Ástríður Hjartardóttir fæddist í Auðsholtshjáleigu í Ölfusi 25. október 1932. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 9. ágúst 2017.

Foreldrar hennar voru hjónin Hjörtur Sigurðsson, f. 4. janúar 1898, d. 19. júní 1981, og Jóhanna Ásta Hannesdóttir, f. 7. júní 1898, d. 4. júlí 1966. Systkini Ástríðar voru Hannes, 1919-1983, Guðmundur, 1925-2006, Sigurður, 1926-1996, Jón Ástvaldur, 1928-2017, Rósanna, 1930-2008, Steindór, 1936-2012, og Jónína, f. 1942.

Ástríður giftist 24. desember 1954 Guðleifi Sigurjónssyni, f. 1. október 1932, d. 28. maí 2010. Foreldrar hans voru hjónin Sigurjón Sumarliðason, f. 7. október 1909, d. 16. september 1942, og Margrét Guðleifsdóttir, f. 8. maí 1913, d. 26. janúar 2005. Börn Ástríðar og Guðleifs eru: a) Hjörtur Kristjánsson, f. 10. janúar 1952, maki Erna Guðlaugsdóttir og eiga þau tvö börn og fjögur barnabörn. b) Sigurjón, f. 24. maí 1955, maki Cecilie Anna Kuluk Lyberth og eiga þau einn son. c) Ásta, f. 28. maí 1956, maki Magnús Jensson og eiga þau fjögur börn og fjögur barnabörn. d) andvana stúlka, f. 12. desember 1957. e) Ragnar, f. 21. mars 1959, maki Hjördís Harðardóttir og eiga þau fjögur börn og 13 barnabörn. f) Sigurður, f. 5. febrúar 1963. g) Margrét, f. 24. maí 1966, maki Hörður Gunnarsson og eiga þau fimm börn og sex barnabörn.

Ástríður og Guðleifur hófu búskap í Auðsholtshjáleigu í Ölfusi 1953, fluttu til Hafnarfjarðar 1956 og bjuggu um tíma í Krísuvík, fluttust til Hveragerðis 1959 og bjuggu þar til 1963. Fjölskyldan fluttist þá til Keflavíkur þar sem þau byggðu einbýlishús að Þverholti 9, sem fjölskyldan flutti í um 1970. Þá voru börnin orðin sex og fór vel um fjölskylduna þar. Eftir að börnin voru farin að heiman fluttu þau að Sunnubraut 38. Þau fluttust til Hveragerðis 2003 og bjuggu á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Ási, þar sem þau dvöldu til dauðadags.

Hjónin hófu plöntusölu í Keflavík 1964 og ráku þar einnig gróðrarstöð í nokkur ár. Ástríður var heimavinnandi húsmóðir með stórt heimili og sá hún mikið um plöntusöluna á daginn á meðan Guðleifur var í vinnu. Eftir að þau seldu plöntusöluna fór hún að vinna allan daginn í fiski til ársins 1983, en þá fór hún að vinna í verslun Hagkaupa við Fitjar sem opnuð var í júlí það ár og vann þar til ársins 1998 er hún hætti vinnu vegna heilsubrests.

Ástríður tók virkan þátt í starfi St. Georgs skáta og fór í mörg ferðalög með skátunum sem og fjölskyldu sinni.

Útför Ástríðar fór fram í kyrrþey frá Hveragerðiskirkju 18. ágúst 2017 og var jarðsett í Kotstrandarkirkjugarði.

Elskulega mamma mín

mjúk er alltaf höndin þín

Tárin þerrar sérhvert sinn

sem þú strýkur vanga minn.

Þegar stór ég orðin er

allt það launa skal ég þér.

(Sig. Júl. Jóhannesson)

Elsku mamma mín, nú kveð ég þig í dag með söknuði. Þú ert loksins komin í faðm pabba og ég veit að það eru fagnaðarfundir hjá ykkur. Þú varst farin að þrá það að komast til hans því þreytt varstu orðin og lúin, nenntir þessu ekki lengur, eins og þú orðaðir það.

