Loriana Margret Livie Bounatian-Benatov Argoutinsky-Dolgorouky fæddist í Neuilly sur Seine 5. júlí 1986. Hún lést 21. ágúst 2016.

Foreldrar hennar eru Lilja Skaftadóttir Hjartar Benatov og Leonardo Bounatian-Benatov Argoutinsky-Dolgorouky myndhöggvari. Systir hennar var Lívey Eiríka Lill Benatov, f. 18.7. 1996, d. 7.6. 2014.

Loriana var jarðsett í Chevreuse 26. ágúst 2016.

Elsku Loriana mín. Hinn 21. ágúst 2016 lést þú eftir harða baráttu við krabbamein í heila. Þú varst elsta barnabarnið mitt. Allar okkar stundir saman voru yndislegar og margs er að minnast. Þú komst oft til Íslands og varst hjá mér og tókst 10. bekk hér í Engjaskóla. Síðan fórstu í Menntaskólann við Hamrahlíð, en hugur þinn leitaði heim og þú fórst í skóla þar. Ferðalag okkar til Ísafjarðar að heimsækja Valdísi frænku og fjölskyldu er mér minnisstætt því þú hlustaðir á músík í heyrnartólunum þínum alla leiðina. Tónlist átti hug þinn allan og þú samdir marga frábæra texta. Þú tókst hér upp plötuna þína The Elephant og gerðir líka myndband sem má finna á Youtube. Öll móðurfjölskyldan þín, 19 manns, kom til ykkar á jólunum 2013 og er það ógleymanlegur tími. Um sumarið hinn 7. júní 2014 dó elsku Lívey systir þín af slysförum og hefur sú sorg og andlát þitt verið erfitt síðan.

Elsku dóttir mín og tengdasonur hafa tekist á við sorgina og við trúum því að nú séuð þið systur saman.

Þín amma,

Margrét Eiríksdóttir.

Loriana er dáin, fyrir ári fékk ég símtal sem byrjaði svona. Elsku besta fallega frænka mín hafði tapað baráttunni við krabbamein sem hún hafði barist við í nokkra mánuði. Í baráttunni sýndi hún manni hvað hugrekki er og aldrei var húmorinn langt undan og er mér minnisstætt þegar ég hitti hana nokkrum dögum áður en hún kvaddi þennan heim að þá var hún að semja brandara um sjúkdóminn og langaði hana að vera með uppistand, það var mikið hlegið.

Þegar ég sit og hugsa til hennar kemur tónlist upp í hugann, Loriana var með fallega rödd og samdi líka frábæra tónlist sem hún söng og gaf út. Ég á margar góðar minningar um Loriönu og mér finnst yndislegt að þegar ég loka augunum og hugsa um hana kemur hún alltaf hlæjandi upp í hugann, uppfull af hugmyndum að einhverju sniðugu sem hún var að hanna eða fann uppskrift og vildi prófa að elda eða baka.

Ég sakna þín alltaf og ég veit að þú ert með henni Liveyju systur þinni. Ég get ekki skilið hvers vegna þið hafið verið kallaðar á brott en vegir lífsins eru órannsakanlegir. Elska þig ávallt og geymi ykkur systur í hjarta mínu.

Margt er það og margt er það

sem minningarnar vekur,

og þær eru það eina

sem enginn frá mér tekur.

(Davíð Stefánsson)

Elsku Lilja og Leonardo, megi Guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum, hugur okkar er hjá ykkur.

Eiríkur Pétur og fjölskylda.

Elsku Loriana, mín kæra vinkona. Ég trúi því ekki enn að þú sért farin. Þú varst nýbúin að vera hjá okkur í heimsókn þar sem við hlógum endalaust, spjölluðum um allt milli himins og jarðar og þú varst svo full af gleði og lífi. Og eins og hendi væri veifað slokknaði ljósið. Ég mun alltaf varðveita allar þær minningar sem við sköpuðum saman, öll þau skipti sem við hlógum okkur máttlaus, öll fyndnu skilaboðin sem við sendum hvort öðru ef við sáum eitthvað fyndið á netinu, öll skiptin sem við spjölluðum saman um allt og ekkert, allar draugasögurnar sem þú sagðir mér. Ég þekkti þig aðeins í nokkur ár en við náðum svo sannarlega vel saman og muntu alltaf eiga stað í hjarta mínu og huga. Einn daginn munum við hittast aftur og getum haldið áfram að hlæja saman. Hvíldu í friði, elsku vinkona, þín er sárt saknað.

Sindri Vestfjörð.

