Ríkisstjórnin mælist nú með 27% fylgi og hefur ekki mælst lægri. Hún hefur raunar aldrei notið mikils stuðnings, 38% þegar mest lét, í mælingu MMR í febrúar síðastliðnum.

Ríkisstjórnin mælist nú með 27% fylgi og hefur ekki mælst lægri. Hún hefur raunar aldrei notið mikils stuðnings, 38% þegar mest lét, í mælingu MMR í febrúar síðastliðnum. Stuðningurinn er mun minni en hann var við síðustu ríkisstjórn þegar sú ákvað af tilefnislausu að bregða búi.

En stuðningurinn við ríkisstjórnina er þó ekki orðinn minni en hann var minnstur við ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu, sem fór gegn þjóðinni í mikilvægum málum og barðist gegn hagsmunum hennar hvenær sem færi gafst.

En hvernig má það vera að stuðningurinn við núverandi ríkisstjórn, sem nýtur góðæris, skuli vera á svipuðu róli og stuðningurinn við ríkisstjórn sem tókst á við hallæri og barðist gegn hagsmunum þjóðarinnar?

Getur verið að óvinsældirnar megi meðal annars rekja til þess að einn stjórnarflokkanna, Viðreisn, hefur sagt tveimur undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, og gjaldmiðlinum að auki, stríð á hendur og efnt þannig til átaka innanlands líkt og stjórn Steingríms og Jóhönnu gerði?

Getur verið að óvinsældirnar megi meðal annars rekja til þess að almenningur áttar sig ekki á hvert stjórnin er að fara eða með hvaða hætti hún hefur hugsað sér að hann njóti góðærisins, til dæmis í gegnum skattalækkanir?

Getur með öðrum orðum verið að stjórnin verði að líta í eigin barm?