Guðrún Anna Sigurjónsdóttir var fædd að Geirastöðum í Þingi í Austur-Húnavatnssýslu 21. janúar 1932. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 10. ágúst 2017.

Foreldrar Önnu voru Sigrún Kristbjörg Jakobsdóttir, f. 7. júlí 1902, d. 1937, og Sigurjón Jónasson, f. 20. júlí 1907, d. 1969.

Systkini Önnu sammæðra voru Jónas Jóhannsson, f. 1924, María Jóhannsdóttir, f. 1925, Guðrún Jakobína Jóhannsdóttir, f. 1927, og Jóhann Haukur Jóhannsson, f. 1929, og eru þau öll látin.

Systkini hennar samfeðra voru Guðrún Sigurjónsdóttir, f. 1937, d. 2004, Jónas Sigurjónsson, f. 1945, og Hávarður Sigurjónsson, fæddur 1948.

Fósturforeldrar Önnu voru Guðrún Þorkelsdóttir, f. 22. nóvember 1886, d. 1973 og Jónas Illugason, f. 12. júní 1865, d. 1954, en Jónas var fósturfaðir Guðrúnar. Guðrún giftist síðar Jóni Ólafi Benónýssyni, f. 12. febrúar 1893, d. 1986. Þau bjuggu að Fornastöðum á Blönduósi þar sem Anna ólst upp en fluttu síðar til Reykjavíkur.

Árið 1951 giftist Anna Þorgeiri Sigurgeirssyni, f. 20. ágúst 1928, d. 2015. Þau bjuggu á Blönduósi til ársins 1956 en fluttu þá til Reykjavíkur.

Þau skildu árið 1962.

Börn þeirra eru:

1) Torfhildur Sigrún, f. 29. apríl 1951. Maki Leifur Brynjólfsson. Synir hennar eru a) Logi Geir Harðarson, f. 18. júlí 1972 kvæntur Selmu Sigurðardóttur Malmquist. Sonur þeirra er Marinó Breki, f. 2011. Dóttir Selmu er Ólöf Maren, f. 2002. Börn Loga Geirs og Maríu Albínu Tryggvadóttur eru Tryggvi Þór, f. 1996, Anna Lind, f. 2001, og Hildur Helga, f. 2003. b) Bergþór Leifsson, f. 22. október 1977, kvæntur Sigrúnu Ósk L. Gunnarsdóttur og eru þeirra Írena Þula, f. 2000, Ísak Elí, f. 2001, og Mikael Leó, f. 2008.

2) Jónas Þorgeirsson, f. 26. október 1952. Maki Harpa Högnadóttir. Dóttir hans er a) Jórunn Lilja Jónasdóttir, f. 27. júlí 1976, gift Helga Sævari Hreinssyni og eiga þau soninn Ólaf Atla, f. 2000. Sonur Jónasar og Hörpu er b) Andri Geir Jónasson, f. 10. maí 1992.

Anna gekk í Kvennaskólann á Blönduósi veturinn 1949-1950.

Í Reykjavík vann hún fyrst hlutastarf við Pöntunarfélagið Græði og síðan hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík frá ágúst 1959 til starfsloka, eða í 40 ár.

Anna var félagi í Húnvetningafélaginu í Reykjavík. Einnig varði hún tíma sínum í að sinna eldra fólki, bæði skyldmennum og öðru samferðafólki.

Síðasta árið dvaldi Anna á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri.

Útför Önnu fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 24. ágúst 2017, klukkan 13.

Þá er þessu lífi lokið, elsku mamma mín. Þú varst fallegasta og besta mamma í heimi. Þú hugsaðir vel um okkur systkinin þótt þú værir ein með okkur frá því við vorum átta og níu ára.

Okkur skorti ekkert og þrátt fyrir mikla vinnu hafðir þú alltaf tíma fyrir okkur og aðra. Hélst heimili með fósturforeldrum, sinntir skyldmennum og vandalausum. Þú sagðist fá það endurgreitt síðar og þú fékkst það líka endurgreitt með hjálpsemi frá vinum og fólki sem var þér nálægt.

Við systkinin fæddumst í Pálmalundi á Blönduósi þar sem fjölskyldan bjó með föðurömmu okkar og manni hennar.

Þrátt fyrir skilnað ykkar pabba varst þú alltaf eins og eitt af hennar börnum. Þið pabbi voruð líka vinir allt til enda.

Þú varst frábær kokkur og alltaf voru pönnukökur í boði þegar komið var í heimsókn.

Þú varst mjög félagslynd og skemmtileg kona og hafðir gaman af að syngja og dansa. Fólk laðaðist að þér og þú eignaðist marga góða vini, sem þú ferðaðist með bæði innanlands og utan.

Þú fórst með okkur fjölskyldunni í nokkrar ferðir til útlanda.

Upp úr stóð áreiðanlega ferðin sem við fórum ellefu saman til Danmerkur árið 2005.

Þú vannst hjá Mjólkursamsölunni í 40 ár, allan þinn starfsferil, og þar áttir þú góða félaga og vini sem margir hverjir höfðu samband við þig allt til enda.

Eftir að þú hættir vinnu við MS fórstu með koníak til bílstjóranna í lok vinnudags á gamlársdag og skálaðir við þá í tilefni ársloka. Þú hafðir líka gaman af að fara með hattaklúbbi MS á kaffihús og skemmta þér með fyrrverandi vinnufélögum.

Um fimmtugt eignaðist þú vin sem þér þótti mjög vænt um. Þegar hann lést eftir stutta samveru fannst mér fyrst sjá á þér. Þegar þú fórst í augnaðgerð sem misheppnaðist svo þú misstir sjón á betra auga þínu fór að halla undan fæti. Þú gast ekki lengur keyrt bílinn en hann var það sem veitti þér frelsi enda keyrðir þú bæði í bænum og út á land. Ég var mjög reið og er enn fyrir þína hönd hvernig tekið var á þessum mistökum og þau ekki viðurkennd.

Ekki var heldur mikla hjálp að fá með hjálpargögn fyrir þig, sem er illskiljanlegt.

Helst hefðir þú viljað vera heima hjá þér til hinsta dags en það var því miður ekki hægt, þar sem þú þurftir mikla hjálp og orðin alblind. Við reyndum þó að stytta þér stundir með heimsóknum og Guðrún frá Lundi stytti þér stundir á milli. Síðustu árin voru þér erfið en húmorinn var ekki langt undan þrátt fyrir það. Vonandi ertu komin á betri stað þar sem þér líður vel og getur sungið og dansað á ný.

Þessa bæn Gísla á Uppsölum var skrifuð inn í kompu þína.

Ljúfi drottinn lýstu mér

svo lífsins veg ég finni

Láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

Ég vil þakka Ernu og Ágústi sem bjuggu í sama húsi og mamma fyrir allt sem þau gerðu fyrir hana. Gunnhildi fyrir vináttuna, heimsóknir og bíltúra.

Þá þakka ég öllum sem önnuðust mömmu í Kópavogi og á Víðihlíð Akureyri fyrir umhyggjuna. Þakkir til fjölskyldu minnar og vina mömmu sem höfðu samband og heimsóttu hana.

Hvíl í friði, elsku mamma.

Þín dóttir

Hildur.