Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Um helgina verður opnuð búðin sem Íslendingar hafa beðið óþreyjufullir eftir, tískuvöruverslunin H&M, það er að segja allir aðrir en samkeppnisaðilar hennar á markaðnum, sem bíða kannski frekar á milli vonar og ótta, þótt þeir beri sig flestir vel. Áhrifin sem Costco hefur haft á smásölumarkaðinn á þeim stutta tíma sem verslunin hefur verið opin hér á landi sýna líka að það er full ástæða til að óttast.

Þeir sem verslað hafa í H&M erlendis, eins og undirritaður hefur gert ótal sinnum, vita að búðirnar eru af ýmsum stærðum og gerðum. Búðirnar í Smáralind og Kringlunni verða ef að líkum lætur af stærri gerðinni, og áhrifin af þeim á samkeppnisaðilana á markaðnum enn meiri fyrir vikið.

Fyrstu auglýsingar fyrirtækisins hér á landi hafa farið fyrir brjóstið á mörgum, enda hikar fyrirtækið ekki við að stíga á tærnar á íslenskum málverndunarsinnum með því að birta flennistóra umhverfisgrafík á ensku. Í fyrstu velti ég því fyrir mér hvort þetta væri prentvilla hjá markaðsdeild félagsins, en auðvitað er þarna verið að nota alþjóðlegt tungumál, svo hægt sé að ná athygli ekki bara mörlandans, heldur einnig hinna fjölmörgu ferðamanna sem allir elska H&M eins og við Íslendingar.

Sumir hafa sagt að H&M hafi hófleg áhrif á markaðinn, sé einkum komið til að sinna íslenskum viðskiptavinum sínum. En ég spái því að áhrifin verði meiri.