Hótelið Nýbyggingin er risin á lóð Landspítala og á að geta hafið starfsemi í byrjun næsta árs. Ráðuneytið vinnur að því að undirbúa rekstur hótelsins.
Hótelið Nýbyggingin er risin á lóð Landspítala og á að geta hafið starfsemi í byrjun næsta árs. Ráðuneytið vinnur að því að undirbúa rekstur hótelsins. — Teikning/Nýr Landspítali
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Nú styttist í að nýtt sjúkrahótel/sjúklingahótel við Landspítala verði tilbúið. Fram kom í viðtali við Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóra Nýs Landspítala ohf.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Nú styttist í að nýtt sjúkrahótel/sjúklingahótel við Landspítala verði tilbúið. Fram kom í viðtali við Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóra Nýs Landspítala ohf., hér í blaðinu að húsið yrði afhent til prófunar og úttektar í október næstkomandi. Stefnt er að því að hótelið verði tilbúið til notkunar í byrjun næsta árs.

„Á vegum velferðarráðuneytis er unnið að undirbúningi vegna búnaðar, reksturs og þjónustu sjúkrahótels og endanlegt fyrirkomulag verður ljóst á haustdögum,“ segir í svari Margrétar Erlendsdóttur, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins, við fyrirspurn Morgunblaðsins. Í svarinu kemur einnig fram að ekki sé búið að ráða „hótelstjóra“ né annað starfsfólk.

Í desember 2015 skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp sem falið var að skoða mismunandi rekstrarform sjúkrahótelsins og leiðir til að bæta þjónustu við dvalargesti.

Í bréfinu kom fram að leggja ætti áherslu á að skilgreina kjarnaverkefni sjúkrahótelsins og þjónustu við sjúklinga. Einnig skyldi leita fyrirmynda til annarra norrænna þjóða þar sem mikil reynsla er af rekstri sjúkrahótela. Hópurinn skilaði skýrslu í júlí 2016. Formaður hans var Þorkell Sigurlaugsson.

Tvenns konar starfsemi

Ein af niðurstöðum hópsins var sú að hið nýja „hótel“ verði fremur sjúklingahótel en sjúkrahótel ef horft sé til þess hvers konar dvalargestir verði á hótelinu.

Starfshópurinn leggur til tvenns konar gististarfsemi.

Annars vegar fyrir þá sem ekki eru innritaðir á Landspítala en þurfa heilsu sinnar vegna að dvelja fjarri heimili sínu vegna rannsókna og/eða meðferðar. Hins vegar verði hótelið fyrir sjúklinga sem eru innritaðir á Landspítala en þurfa ekki að liggja á dýrum legudeildum spítalans. Þeir geti verið að jafna sig eftir aðgerð, verið í virkri meðferð eða sótt dag- og göngudeildarþjónustu en jafnframt þurft eftirlit og stuðning. Sjúklingar eiga að vera sjálfbjarga við athafnir daglegs lífs.

Að mati starfshópsins koma þrjár leiðir helst til greina varðandi reksturinn:

• Landspítali reki hótelið samkvæmt reglum sem velferðarráðuneytið setur og samkvæmt nánari reglum sem gilda um rekstur heilbrigðisþjónustu á hótelinu.

• Landspítali taki að sér tiltekna starfsemi hótelsins, en ákveðnir rekstrarþættir verði boðnir út í samræmi við lög um opinber innkaup. Landspítala verði falið að sjá um alla heilbrigðisþjónustu á hótelinu samkvæmt nánari reglum.

• Rekstur og heilbrigðisþjónusta hótelsins verði boðin út í samræmi við lög um opinber innkaup. Beitt verði forvali sem undanfara útboðs til að tryggja að hæfis- og hæfnisskilyrði séu uppfyllt samkvæmt nánari reglum.

Skiptar skoðanir voru innan starfshópsins um hvaða rekstrarform væri heppilegast. Annars vegar að best færi á því að rekstur hótelsins væri hjá Landspítala þar sem starfsemin sé mjög nátengd LSH og hins vegar að bjóða ætti reksturinn út að hluta eða að öllu leyti.

Í skriflegu svari Unnsteins Jóhannssonar, aðstoðarmanns heilbrigðisráðherra, kemur fram að ráðuneytið hafi haft til hliðsjónar ofangreinda skýrslu starfshópsins frá júlí 2016. Meðal annars séu kannaðir kostir og gallar útboðs. Útboð hefur ekki farið fram.