Þú varst alltaf svo dugleg og stoppaðir aldrei á uppvaxtarárum mínum. Alltaf að vinna í gróðrarstöðinni sem þú og pabbi voruð með hér í Keflavík og svo í garðinum heima í Þverholti sem var orðinn algjör paradís eftir eljusemina í ykkur og alltaf var ég skoppandi og trallandi í kringum þig og tínandi orma og önnur smádýr sem þú varst ekkert allt of hrifin af því þetta var í öllum vösum hjá mér.

Alltaf var heimilið skínandi hreint og ég man hvað það fór oft í taugarnar á þér hvað pabbi gat safnað miklu drasli í kringum sig og þú varst dugleg að koma því inn á skrifstofu hjá honum og loka bara dyrunum. Ég var svo lánsöm að fá að vinna með þér í Saltveri þegar ég var unglingur og oft fórum við unglingarnir í taugarnar á ykkur konunum sem skilduð ekkert í því að við vildum taka pásur og hangsa, samt varstu alltaf svo róleg yfir þessu og sá tími er mér mjög dýrmætur.

Þegar ég átti mín börn varstu alltaf boðin og búin að hjálpa mér með þau, þér þótti svo gaman að fá þau í heimsókn og þegar þú hættir að vinna varstu alltaf með opnar dyr handa litlu barnabörnunum þínum sem voru í skóla og gátu komið í hádeginu til þín og fengið að borða. Þau voru svo lánsöm að eiga ömmu sem bjó við skólann þeirra. Alltaf var kaffi til á könnunni og eitthvað með því þegar maður kom eftir vinnu til að spjalla um daginn og veginn. Oft hringdir þú í mig í vinnuna til að segja mér að þú ætlaðir að sækja Jón Kristján í leikskólann og fara í smágöngutúr með hann og að ég mætti sækja hann heim til þín seinnipartinn. Þessir tímar ykkar saman hefur greinilega verið mjög dýrmætur því Jón talar oft um það hvað gaman var þegar Ásta amma kom og sótti hann í leikskólann.

Þið ákváðuð að flytja að Ási í Hveragerði og ég man að mér fannst það alveg hræðilegt því það var svo langt þangað, þá gæti ég ekki komið við hjá ykkur eftir vinnu og fengið kaffibolla og spjallað. En „vá“ hvað þið áttuð yndisleg ár þar saman því þar hófuð þið jú ykkar búskap og þið vilduð enda hann þar. Það var eftir allt ekkert svo langt til ykkar og við reyndum að koma sem oftast, svo var síminn mikið notaður eftir að þið fluttuð austur.

Þið voruð á fullu í félagsstarfinu þar og þú hafðir svo gaman af að pútta og spila botsía enda voru það nokkrir vinningar sem þú fékkst fyrir það, þú fékkst meira að segja pabba til að pútta með þér.

Elsku mamma mín, Guð og englar á himni vaki með þér og pabba og þið hvílið nú í örmum hvors annars.

Ég elska þig að eilífu.

Þín dóttir,

Margrét.

Elsku amma. Það er svo ótrúlega erfitt að skrifa þessi lokaorð til þín. Að kveðja jafn yndislega góða og fallega manneskju og þú varst.

Það er ekkert mál fyrir okkur að rifja upp endalausar góðar minningar um þig, en til þess þyrfti heila bók. Í hjarta okkar geymum við þær allar. Að hugsa til þín vappandi um í sveitinni að skoða þig um eins og þú gerðir svo oft fær mann einungis til að brosa. Þannig leið þér best, að fá að gera það sem þú vildir og lést ekkert stoppa þig. Sveitin verður ekki söm án þín en við erum viss um að við munum finna fyrir nærveru þinni þar, rétt eins og afa heitnum. Kannski heyra hláturinn þinn og á sama tíma muna eftir hlýja brosinu þínu.

Við erum svo þakklát fyrir ömmu eins og þig, þær gerast ekki miklu betri. Það var ekki til neitt illt í þér enda sáum við þig aldrei reiða eða skammast. Þú vildir bara öllum vel og sást það jákvæða í öllum. Allir í kringum þig geta verið okkur sammála þar.

Síðustu dagarnir með þér voru vissulega erfiðir. Við erum á sama tíma ekki sár að kveðja því við vitum að hvar sem þú ert, elsku amma, þá ertu með afa. Á góðum stað þar sem veikindi eru ekki til, þið fáið að hlæja saman og halda áfram að elska hvort annað. Við erum viss um að afi hafi beðið eftir þér með opinn faðminn og tekið á móti þér.