Elsku Loriana mín, ég trúi því ekki að það sé komið ár frá því að þú kvaddir þetta jarðlíf. Ég hef verið í algerri afneitun um það að þú sért farin frá okkur og komir ekki aftur. Ég sakna þín svo mikið og allra okkar stunda sem við áttum og ekki voru þær fáar. Þú varst svo full af lífi og gleði sem smitaði alla sem voru nálægt þér. Þegar Livey systir þín lést tveimur áum áður hrundi heimur okkar allra. Það var eitt það versta áfall sem komið hafði upp hjá fjölskyldunni. Fyrir þig, mömmu þína og pabba var það svo mikið áfall að ég var viss um að það væri ekki hægt að leggja meira á ykkur. En það var ekki svo því að þú greindist með krabbamein rúmu ári síðar. Það var svo mikið áfall að það vildi enginn trúa öðru en að þú myndir sigrast á þessum illvíga sjúkdómi. Við töluðum oft um þetta bæði í síma og þegar ég kom til þín eða þú til Íslands. Ég var viss um að almættið, hvað sem það er, tæki ekki báðar dætur systur minnar og þú, hetjan mín, myndir sigrast á þessu. En það var ekki svo því að systir mín missti báðar dætur sínar á tveimur árum og situr eftir án þess að hafa ykkur, elskurnar sínar. Þegar ég kom út til þín í síðasta sinn fékk ég að sofa hjá þér á sjúkrahúsinu og við fengum okkar síðustu stund saman sem var ómetanleg. Ég spilaði fyrir þig nokkur lög sem voru nýkomin út og þú elskaðir að hlusta á, eins og þú elskaðir alltaf að hlusta á góða tónlist. Ég man líka eftir því þegar ég var með þig ein þegar þú varst pínulítil og ég ólétt að Eiríki. Mamma þín þurfti að skreppa frá í smástund en tafðist í langan tíma af óviðráðanlegum ástæðum. Þú varst orðin svöng og við vorum í bílnum að bíða eftir mömmu þinni. Ég var ekki með neitt með mér en sé sjoppu við götuna sem við vorum í. Ég hoppa með þig út, og þú varst alveg á orginu, og inn í sjoppuna. Þegar ég er komin með þig inn fatta ég að ég er ekki með veskið með mér en með smá aur í vasanum sem dugði fyrir síríuslengju og kókómjólk sem ég keypti. Við fórum síðan út í bíl og ég gaf þér þetta og þú varst eins og sólarljós í framan þegar þú borðaðir þetta og drakkst kókómjólkina. Mamma þín kemur svo loksins og spyr hvernig okkur hafi gengið af því að hún tafðist svona og ég sagði henni það. Hún varð alveg brjáluð út í mig af því þú hefðir bara fengið lífrænt ræktað grænmeti og mat sem hæfði aldri ungbarna en ekki neitt með sykri. Við hlógum oft að þessu og þú sagðir að ég hefði komið þér á bragðið með að borða gott súkkulaði og kókómjólk. Það fyrsta sem þú gerðir alltaf þegar þú komst til Íslands var að fá þér súkkulaði og kókómjólk. Þegar þú varðst eldri sagðirðu alltaf að ég væri mamma þín á Íslandi og ég var svo lánsöm að fá að vera svona tengd þér, elskan mín. Það sem við töluðum oft um áður en þú lést veit ég að þú segir mér síðar frá. Ég sakna þín svo mikið, elsku stelpan mín, að það eru ekki til nein orð yfir það.

Ég kveð þig núna þó svo að þú lifir alltaf með mér.

Þín frænka að eilífu.

mbl.is/minningar

Sigurey Valdís Eiríksdóttir.

Elsku Loriana, nú er komið ár frá því að þú fórst frá okkur alltof snemma. Ég hugsa oft til þín og er svo þakklát fyrir það að hafa fengið að hafa þig hjá mér og okkur í fyrra. Þú komst til okkar yfir sumarið og þú blómstraðir, ég hafði ekki séð svona einlæga gleði frá þér lengi og mér fannst það yndislegt. Þessi minning fyllir hjartað núna þegar þú ert farin.

Ég man hvað ég leit mikið upp til þín enda margt líkt með okkur og held ég mikið upp á það að syngja, vera listræn og næm fyrir okkur báðar. Þú ert í góðum höndum hjá systur þinni og bróður og veit ég að þau tóku á móti þér opnum örmum. Elsku Loriana, eitt er það sem gleymist aldrei, það er minning þín.

Rósey Ósk Stefánsdóttir.