Kennarahúsið Samningur framhaldskólakennara losnar í haust.
Kennarahúsið Samningur framhaldskólakennara losnar í haust. — Morgunblaðið/Sverrir
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Félag framhaldsskólakennara er meðal þeirra stéttarfélaga sem munu ganga til samninga við ríkið í haust, en félagið hefur verið með lausa kjarasamninga síðan í október 2016.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Félag framhaldsskólakennara er meðal þeirra stéttarfélaga sem munu ganga til samninga við ríkið í haust, en félagið hefur verið með lausa kjarasamninga síðan í október 2016. Framhaldsskólakennarar skrifuðu hins vegar undir friðarskyldu fram til 31. október 2017 gegn ákveðnum launabreytingum.

Morgunblaðið fjallaði um það í vikunni að heildarlaun kennara samkvæmt launatöflu á vef stjórnarráðsins hefðu hækkað um 34% frá árinu 2014 og að frekari launahækkanir gætu haft efnahagslegar afleiðingar í för með sér. Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir að markmið félagsins sé að sækjast eftir launajöfnuði, en til þess þurfi launahækkanir á opinberum markaði að vera umfram það sem er á almennum markaði.

Spurð hvort frekari launahækkanir geti haft slæmar efnahagslegar afleiðingar segir Guðríður tölurnar sýna hversu slök launastaða kennara hafi verið á síðustu árum og að frekari hækkanir þurfi ekki að skila sér í þensluáhrifum. „Það að framhaldsskólakennarar hjá ríkinu hafi hækkað um 34% frá 2014 segir bara hversu arfaslök launastaða framhaldsskólakennara var. Ef horft er á sama tímabil hefur BHM [Bandalag háskólamanna] hækkað um 20% en framhaldsskólakennarar hafa ekki náð BHM í launum,“ segir Guðríður og bætir við að opinberir starfsmenn eiga ekki að eiga frumkvæðið að því að laga kjarasamninga á vinnumarkaði.

„Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, þurfa núna að hækka laun síns starfsfólks þannig að þau séu samkeppnishæf um vinnuafl. Það þarf ekki að skila sér í þensluáhrifum eða verðbólgu ef það er gert af skynsemi.“

Guðríður segir einnig að ekki verði hægt að ná launajöfnuði í einni samningslotu en nauðsynlegt sé að byrja vegferðina í haust. Framhaldsskólakennarar munu funda áður en endanleg kröfugerð verður lögð fram en hún vonar að félagið fái fund á næstu dögum með samninganefnd ríkisins til að ákveða framhaldið.

Óttast kennaraskort meira

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir félagið vera byrjað að vinna að formlegri viðræðuáætlun við Samband sveitarfélaganna, en kjarasamningur grunnskólakennara losnar í lok nóvember á þessu ári. Spurður hvort hann óttist að frekari launahækkanir á opinberum markaði geti valdið verðbólgu segir hann félagið óttast yfirvofandi kennaraskort meira.

„Okkar ótti liggur í því að fram undan er verulegur kennaraskortur. Hvað ætla menn að gera til að koma í veg fyrir kennaraskort? Það liggur fyrir að ef maður ætlar að koma í veg fyrir kennaraskort verður að laga bæði vinnuaðstæður og skoða launaþáttinn.“

Ólafur segir að Ríkisendurskoðun hafi gert alvarlegar athugasemdir við ríkið og sveitarfélög vegna þess þau hafi ekki brugðist við kennaraskortinum og nú þurfi eitthvað að breytast.