagna. Þetta var mjög spes,“ segir Glódís, en hún kom sannarlega að góðum notum fyrir Rosengård fyrir leikinn.

„Ég fékk mikla ábyrgð fyrir þennan leik, að segja öllum hvernig Eskilstuna spilaði og var nánast eins og njósnari fyrir félagið. Þjálfarinn grínaðist einmitt með að hann hefði sérstaklega fengið mig fyrir þennan leik,“ segir Glódís og hlær.

Auk Glódísar samdi Rosengård við annan varnarmann í sumar, dönsku landsliðskonuna Simone Sörensen, og segir Glódís að hún þurfi að vera á tánum að halda sæti sínu í liðinu. Lið Rosengård er gríðarlega vel skipað og á hún von á því að geta bætt sig mikið á nýjum slóðum enda stjörnuleikmenn og landsliðskonur í fyrirrúmi hjá liðinu.

Ekki enn komin yfir vonbrigðin frá EM

Glódís er aðeins 22 ára gömul en hefur verið algjör burðarás í íslenska landsliðinu síðustu ár og á þegar að baki 57 landsleiki. Hún spilaði alla leikina á EM í sumar þar sem Ísland tapaði öllum leikjum sínum og segir hún vonbrigðin enn mikil.

„Ég held ég sé ekki enn komin yfir þau, ekki almennilega. Við fengum vikufrí áður en ég þurfti að mæta á æfingu og hún fór í hálfgerðan pirring, því maður var svo svekktur út í sjálfan sig. Mér finnst við vera með frábært lið, en við náðum ekki að sýna það á þessu móti. Það var erfiðast að sætta sig við það, en á móti lærðum við heilan helling og maður er að átta sig á því núna. Þó að við höfum ekki unnið sigra á vellinum unnum við svo ótrúlega mikið utan vallar. Til framtíðar litið verðum við þakklátar fyrir það.“