Elsku amma, við gleymum þér aldrei. Minningin um þig mun ávallt lifa og munu börnin okkar fá að heyra sögurnar um þig og afa.

Við elskum þig og söknum þín. Þangað til næst, fallega amma okkar.

Leifur, Hákon, Kristín

og Bjarni.

Elsku besta Ásta amma mín.

Þú varst besta amma sem nokkur gat hugsað sér. Ég fyllist af gleði þegar ég hugsa um hlátur þinn og bros, en það var alltaf svo stutt í það. Þú varst alltaf svo yndisleg og góð og ég hef bara yndislegar minningar um þig og mun sakna þín.

Þegar ég hugsa til baka eru svo fjölmargar minningar frá Sunnubrautinni hjá ykkur afa, þar sem ég og hin barnabörnin eyddum mörgum stundum. Ég man eftir jólunum sem ég og mamma eyddum með ykkur þar. Ég vildi alltaf frekar koma til ykkar í hádegismat frekar en að vera í skólanum (það sem kemur fyrst upp í hugann er pylsur hitaðar í örbylgjuofni og appelsínudjús úr þykkni), og ég kom oft eftir skóla og lærði hjá ykkur.

Í framhaldskóla skrifaði ég ritgerð um ævi ykkar afa, en ég átti að velja manneskju/r sem mér þótti merkileg. Ég man hvernig þú hlóst þegar ég sagðist vilja skrifa um ykkur bæði því þér þótti þú ekkert spennandi og ég ætti að skrifa bara um afa. En eins og ég sagði við þig og skrifaði í ritgerðina að „Á bak við merkan mann stendur enn merkari kona“. Mér þykir ótrúlega vænt um og dýrmætt að eiga upptöku af viðtalinu sem ég tók við ykkur.

Ég mun alltaf hugsa sérstaklega til þín um jólin, þar sem þú hefur verið hjá okkur á aðfangadag seinustu árin. Pakkafjöldinn undir trénu mun minnka töluvert þar sem þú fékkst langflestu pakkana, meira að segja fleiri en börnin mín, og þú hafðir ekki einu sinni þolinmæði til að opna þá alla á einu kvöldi. Það sýndi hversu margir elska þig og hugsa til þín fyrir jólin.

Hvíldu í friði. Ég elska þig, elsku besta amma mín, ég mun sakna þín og vona að þú sért í paradís með afa.

Þín

Heiðrún.

Elsku systir mín, þá er komið að leiðarlokum hjá okkur. Þú kvaddir þennan heim 9. ágúst á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Mikið á ég eftir að sakna þín og allra systkina minna. Ég var alltaf mjög stolt af því að eiga fimm bræður og tvær systur. En svona er nú þetta líf og öll hafa systkini mín kvatt þessa jarðvist.

En í staðinn hef ég eignast mikinn fjölda af yndislegum systkinabörnum og hafa fjölskyldur okkar allra haldið góðum tengslum.

Hann Gísli minn biður að heilsa og þakkar ykkur Leifi fyrir allar góðu vinastundirnar sem við áttum saman. Hafðu það sem allra best í sumarlandinu með honum Leifi þínum, kæra systir mín.

Gott er ein með guði að vaka,

gráta hljótt og minnast þín,

þegar annar ylur dvín,

seiða liðið líf til baka,

og láta huggast, systir mín!

Við skulum leiðast eilífð alla,

aldrei sigur lífsins dvín.

Ég sé þig, elsku systir mín.

Gott er þreyttu höfði að halla

að hjarta guðs – og minnast þín.

(Jóhannes úr Kötlum)

Jónína Hjartardóttir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku amma mín, ég mun ætíð sakna þín og hugsa mikið til þín. Það voru forréttindi að geta verið hjá ykkur í Hveragerði því alltaf var nóg að gera hjá okkur saman, við spiluðum mikið pútt og rúntuðum mikið með afa. Nú ertu komin til hans þar sem þú vilt vera. Guð geymi þig, elsku amma mín.
Þinn
Jón Kristján.