Fengi Sigurjón að ráða myndi hann lækka skatta til að auka samkeppnishæfni verslunar á Íslandi.
Fengi Sigurjón að ráða myndi hann lækka skatta til að auka samkeppnishæfni verslunar á Íslandi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Árið hefur verið viðburðaríkt hjá Sigurjóni Erni Þórssyni enda á Kringlan stórafmæli. Hann hefur stýrt verslunarmiðstöðinni í rösklega áratug og lifað og hrærst í verslunarrekstri frá því snemma á 9. áratugnum.

Árið hefur verið viðburðaríkt hjá Sigurjóni Erni Þórssyni enda á Kringlan stórafmæli. Hann hefur stýrt verslunarmiðstöðinni í rösklega áratug og lifað og hrærst í verslunarrekstri frá því snemma á 9. áratugnum.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Miklar breytingar og umbætur eiga sér stað í Kringlunni þessa mánuðina. Má þar nefna að Hagkaup er að taka miklum breytingum, H&M að detta í hús og Toys'R'Us að opna stórverslun. Kringlan fagnar einnig þrjátíu ára afmæli sínu um þessar mundir sem haldið verður upp á með pomp og prakt í október.

Hver var síðasta ráðstefnan sem þú sóttir?

Trúlega var það ráðstefna um vefverslun sem haldin var í Hörpu fyrr á árinu. Efni hennar var áhugavert og vakti fleiri spurningar en svör.

Hvaða hugsuðir hafa haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Áhrifin koma víða að og erfitt að benda á eitthvað eitt í þeim efnum. Ef ég ætti að nefna eitthvað væri það helst einkennileg blanda af áhrifum, athöfnum og verkum framsýnna manna á borð við Thor Jensen, Jónas frá Hriflu og Nelson Mandela sem veitt hafa mér innblástur og ég reynt að nýta mér í starfi og leik.

Hver myndi leika þig í kvikmynd um lif þitt og afrek?

Ef vinir mínir yrðu spurðir væru þeir fljótir að nefna til sögunnar grínistann góða Ricky Gervais sökum þess að sumir telja hann líkjast mér. Ég yrði hins vegar ánægðari með að menn á borð við George Clooney tækju það að sér en það helgast trúlega af einhverjum ranghugmyndum. Báðir erum við þó silfurrefir.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Almennt held ég henni við með almennum lestri. En er kemur að starfinu þá viðheld ég henni einna helst við með lestri fagtímarita sem tengjast starfinu auk þátttöku í alþjóðlegu starfi verslunarmiðstöðva

Hugsarðu vel um líkamann?

Það má eflaust gera betur í þeim efnum en ég stunda hins vegar reglulega hreyfingu. Ganga með Bósa minn, sem er sjö ára labradorhundur, er fasti í tilverunni auk þess sem hlaup og hjólreiðar koma reglulega við sögu.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Trúlega yrði lögfræði fyrir valinu þar sem sú menntun er mjög praktísk og á sér fjölmarga snertifleti sem nýtast vel í ólíkum störfum.

Hvert væri draumastarfið

ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Ég hef alltaf haft áhuga á mannúðarstarfi og því held ég að starf t.a.m. á vegum Þróunarsamvinnustofnunar eða viðlíka aðila væri vettvangur sem áhugavert væri að takast á við. Ég kynntist því lítillega þegar ég gegndi starfi aðstoðarmanns ráðherra á sínum tíma og það heillaði mig mikið.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Ég er svo lánsamur að starfa í orkumiklu umhverfi. Í Kringlunni fer fram fjölbreytt starfsemi með ólíkar áherslur. Verkefnin eru því fjölbreytt. Samstarf við rekstraraðila, fagaðila þeim tengda og öll þau samskipti sem starfsemi í svo lifandi húsi sem Kringlan er eru í sjálfu sér mjög gefandi.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?

Lög er varða aukið frelsi í verslun og viðskiptum væru þar ofarlega á blaði ásamt breytingum á lögum um virðisaukaskatt sem leiða myndi til samkeppnishæfari verslunar. Einnig held ég að ellilífeyrisþegar eigi skilið að lög um þá verði endurskoðuð með það að markmiði að draga úr tekjutengingum og stuðla að áhyggjulausara ævikvöldi.