— AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um þetta leyti árs í fyrra var A.P. Møller-Maersk á stjórnlausu reki í ólgusjó. Verð hlutabréfa félagsins hafði lækkað um helming frá árinu áður og hagnaðartölurnar voru á hraðri niðurleið.

Um þetta leyti árs í fyrra var A.P. Møller-Maersk á stjórnlausu reki í ólgusjó. Verð hlutabréfa félagsins hafði lækkað um helming frá árinu áður og hagnaðartölurnar voru á hraðri niðurleið. Karlarnir í brúnni gerðu sér grein fyrir að létta þyrfti fleyið og ákváðu að fleygja orkusviði fyrirtækisins fyrir borð, svo Maersk gæti einbeitt sér að farskipaútgerð og fraktflutningum. Þeir stóðu við ákvörðunina og liggur fyrir sala á Maersk Oil til Total.

Það eru góðar fréttir, sem gerir vélaraflið einfaldara sem drífur áfram hagnaðinn. Sú kjölfesta sem næst þarf að varpa fyrir borðstokkinn er borpalladeildin, sem hefur átt í erfiðleikum.

Total, sem er skráð í kauphöllina í París, greiddi jafnvirði 7,45 milljarða dala fyrir Maersk Oil, þar af 4,95 milljarða með hlutabréfum og 2,5 milljarða með yfirtöku skulda frá Mearsk. Í fyrra virtist það djörf ákvörðun að losa eignir í orkugeiranum.

Fyrirtækin sem heyra undir Maersk Oil, sem m.a. fást við olíuframleiðslu, olíuborun og olíuflutninga, mynduðu megnið af rekstrarhagnaði Maersk fyrir afskriftir og fjármagnsliði. En Dönunum tókst að fá nokkuð gott verð fyrir. Síðustu þrjár olíulindirnar sem seldar hafa verið í Norðursjó, en Chrysaor, Dong og Engie áttu aðild að þeim viðskiptum, voru verðlagðar á um 24.000 dali fyrir daglega framleiðslu á olíufati. Total greiddi aftur á móti 46.000 dali.

Að því sögðu, þá fylgir með í eignasafninu hlutur í hinu risastóra Johan Sverdrup-olíuleitarsvæði undan ströndum Noregs, sem Statoil stýrir. Það þýðir að Total er að komast yfir svæði með sannreyndum og góðum olíu- og gaslindum, og munu þær falla vel að þeim olíu- og gaslindum sem Total á fyrir. Viðskiptin munu einungis lítillega þynna hlutafjáreign hluthafa Total og ættu að skapa nægilegt fjárstreymi til þess að mæta þeim milljarði dala sem Maersk hefði fjárfest í Johan Sverdrup. Meira en helmingurinn ætti að koma út á sléttu ef olíufatið er um 30 dalir, að mati BMO. Þá mun það ekki hafa veruleg áhrif á sterkan efnahagsreiknig Total að taka yfir skuldirnar.

Næst þarf að beina sjónum að öðrum hluta eignasafns Maersk í orkugeiranum. Maersk Drilling, sem móðurfyrirtækið metur á 6,7 milljarða dala, á 23 borpalla. Það kostaði meira en 500 milljónir dala að smíða suma borpallana, en í dag eru þeir mun minna virði. Átta borpallar standa ónotaðir. Daggjald fyrir borpalla er ekki hátt og á svipuðu reiki og árið 2004.

Það verður erfiðara að fá gott verð fyrir þessa rekstrareiningu en fyrir Maersk Oil. Móðurfélagið þarf engu að síður að selja. Í kjölfarið, þegar búið verður að létta skipið, munu fjárfestar eiga auðveldara með að sjá hvert ferðinni er heitið.